Mánudagur 19. nóvember 2007

323. tbl. 11. árg.

A lltaf verður minni og minni von til þess að Orkuveitumál Reykjavíkurborgar snúist til betri vegar. Dómsmálið, sem hefði getað ógilt svokallaðan eigendafund Orkuveitunnar eftirmálalaust fyrir fyrirtækið, virðist skipulega vera að verða að engu, og „útrás“ þessa opinbera veitufyrirtækis virðist eiga að halda áfram eins og ekkert hafi í skorist. Það virðist til dæmis vera í alvöru stefna núverandi borgaryfirvalda að borgarstofnun, eins og Orkuveitan er að nær öllu leyti, eigi að reyna að kaupa upp fyrirtæki sem verið er að einkavæða á Filipseyjum!

Ef borgarstjórnarmeirihlutinn tæki upp á því einn daginn að láta borgarsjóð kaupa hlutabréf í Philips Electronics N.V. fyrir milljarða, þá yrði spurt hvort menn væru gengnir af vitinu og ekkert hlustað á tal um að gengi bréfanna gæti rokið upp. Ef hins vegar sömu mönnum dettur í hug að kaupa ríkisfyrirtæki á Filipseyjum þá láta menn sér nægja eitthvert þvaður um „útrás“ og þá er allt bara í lagi.

Ætlar enginn að stöðva þessa vitleysu?

K ona nokkur í Saudi-Arabíu varð fyrir því að nokkrir menn nauðguðu henni með hrottafengnum hætti. Réttarkerfið þar í landi hefur tekið fast á málinu og dæmt konuna til refsingar, enda hafði hún þannig samneyti við ókvænta og ranga menn. Í Saudi-Arabíu hafa íslamistar mikil völd og áhrif og þetta mál er ein afleiðing þess. Á Vesturlöndum sækja íslamistar jafnt og þétt fram til aukinna áhrifa og jafnan verða fyrir þeim einfeldningslegir heimamenn, uppfullir af skilningi, umburðarlyndi og fjölmenningarhyggju. Þó jafnvel slíkir bógar myndu seint vilja samþykkja að refsa fórnarlömbum nauðgana, þá styrkja þeir stöðu íslamista dag frá degi með undanlátssemi sinni á fleiri og fleiri sviðum.

Eins og rakið var hér fyrir viku, þá kom á dögunum út ákaflega mikilvæg bók um þetta efni, Íslamistar og naívistar, og er þar þróunin í Evrópu á síðustu árum rakin, viðbrögð einfeldninga á Vesturlöndum og í hvað stefnir ef ekkert verður að gert. Þetta er bók sem á brýnt erindi við alla hugsandi Íslendinga og full ástæða til að hvetja þá til að verða sér út um hana hið snarasta.

Eins og rakið er í bókinni, og ætti að segja sig sjálft, þá er ekki átt við alla múslima þegar talað er um íslamista. Með íslamistum er átt við þá sem aðhyllast róttækan skiling á islam og víða í múslimaheiminum stendur barátta milli hófsamari múslima og íslamista. Með undanlátssemi sinni styðja Vesturlandabúar við bakið á íslamistum og bregðast jafnframt þeim hófsömu múslimum sem hafa flutt til Vesturlanda og vilja þar fá að lifa sínu lifi í friði, í sátt við heimamenn og lausir undan ofríki íslamistanna. En þökk sé naívistunum, þá sækja íslamistarnir stöðugt í sig veðrið.