Ég held að bleiki liturinn sé að festa sig í sessi aftur. Það var einmitt markmiðið með því að velja litinn sem einkennismerki félagsins. Við ákváðum það í upphafi að vera ekki með eitthvað merki fyrir félagið, heldur bara lit, bleika litinn til þess einmitt að hefja hann til vegs og virðingar til jafns á við bláa litinn sem er talinn hefðbundinn strákalitur og þá á stelpuliturinn auðvitað að eiga sinn sama sess. |
– Katrín Anna Guðmundsdóttir, talskona Femínistafélags Íslands, í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins 1. maí 2006. |
V
Hverjum datt eiginlega í hug að setja stelpur í bleikt? |
efþjóðviljinn verður að játa að hann er ekki vel að sér í kynjafræðunum. Femínistafélag Íslands fékk jafnréttisviðurkenningu Reykjavíkurborgar skömmu fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar fyrir „hugmyndaríka vinnu gegn staðalímyndum kynjanna“. Til að leggja áherslu á baráttuna gegn staðalímyndum kynjanna er félagið ekki með neitt merki heldur bara bleika litinn því hann er „stelpulitur“. Talskona félagsins sagði einnig að sá bleiki verðskuldi ekki síðri sess en blái liturinn.
Femínistar á hinu háa Alþingi hafa nú vikið að mjög mikilvægu máli sem á þeirra mállýsku heitir „aðgreining kynjanna við fæðingu“. Kolbrún Halldórsdóttir alþingismaður hefur lagt fram fyrirspurn til heilbrigðisráðherra um hvort „til greina komi að þeirri hefð verði breytt á þann veg að nýfædd börn verði ekki aðgreind eftir kyni með bleikum og bláum armböndum og að þau verði framvegis klædd í hvítt eða aðra kynhlutlausari liti?“ Kolbrún spyr jafnframt heilbrigðisráðherra hvernig það hafi eiginlega getað gerst að sú hefð hafi mótast á fæðingardeildum að setja stelpur í bleikt og stráka í blátt. Henni er ekki skemmt.
En öllum öðrum.