Helgarsprokið 25. nóvember 2007

329. tbl. 11. árg.
Þetta snýst ekki um dansmeyjarnar sem einstaklinga, þetta snýst um viðhorfin í samfélaginu
– Sóley Tómasdóttir, varaborgarfulltrúi og formaður svo kallaðrar mannréttindanefndar Reykjavíkurborgar í 24 stundum þriðjudaginn 20. nóvember 2007.
Við minnum einnig á að einungis einstaklingar hafa vilja – ekki þjóðir.
– Vefþjóðviljinn, síðan 1997.

Í nýliðinni viku ákvað meirihluti borgarráðs að nota vald sitt til umsagnar um skipulagsmál til að leggjast gegn því að veitingastaðirnir Bóhem, Vegas og Óðal fengju leyfi til að bjóða gestum sínum upp á nektardans. Rökin voru ekki þau að bílastæði skorti eða að um hafnsækna starfsemi væri að ræða né heldur að starfsemin væri í íbúðarhverfi. Nei, rökin voru þau, samkvæmt því sem haft er eftir Sóleyju Tómasdóttur, formanni mannréttindanefndar að „stjórnvöld geta ekki sætt sig við að líkamar kvenna séu hlutgerðir á þann hátt sem gert er á nektardansstöðunum.“

Það er sum sé ekki gert ráð fyrir hlutgervingu kvenlíkamans neins staðar í skipulagi Reykjavíkurborgar, hvorki á Grensásvegi, Laugavegi né í Austurstræti. En hlutgerving kvenlíkamans er ekki bundin við ákveðin svæði í borginni, hún er bundin við ákveðin svæði í heilanum. Hin meinta hlutgerving kvenlíkamans á sér stað í hugum fólks. Fólk ýmist persónugerir eða hlutgerir líkama annars fólks eftir því sem efni og aðstæður gefa tilefni til, oft á dag, úti um borg og bý.

„En hlutgerving kvenlíkamans er ekki bundin við ákveðin svæði í borginni, hún er bundin við ákveðin svæði í heilanum. Hin meinta hlutgerving kvenlíkamans á sér stað í hugum fólks. Fólk ýmist persónugerir eða hlutgerir líkama annars fólks eftir því sem efni og aðstæður gefa tilefni til, oft á dag, úti um borg og bý. Það sem borgarráð er því í raun og veru að segja er að skipulagsvaldi þess megi jafnt beita á hugsanir borgarbúa sem flatarmál borgarinnar.“

Það sem borgarráð er því í raun og veru að segja er að skipulagsvaldi þess megi jafnt beita á hugsanir borgarbúa sem flatarmál borgarinnar. En þar sem til Reykjavíkurborgar var stofnað í mikið til sama tilgangi og stofnað er til húsfélags þá eru, eins og gefur að skilja, ekki mörg tæki sem bjóðast stjórnlyndum borgarfulltrúum til að hlutast til um hugsanir samborgara sinna. Og þess vegna hefur nýfæddur meirihluti í borgarstjórn hafist handa við að breyta þeim tækjum sem þegar eru fyrir hendi til að þóknast málstað sínum. Þess vegna telst það allt í einu gilt að rökstyðja álit um skipulagsmál með því að vísa í hugsanir fólks sem eru borgarfulltrúunum ekki þóknanlegar.

Það skyldi því engan undra ef næsta verk þessara sömu borgarfulltrúa yrði að heimta aðgang að útlánaskrám Borgarbókasafns. Úr þeim má lesa ýmislegt um hugsanir einstakra borgarbúa. Á Kjarvalsstöðum, listasafni borgarinnar, verður úrkynjaðri list svo væntanlega ýtt til hliðar en tæpast er að finna afdráttarlausari og umfangsmeiri dæmi um hlutgervingu kvenlíkamans en einmitt þar. Allt verður þetta gert í nafni skipulagsmála, þar til þau fá betra tæki.

Samkvæmt þessu er kvenlíkaminn þá ekki lengur eign hverrar konu fyrir sig heldur er hann tákn sem fellur undir yfirráð örfárra einstaklinga. Svona eins og íslenski fáninn, það má ekki láta hann snerta jörðu, það má ekki flagga honum eftir sólarlag, það má ekki flagga honum upplituðum eða trosnuðum. Hvenær verða konum birtar þessar reglur um kvenlíkamann? Borgarráð, með stuðningi formanns mannréttindanefndar, er nú þegar búið að segja konum að þær megi ekki berhátta þennan líkama og fá laun fyrir. Hvenær verður þeim bannað að hátta sig í björtu fyrir framan einhvern þann sem kynni að hlutgera líkamann? Hvenær verður þeim bannað að fá sér tattú? Hvenær verður þeim bannað að keppa í vaxtarrækt? Hvenær verður þeim bannað að bera naflann á almannafæri? Hvenær verður þeim bannað að mála sig? Hvenær verður þeim bannað að breyta um brjóstastærð? Allt er þetta á einn eða annan hátt hlutgerving kvenlíkamans.

Formaður mannréttindanefndar er að sönnu atorkumikil í kvennabaráttunni. Hún vílar ekki fyrir sér að hundsa skriflegar, rökstuddar áskoranir frá þeim konum sem stunda nektardans sér til viðurværis með þeim orðum að þær sem einstaklingar skipti ekki máli. Hún vílar ekki fyrir sér að segja það gleðilegt að úrskurður borgarráðs skuli einmitt hafa fallið á þeim degi þegar 100 ár eru liðin frá því að giftar konur á Íslandi fengu kosningarétt til sveitarstjórna. Hinn 22. nóvember 2007 er þvert á móti alger andstæða þess sem gerðist hundrað árum fyrr. Fyrir eitt hundrað árum fékk takmarkaður hópur kvenna rétt til að ráðstafa atkvæði í sveitarstjórnarkosningum. Nú hundrað árum seinna afnemur borgarráð rétt kvenna til að ráðstafa líkama sínum.

Því formaður mannréttindanefndarinnar er í kvennabaráttu en ekki kvenréttindabaráttu og þaðan af síður mannréttindabaráttu. Hún er í raun og sanni að berjast um konurnar, við konurnar. Hennar barátta snýst um yfirráðin yfir konunum, eða öllu heldur konunni eins og málið virðist horfa við svo kölluðum róttækum femínistum. Þeirra barátta snýst um að þau hafi yfirráð yfir konunum í stað þess að hver kona hafi yfirráð yfir sjálfri sér og og líkama sínum. Eitt vopnið í þessari baráttu er að upphefja konuna með stóru K-ái sem enginn nema þau vita í raun hver er en gera um leið sem minnst úr einstaklingunum, öllum þeim aragrúa ólíkra einstaklinga sem eiga það eitt sameiginlegt að hafa fæðst í kvenlíkama. Hugmyndafræði róttækra femínista er því rétt og slétt alræðishyggja og barátta róttækra femínista um leið baráttan gegn einstaklingsfrelsi, gegn hinu opna samfélagi, gegn siðmenningunni.

Þessu til áréttingar má sem fyrr benda á bókina Defending Pornography: Free Speech, Sex and the fight for Womens Rights eftir Nadine Strossen, formann elstu og stærstu mannréttindasamtaka hins frjálsa heims: ACLU (Americal Civil Liberties Union). Hún er í öllum atriðum algerlega á öndverðum meiði við formann mannréttindanefndar Reykjavíkurborgar.