Þriðjudagur 27. nóvember 2007

331. tbl. 11. árg.

B rúnaþungir alþingismenn með félagsmálaráðherra í broddi fylkingar bjóðast nú til að „jafna stöðu og rétt kvenna og karla“ með glænýjum lögum þess efnis. Svipuð lög hafa að vísu oft verið sett og stöguð áður. Jafn oft hafa helstu aðstandendur þeirra kveðið upp úr um að enginn árangur hafi náðst í jafnréttisbaráttunni og með sama áframhaldi náist ekki launajafnrétti milli kynjanna fyrr en eftir 670 ár. Grauturinn er bragðvondur, gæti ég fengið meira.

Samtök atvinnulífsins lögðu nýlega sömu mælistiku á laun alþingismanna og jafnan er lögð á laun þegar kynbundinn launamunur er kannaður. Í ljós kom að meðallaun þingkarla voru 5,7% hærri en þingkvenna. Hinn svokallaði „óútskýrður kynbundinn launamunur“ þingmanna mældist 3,7%. Alþingi sjálft setur lög um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað. Þótt launin séu ákveðin með lagaboði tekst þó ekki betur til en svo að meðal þingmanna er „óútskýrður kynbundinn launamunur“.

Þegar betur er að gáð má auðvitað skýra þennan mun. Álagsgreiðslur til þingmanna skýra muninn. Karlarnir gangast frekar en konurnar undir aukið álag og fá greitt fyrir það.

Þetta litla dæmi er afar upplýsandi um þær tröllasögur sem sagðar eru um „launamun kynjanna“ í daglegri umræðu.

Vinnutími, menntun, ábyrgð, mannaforráð og ótal aðrir þættir sem erfitt er að mæla í kjarakönnunum hafa áhrif á laun. Einn óljós þáttur sem nefna má í því samhengi er hversu menn eru tilleiðanlegir í vinnu á meðan þeir eru í fríi; gefa menn kost á því að hringt sé í þá, svara þeir tölvupósti jafnharðan og hann berst, skjótast menn úr fríi í vinnuna og svo framvegis. Þetta er aldrei mælt í kjarakönnunum – og verður líklega aldrei hægt að mæla að gagni – en hefur vafalaust áhrif á laun manna.

Alþingi hefur ekki tekist að eyða eyða hinum „óútskýrða kynbundna launamun“ í eigin ranni. Jafnvel þótt þingið setji sérstök lög um laun alþingismanna. Hverjar eru þá líkurnar á því að með nýjum lögum fá Alþingi um „jafna stöðu og rétt kvenna og karla“ takist að eyða hinum „óútskýrða kynbundna launamun“ á almennum vinnumarkaði?

Baráttan gegn engu mun engu skila.