Mánudagur 31. desember 2007

365. tbl. 11. árg.

ÁRAMÓTAÚTGÁFA

S em stundum áður hefur Vefþjóðviljinn tekið saman þau atriði sem óþarfi er að hverfi með árinu inn í aldanna skaut.

Fjölelti ársins: Allir starfsmenn Veðurstofunnar kvörtuðu undan einelti.

Sprell ársins: Skemmtilegur strákur á Akranesi plataði Hvíta húsið og var næstum lentur á kjaftatörn við forseta Bandaríkjanna. Íslenskum fréttamönnum þótti þetta mjög skemmtilegt.

Ósvífni ársins: Pörupiltur á Akranesi plataði fréttastofu Stöðvar 2 til að taka viðtal við rangan mann. Þannig eyddi hann dýrmætum tíma fréttamanna, sem eru mikilvægir menn. Fréttamönnum þótti þetta mjög alvarlegt.

Stofnun ársins: Öryggisráð Femínistafélags Íslands.

Framlag ársins: Skattgreiðendur fengu í skóinn þegar alþingi ákvað að þeir skyldu leggja eina og hálfa milljón króna í átakið – ár kartöflunnar 2008.

Baráttumál ársins: Steinunn Valdís Óskarsdóttir hóf baráttu fyrir því að hún sjálf yrði aldrei ráðherra. Það er út af fyrir sig ágætt markmið.

Steyting ársins: Svandís Svavarsdóttir mætti bálreið á fund borgarstjórnar Reykjavíkur og steytti hnefann í átt að þeim sem mesta ábyrgð bæru á REI-málinu. Fór svo heim og myndaði meirihluta með Framsóknarflokknum.

Deyfð ársins: Guðni Ágústsson lýsti því yfir að forsætisráðherra væri „daufur og sinnulaus“. Þó þetta sé ósanngjörn gagnrýni þá má ekki misvirða hana við Guðna. Hann er náttúrlega svo góðu vanur eftir öll hressu árin með Halldóri Ásgrímssyni.

Borgarfulltrúi ársins: Margrét Sverrisdóttir.

Landkynning ársins: Stöð 2 fagnaði því að „milljónir bítlaunnenda“ hefðu fengið þau skilaboð frá Yoko Ono, ekkju tónlistarmannsins Johns Lennons, að þeir ættu endilega að fara í heimsókn til Íslands. Bítlaunnendur eru einmitt svo ánægðir með Yoko Ono og framlag hennar til Bítlanna.

Snarræði ársins: Faglegir stjórnendur bresku lögreglunnar gátu naumlega hindrað tvo lögregluþjóna í að bjarga drukknandi dreng úr tjörn. Lögreglumennirnir höfðu ekki lokið viðeigandi námskeiði og höfðu því ekki fullnægjandi fagleg réttindi til að bjarga úr tjörnum. Drengurinn drukknaði að vísu, en verkferlum var fylgt og það er fyrir mestu.

Sökudólgur ársins: Einar Hermannsson skipaverkfræðingur.

Viðskiptabann ársins: Bandaríska bóksölukeðjan Borders tilkynnti að framvegis yrði hin ógeðfellda bók, Tinni í Kongó, ekki lengur boðin þar til sölu. Viðskiptavinirnir verða þá að láta sér nægja bækur eins og Kommúnistaávarpið og Mein Kampf, sem áfram verða seldar.

Mæting ársins: Við opnun „íslenska skálans“ á hinum gríðarlega mikilvæga „Feneyjatvíæringi“ kom íslensk söngkona og söng fallegt lag á íslensku. Allur salurinn tók undir, enda stútfullur af íslenskum menningarvitum, mættum að fylgjast með landkynningunni.

Yfirlæti ársins: Íslenska landsliðið í fótbolta ofmetnaðist eftir að hafa náð jafntefli við Liechtenstein á heimavelli og steinlá fyrir þeim úti. Enda völlurinn í Vaduz kunn ljónagryfja þar sem meira að segja san-marínóska vélin hefur stundum hikstað.

Vitneskja ársins: Öllum helstu samsæriskenningasmiðum landsins var kunnugt um það að Jón H. B. Snorrason yrði skipaður ríkissaksóknari.

