Þriðjudagur 25. desember 2007

359. tbl. 11. árg.

Í fréttum og tilkynningum undanfarna daga hefur mátt sjá að margir sleppa að senda kærum vinum og viðskiptavinum jólakort og láta andvirðið renna til enn betra máls. Þetta er ljómandi. Með þeim örlitla fyrirvara að þar var kannski ekki alveg meiningin að þótt menn séu sælir við að gefa þurfi þeir að nýta brosið framan í blaðaljósmyndara. Þar er sælla að gefa en þiggja þjóðarathygli fyrir.

Fréttir bárust af að minnsta kosti tveimur ráðherrum sem tóku þann kostinn að senda engin jólakort heldur gefa peninginn til þarfari málefna. Sömuleiðis ljómandi hjá þeim. Með þeim örlitla sama fyrirvara og áður var nefndur. Sælan við að gefa á að beinast inn á við en ekki framan í sjónvarpsmyndavélar. Og kannski má nefna annan lítinn fyrirvara. Það er ekkert sem skyldar ráðherra til að senda jólakort út um allar trissur. Það er ekkert sérstakt sem hvetur þá til þess heldur. Um hver einustu útgjöld ríkisins þarf að taka ákvörðun á hverju ári.

Hvernig gerist það þá að ráðherra hættir við að setja peninga skattgreiðenda í jólakort og veitir þeim annað? Var það til dæmis þannig að nú í haust ákvað umhverfisráðherra að senda jólakort en nokkrum dögum síðar ákvað hún að peningunum væri betur varið í eitthvað annað?

Hvað næst? Heilbrigðisráðherra hættir við að stofna nefnd um viðbragðsáætlun vegna fljúgandi furðuhluta og veitir peningum skattgreiðenda í staðinn til bágstaddra?