Föstudagur 23. nóvember 2007

327. tbl. 11. árg.

Þ eir Stefán Ólafsson prófessor og Indriði H. Þorláksson fyrrverandi ríkisskattstjóri hafa á undanförnum misserum reynt að telja fólki trú um að skattar hafi verið hækkaðir. Helsta röksemd þeirra er að skattbyrði hafi aukist. Með öðrum orðum greiða menn hærra hlutfall launa sinna í skatt en áður. Þetta með skattbyrðina er alveg rétt en segir ekki nema hálfa söguna. Við launahækkun greiða menn hærra hlutfall í skatt. Vegna persónuaflsáttar greiða menn ekkert af 90 þúsund króna tekjum en um 35% af milljónatekjum. Við hverja viðbótarkrónu sem menn afla hækkar það hlutfall sem menn greiða í skatt. Eina leiðin til að koma í veg fyrir þetta er að taka upp flatan skatt sem Stefán og Indriði hafa þó hvorugur lagt til.

Í vefriti fjármálaráðuneytisins í gær kom fram að tekjuskattur fyrirtækja fjórfaldaðist á milli áranna 2001 og 2006. Árið 2001 var tekjuskattur fyrirtækja lækkaður úr 30% í 18%. En meiri hagnaður fyrirtækjanna hefur skilað hærri sköttum. Skattarnir voru fjórfalt hærri í fyrra en fyrir fimm árum. Hefur tekjuskattur fyrirtækja þá ekki hækkað? Líklega myndu Stefán Ólafsson og Indriði H. Þorláksson svara þeirri spurningu játandi. Fyrirtæki hafa sennilega aldrei greitt hærri hluta af innkomu sinni í skatt. Skattbyrðin hefur aukist við að skatturinn var lækkaður úr 30 í 18%. En rétt eins og í tilfelli einstaklinganna segir skattbyrðin ekki alla söguna. Skattbyrði getur aukist þótt skattar lækki.

Það er þó nokkuð misjafnt milli atvinnugreina hvort þær greiði meira í skatt nú eða fyrir fimm árum. Fiskveiðar er ein þeirra greina sem skilar ekki meiri tekjuskatti nú en fyrir fimm árum þótt tekjuskatturinn hafi lækkað úr 30 í 18%. Stefán og Indriði telja þá væntanlega að skattlagning fiskveiða sé alveg óbreytt. Svo eru greinar eins og fjarskipti sem skila minnu en áður. Þær greinar eru þá að öllum líkindum þær einu sem skattar hafa verið lækkaðar á að mati Stefáns og Indriða.

V efþjóðviljinn lýsir yfir fyllsta stuðningi við málflutning Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur, fyrrverandi borgarstjóra. Vonandi verður hún aldrei ráðherra.