Launaáhugamenn ársins: Eftir þingkosningar lögðust ríkisfjölmiðlarnir í mikla útreikninga á því hvað biðlaun hættra þingmanna myndu kosta skattgreiðendur.

Launaáhugaleysi ársins: Ríkisfjölmiðlarnir höfðu engan áhuga á að reikna út hvað þau myndu kosta, biðlaunin sem fjölmargir starfsmenn Ríkisútvarpsins fengu þegar stofnuninni var breytt í „opinbert hlutafélag“.

Flakkarar ársins: Þingflokkar landsins eru fimm. Í meirihluta þeirra situr fyrrverandi formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna.

Raunsæismaður ársins: Eftir þingkosningar taldi Björn Ingi Hrafnsson að með 11 % fylgi gæti Framsóknarflokkurinn ekki reynt að fá aðild að ríkisstjórn. Hann mun einnig vera þeirra skoðunar að flokkar með 6 % fylgi eigi ekki að reyna að setjast í meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur.

Verðskuldun ársins: Kristinn H. Gunnarsson náði kjöri til þings.

Endurnýjun ársins: Ellert B. Schram kom ferskur til starfa á alþingi fyrir Samfylkinguna. Þegar hann var fyrst kjörinn á þing voru enn átta ár í að Halldór Blöndal yrði kjörinn alþingismaður í fyrsta sinn.

Ásættir ársins: Guðrún Ögmundsdóttir sagði fyrir kosningar að allt undir 32 % fylgi Samfylkingarinnar væri „óásættanlegt“. Enginn fjölmiðill hafði áhuga á skoðun hennar á þeim 26,8 % sem flokkurinn fékk.

Fyrirsjón ársins: Netútgáfa Morgunblaðsins sló því upp með stríðsletri að Ségolene Royal myndi „hafa það“ og verða næsti forseti Frakklands. Þegar kafað var í „fréttina“ kom í ljós að þetta var eingöngu vísdómur úr Torfa Túliníusi prófessor, sem Morgunblaðið hefur mikla trú á. Við árslok eru endanleg kosningaúrslit enn á huldu, því ekki hefur náðst í Túliníum.

Fjölmiðlaáhugamenn ársins: Morgunblaðið greindi frá því að Samfylkingin hefði lagst á blaðið til að fá tekna út frétt um ósætti á landsfundi flokksins. Enginn fjölmiðill hafði áhuga á málinu enda sennilega goðsögn að fjölmiðlamenn hafi áhuga á fjölmiðlum. Þeir hefðu heldur ekki gert neitt ef einhver annar flokkur hefði átt í hlut.

Frambjóðendur ársins: Baráttusamtökin.

Áróðursmenn ársins: Vinstrigrænir héldu í kosningabaráttunni áfram þeirri sérstöðu sinni að leggja áherslu á málefni en ekki menn, innihald en ekki umbúðir.

Sóknarmenn ársins: KR-ingar komu dýrvitlausir til leiks á Íslandsmótinu í knattspyrnu. Í flestum leikjum fengu þeir að minnsta kosti horn, í sumum hreinlega skoruðu þeir.

Principmenn ársins: Í ljós kom að Stöð 2 hafði þegið fjárstyrk frá álverinu í Straumsvík til að senda út umræðuþáttinn Kryddsíld. Steingrímur J. Sigfússon hafði verið í þættinum og lýsti því yfir að það væri „sérstaklega óviðeigandi“ að fá slíka kostun frá „stórfyrirtæki sem stendur fyrir mjög umdeildum áformum“. Ögmundi Jónassyni var ekki meira skemmt heldur sagði að slegið hefði verið met „í óskammfeilni og smekkleysu að stjórnmálaforingjar sitji frammi fyrir þjóð sinni í boði Alcan í kjölfar álinnpakkaðrar mútugjafar til Hafnfirðinga.“

Fjársafnarar ársins: Á sama tíma barst álverinu bréf þar sem beðið var um fjárstyrk á útgjaldafrekum kosningavetri. Undir bréfið ritaði, fyrir hönd hins áruhreina flokks, Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, Steingrímur J. Sigfússon.

