Miðvikudagur 28. nóvember 2007

332. tbl. 11. árg.

Þ að hlakkar víst í mörgum yfir þeirri útreið sem svokallaðir femínistar hafa fengið síðustu daga.

Forsvarsmenn þeirra hafa löngum setið og talið hausa karla og kvenna í umræðuþáttum og komist að þeirri niðurstöðu, sem að vísu var gefin í byrjun, að fleiri karlar en konur séu í slíkum þáttum. Þessi niðurstaða hefur gefið tilefni til mikilla ásakanna um hallað sé vísvitandi á konur í umræðuþáttum þótt ekkert liggi fyrir um að færri konum en körlum sé boðið að taka þátt.

Nokkrum helstu forsvarsmönnum femínista mun svo hafa verið boðið í Silfur Egils í Ríkissjónvarpinu um síðustu helgi að ræða helstu tíðindi liðinnar viku; nýtt jafnréttisfrumvarp, umsögn borgarráðs um nektardansstaði og ástandið á húsnæðismarkaði. Þrátt fyrir að vera kvenkyns og hafa lýst miklum skoðunum á þessum málum á undanförnum árum afþökkuðu þeir og lögðu þar með upp laupana að margra mati.

En.

Nýlega tókst femínistum að fá flesta stjórnmálamenn landsins með sér í múgæði gegn nokkrum ráðstefnugestum á Hótel Sögu. Eigendur hótelsins báðust í kjölfarið afsökunar á því að vera til og lokuðu dyrum sínum fyrir gestunum.

Borgarráð lagðist í síðustu viku gegn öllum umsóknum um starfsleyfi fyrir nektarstaði. Þetta gæti haft þau áhrif að nektardans á veitingastöðum verði í raun bannaður í borginni, að minnsta kosti þar til menn láta reyna á það fyrir dómstólum hvort atvinnufrelsi er verndað í stjórnarskránni.

Fyrr í mánuðinum var einnig lagt fram stjórnarfrumvarp um jafnréttismál þar sem gengið er lengra en nokkru sinni í þjónkun við kröfur femínista. Samningsfrelsi verður tekið mönnum með ákvæðum gegn svonefndri launaleynd. Fyrirtækjum verður gert að semja jafnréttisáætlanir og rökstyðja ráðningar sínar á starfsfólki með skýrslugerð. Jafnréttisstofa fær heimild til innrása í fyrirtæki og til að sekta ef þau standa sig ekki í skrifræðinu og skýrslugerðinni. Fyrir jafnréttisstofunni fer svo ekki bara einhver rykfallinn embættismaður sem lært hefur meðalhófsregluna heldur einn af þessum femínistum.

Hvers vegna ættu femínistar að ómaka sig á að mæta í umræðuþætti um þessi mál nú þegar búið er að ganga að nær öllum kröfum þeirra?