Laugardagur 24. nóvember 2007

328. tbl. 11. árg.

F

Fyrir nokkrum árum varð Dönum það á að klúðra kosningu um gjaldmiðilsskipti í landi sínu. Ríkisstjórnin hafði efnt til kosningar til þess að kasta hinni gamalgrónu dönsku krónu en taka í staðinn upp nýja og fína mynt sem hefði auk þess sparað fjármálamönnum dýrmætan tíma sem í dag fer í hugarreikning og hamagang á reiknivélum þegar hlutaðeigandi upphæð fer yfir þúsundogeina krónu. En Danir, það er að segja meirihluti danskra kjósenda, sýndi vanþekkingu sína þegar þeir fóru á kjörstað og hreinlega hittu ekki á réttan reit á kjörseðlinum. Þess vegna þarf danska ríkisstjórnin nú að efna til nýrrar kosningar um sama málefni, ef landsmenn kynnu að hafa þroskast eitthvað frá því síðast.

Sama klúður henti danska kjósendur nokkrum árum áður þegar ríkisstjórninni varð það á að bera undir þá samning sem hún hafði af snilld sinni gert við ekki minni höfðingja í öðrum löndum. Þá klúðruðu kjósendur sínum málum og höfnuðu samningnum, alveg óvart sjálfsagt, svo ríkisstjórnin varð að láta láta kjósa upp á nýtt, eftir að hafa fengið nokkrar undanþágur frá fyrri samningi. Þá tókst að stafa þetta ofan í kjósendur svo þeim tókst loks að hitta á rétt í kosningunni. En þessar undanþágur, sem fengust vegna dynta í kjósendum en ekki sem afrakstur sameiginlegarar vinnu faglegra embættismanna, eru auðvitað bölvað vesen og alls ekki „Dönum í hag“ – og er hér rétt að leggja áherslu á að þá er átt við þá Dani sem vinna í Evrópuiðnaðinum en ekki þá fáu og óþörfu Dani sem hokra utan hans. Þess vegna þarf danska ríkisstjórnin nú að efna til nýrrar kosningar um Evrópumálin svo losna megi við þessa furðulegu fyrirvara sem ekki eru faglegir.

Sama saga er tíð á Íslandi og snýst reyndar um sameiningu sveitarfélaga en ekki enn þá um inngöngu í erlend skrifræðisbákn eða niðurfellingu gjaldmiðilsins. Íslenskir sveitamenn eru sífellt að klúðra sameiningarkosningum og þess vegna þarf að kjósa aftur og aftur.

Svona hafa hinir faglegu sérfræðingar það. Þeir vilja ráða öllu í krafti fagmennsku sinnar, en lýðræðið má ekkert hafa um það að segja. Þess vegna er alltaf kosið aftur og aftur þangað til að fagmennirnir hafa haft sitt fram. Eftir það er aldrei kosið meir.