Áhugamenn ársins: Fréttamenn höfðu nákvæmlega engan áhuga á því að vinstrigrænir leituðu sjálfir eftir fé hjá því sama fyrirtæki og þeir fordæma aðra fyrir að skipta við.

Nafnbreyting ársins: Eftir kosningar ákvað Íslandshreyfingin – lifandi land, að taka upp nafnið Íslandshreyfingin – langt í land.

Samningur ársins: Menntamálaráðuneytið og Ríkisútvarpið gerðu sérstakan samning um að svonefndum íþróttafréttum og öðrum íþróttasýningum yrði framvegis gætt jafnræðis milli kynja. Það verður skemmtilegt þegar samningurinn verður að fullu kominn til framkvæmda og fyrir hverja mínútu sem sagt verður frá úrvalsdeild breskra karlmanna í knattspyrnu verður önnur lögð undir nýjustu tíðindi af bresku kvennaknattspyrnunni. Svo „jafnræðis verði gætt“.

Kuldaboli ársins: Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson lét slökkva á ísskáp.

Virðingarröð árins: Morgunblaðið upplýsti að hollenska hirðin hefði þann hátt á, að þar kæmi „Willem-Alexander fram fyrir hönd móður sinnar, Beatrix drottningar, en ekki eiginmaður hennar, Claus prins.“ – Þetta eru ánægjuleg tíðindi enda væri ekki fallega gert af Hollendingum að draga blessaðan prinsinn fram með konu sinni, nú fimm árum eftir andlát hans.

Lögregluþjónn ársins: Steingrímur J. Sigfússon, netlögregluþjónn.

Fjáröflun ársins: Á heimasíðu vinstrigrænna var Steingrímur J. Sigfússon sýndur í gervi morðingjans Che Guevara, þar sem reynt var að safna fjár til flokksstarfseminnar.

Klagarar ársins: Með fimmtán samhljóða atkvæðum beindi íslensk sveitarstjórn, borgarstjórn Reykjavíkur, því til yfirvalda að rannsaka hvort verið gæti að hópur erlendra ferðamanna, sem hingað var væntanlegur, gæti ekki verið sekur um barnaklám.

Björn ársins: Björn Bjarnason, Bjössi.

Skörungar ársins: Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar í Hafnarfirði töldu afar óeðlilegt ef kjörnir fulltrúar færu að lýsa skoðun sinni á málefni sem lagt hefði verið í kosningu íbúanna. Allir sem einn neituðu þeir því að gefa upp hvaða afstöðu þeir hefðu til umdeildasta hagsmunamáls bæjarbúa, hugsanlegrar stækkunar álversins í Straumsvík.

Baráttumaður ársins: Lúðvík Geirsson er aldrei hræddur við að segja skoðun sína á helstu málum, enda hikaði hann ekki við það á sínum tíma að berjast fyrir því að Hafnfirðingar samþykktu í atkvæðagreiðslu sameiningu Hafnarfjarðar og Voga.

Refur ársins: Stefán Jón Hafstein nennti ekki að hanga í minnihluta í borgarstjórn og flutti til Malaví.

Frumhlaup ársins: Biskup hljóp á sig með því að kalla samtök ein hatrömm. Hann hafði varla sleppt orðinu þegar forsvarsmenn þeirra steyptu sér yfir hann eins og gammar og hröktu málflutning hans kröftuglega.

Fagmennska ársins: Náttúrugripasafn Íslands réði ekki við að geyma geirfugl með öruggum hætti, en fugl safnsins fór illa út úr raka þegar flæddi inn á gólf í safninu. Eins gott að það er auðvelt að fá annan.

Viðbrögð ársins: Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra kynnti nýtt frumvarp sitt til jafnréttislaga. Og leist ekki betur á en svo að það leið yfir hann um leið. Skiljanlega.

Villuleysi ársins: Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins eru nákvæmnismenn og mótuðu þá stefnu að þó þeir væru til í allt, þá yrði að það að vera án villna. Því miður misritaðist yfirlýsing þeirra og olli nokkrum misskilningi.

Áfall ársins: Áfallastreita.

Áfallastreita ársins: Áfallastreituröskun.

Áfallastreituröskun ársins: Áfallastreituröskunarfrávik

Klukka ársins: Einar Bárðarson, sendiherra Nælons.

Útskýring ársins: „Við höfum engar forsendur fyrir því að meina þeim aðgöngu að hótelinu. Svo framarlega sem þeir fara hér að lögum og reglum og trufla eða særa ekki aðra gesti hótelsins þá höfum við í rauninni ekkert haldbært í höndunum til þess að neita að taka við þeim. Við höfum ekki lagt það í vana okkar að yfirheyra gesti okkar um það hvaða atvinnu þeir hafa eða hvað þeir gera sér til dægrastyttingar“, sagði Hrönn Greipsdóttir, hótelstjóri Hótels Sögu, 22. febrúar, þegar hún útskýrði hvers vegna hótelið léti ekki undan múgæsingu og sviki samning sem hótelið hafði gert við hóp af væntanlegum gestum sínum.

Samningsaðilar ársins: Hinn 23. febrúar tilkynnti Hótel Saga að það myndi ekki hleypa umræddu fólki inn á hótelið, þrátt fyrir samning við það um gistingu.

Framlag ársins: Nokkru síðar ákvað hótelið að greiða hópnum nokkrar milljónir króna. En tók skýrt fram að það væru ekki skaðabætur fyrir samningsrof. Greiðslan skoðast því sem frjálst framlag til klámmyndagerðar og sýnir að íslenskir bændur, sem reka hótelið, eru óþreytandi í leit sinni að nýjum búgreinum.

Starfsheiti ársins: Viðbragðsaðili.

Viðskiptavit ársins: Í árslok rann það upp fyrir hverjum einasta manni að hann kunni miklu meira fyrir sér í viðskiptum en Hannes Smárason. Allir vita hvar Hannes misreiknaði sig. Enginn hefði gert sama feil sjálfur.

Meirihluti ársins: Um kosninganóttina stefndi lengi í að stjórnarandstöðuflokkarnir næðu samanlagðir eins þingsætis meirihluta. Fréttamenn og stjórnmálaskýrendur réðu sér vart af ákafa yfir hinni nýju ríkisstjórn.

Minnihluti ársins: Niðurstaða kosninganna varð þó sú að ríkisstjórnin hélt velli með eins þingsætis meirihluta. Fréttamenn og stjórnmálaskýrendur töldu að hún gæti vart setið, og yrði að minnsta kosti mjög veik ef hún reyndi það.

Öryggisventill ársins: Fyrir ári stefndi í mikinn kosningasigur vinstrigrænna. Þeir ákváðu að taka kosningasigurinn út fyrirfram í tveimur lotum, álverskosningunni í Hafnarfirði og baráttunni gegn „klámráðstefnunni“.

Eftirlitsmenn ársins: Talsmaður neytenda stakk upp á því að íslenskir neytendur færu skipulega í verðlagseftirlit, en í stað þess að hver einasti maður fylgdist með verðbreytingu allra vara, þá myndi hver og einn fylgjast með einni tiltekinni vöru. Reyndar tók talsmaðurinn ekki fram hvernig best væri að haga skipulagningu átaksins en sjálfsagt er eðlilegast að neytendur hittist bara einhvern tíma þegar öllum hentar og skipti þessu á milli sín.

Leynd ársins: Haraldur Örn Ólafsson hefur ekki farið í heimsreisu á árinu svo vitað sé. Allt til að halda Ingþóri utan áramótaannálsins.

Safnarar ársins: Framtakssamir kennarar í Rimaskóla steiktu níuþúsund kleinur og seldu til að fjármagna ferðalag til Bretlands. Einn þeirra útskýrði fjáröflun ferðarinnar nánar með orðunum: „Við fáum styrk frá stéttarfélagi okkar, Kennarasambandi Íslands, en afganginn þurfum við að fjármagna sjálf.“ – En hverjir ætli fjármagni Kennarasambandið?

Áskorendur ársins: Þrjúþúsund og fimmhundruð manns skoruðu á Hjálmar Árnason að gefa kost á sér í efsta sæti Framsóknarflokksins á Suðurlandi.

Stuðningsmenn ársins: Fjórtánhundruð tuttugu og einn kaus Hjálmar Árnason í efsta sæti Framsóknarflokksins á Suðurlandi.

Handaband ársins: Margrét Sverrisdóttir bauð sig fram gegn sitjandi varaformanni Frjálslynda flokksins, og sagðist með því „rétta fram sáttahönd“.

Varkárni ársins: Magnús Þór Hafsteinsson, þingmaður suðurkjördæmis, ákvað að færa sig yfir í suðvesturkjördæmi til öryggis. Grétar Mar Jónsson tók við efsta sæti frjálslyndra í suðurkjördæmi.

Umskipti ársins: Samfylkingin er komin í ríkisstjórn. Fátæktin er að hverfa.

Skelfing ársins: Þetta er „náttúrlega skelfilegt“, sagði Kristján Hreinsson skáld réttilega í Ríkisútvarpinu, þegar það af skiljanlegum ástæðum spurði hann um þau tíðindi að verð á sundmiða var hækkað úr 280 krónum í 350. Og bætti við: „Þetta er eiginlega bara lýsandi dæmi fyrir það hvernig helmingaskiptaveldið hagar sér, og það kemur hérna valdalaus flokkur og kemst í stjórn sem heitir Framsóknarflokkur og er sem betur fer á alveg undanhaldi í íslenskri pólitík en og þegar að hann fer að tjá sig með íhaldinu þá er þetta náttúrlega staðan að menn lofa að lækka skatta en hækka álögur á einstaklinga.“

Klæðnaður ársins: Femínistar voru vinstrigrænir af reiði yfir því að fyrsta dag ævi sinnar væru reykvískir nýburar í bleikum fötum eða bláum, eftir kynferði. Miklu betra væri að allir væru bara í hvítum bol, helst merktir sem eign þvottahúss ríkisspítalanna.

Sigurvegarar ársins: Guðfríður Lilja Grétarsdóttir var langt fyrir ofan Álfheiði Ingadóttur og Árna Þór Sigurðsson í prófkjöri vinstrigrænna. Þau eru á þingi en hún ekki.

Grátstafur ársins: Ögmundur Jónasson sagðist ekki gráta það þó bankarnir færu úr landi.

Þöggun ársins: Tuttugasta og níunda febrúar sagði netútgáfa Morgunblaðsins ekki nokkra frétt af Paris Hilton. En hefði gert það ef það hefði verið hlaupár.

Vinir ársins: Björn Bjarnason og Egill Helgason.

Einkunn ársins: Atvinnuástandið og horfurnar fengu hæstu mögulegu einkunn hjá hafnfirskum kjósendum þegar þeir létu sig ekki muna um að hafna stækkun eftirsóttasta vinnustaðar bæjarins.

Hreinsunarátak ársins: Eftir að veitingahúsaeigendum var bannað að leyfa gestum sínum að reykja innandyra, fylltust götur og torg af brotnum glösum og vindlingastubbum.

Kenning ársins: Eins og hendi væri veifað fylltust allir þættir af þeirri kenningu að andspyrna óbreyttra borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík við „REI-málið“ kæmi til af vonbirgðum þeirra með að hafa tapað fyrir Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni í prófkjöri. Þau Jórunn, Þorbjörg, Kjartan og Júlíus eru víst enn í hefndarhug eftir tapið fyrir Vilhjálmi. Og þá ekki síður Hanna Birna sem óskaði eftir kjöri í 2. sæti í prófkjörinu og fékk það með glæsibrag. Hinu megin var Svandís Svavarsdóttir í sama hefndarhuga.

Trúnaður ársins: Bjarni Ármannsson benti réttilega á að samningar um kaup og kjör milli Orkuveitu Reykjavíkur, Reykjavik Energy Invest og einstakra starfsmanna væru algert trúnaðarmál.

Nútímamaður ársins: Varla var þurr hvarmur á landsfundi Samfylkingarinnar í vor, þegar þáverandi bankastjóri Íslandsbanka flutti harða ræðu gegn „launaleynd“.

Fjölmiðill ársins óskar lesendum sínum velgengni og góðvildar á komandi ári.