Helgarsprokið 18. nóvember 2007

322. tbl. 11. árg.
Hvað ætli líði margir dagar þar til Svandís Svavarsdóttir dregur málshöfðun vegna boðunar á stjórnarfund Orkuveitunnar til baka? Málið sé komið í ákveðinn farveg í borgarkerfinu, vinnuhópur sé að störfum, það verði unnið í þágu almannahagsmuna, bla, bla bla…
– Vefþjóðviljinn 13. október 2007.

J æja það tók Svandísi Svarsdóttur þrjátíu daga að pakka saman. Af síðustu fréttum að dæma virðist sem Björn Ingi Hrafnsson sé sá eini sem fær sitt fram í máli kenndu við REI og GGE. Skárra væri það nú eftir að maðurinn sleit samstarfi við sjálfstæðismenn til að tryggja málinu framhaldslíf með nýjum samstarfsmönnum. Samkvæmt heimildum fjölmiðla verða lyktir málsins þær að GGE muni kaupa hlut í REI og REI muni kaupa hlut í GGE en það verði ekki kallað samruni! Ætli séu ekki ýmsir félagsmenn í VG sem óska þess nú heitast að hafa fylgt Birnu Þórðardóttur á dyr í stað þess að sitja undirleitir við fótskör Björns Inga?

„Nú skýla allir fulltrúar meirihlutans sé bakvið það að í raun hafi þeir ekki verið á móti því að fyrirtæki í eigu almennings tæki þátt í áhættusömum verkefnum í einhverjum spilltustu löndum heims með skattfé almennings sem spilapeninga. Þessir sömu aðilar voru bara á móti því hvernig ákvarðanir voru teknar, það er að segja, án samráðs við þá sjálfa.“

Allt brölt Svandísar snérist um það að þáverandi minnihluti hefði verið að ráðskast með fé og fyrirtæki almennings án þess að réttkjörnir fulltrúar hefðu fengið tækifæri til að setja sig inn í málið. Nú hefur hún hins vegar fengið að sitja alla leynimakksfundina í reykfylltum bakherbergjum og veit því allt sem hún þarf að vita. Dagur B. Eggertsson hefur á sama tíma stundað umræðustjórnmál en því miður virðist hann aðallega hafa talað við sjálfan sig og í hljóði. Kjósendur sjálfir eru engu nær um hvað er að gerast í þessum málum. Nú skýla allir fulltrúar meirihlutans sé bakvið það að í raun hafi þeir ekki verið á móti því að fyrirtæki í eigu almennings tæki þátt í áhættusömum verkefnum í einhverjum spilltustu löndum heims með skattfé almennings sem spilapeninga. Þessir sömu aðilar voru bara á móti því hvernig ákvarðanir voru teknar, það er að segja, án samráðs við þá sjálfa. Það kemur semsagt í ljós að í raun eru vinstrimenn í borgarstjórn mjög ánægðir með að leggja skattfé borgaranna í áhættuverkefni, sem nær væri að kalla „gróðabrall“, svo notast sé við orðfæri Svandísar og félaga hennar í VG. Reyndar eru menn þar á bæ svo uppteknir af því að virkjun jarðvarma muni draga úr gróðurhúsaáhrifum og hlýnun jarðar að þeir hafa varla tíma til að telja peningana sem munu flæða inn sem einhvers konar aukaafurð af þessu öllu saman.

Það er reyndar áhugavert fyrir þá sem hafa gaman að velta fyrir sér stjórnmálum á Íslandi að skoða hvaða afstöðu hinir ýmsu stjórnmálaflokkar og einstaklingar innan þeirra hafa til þess hvort nota eigi almannafé til að taka þátt í gróðaverkefnum fyrirtækja eða ekki. Í þessu sambandi er athyglisvert að bera þetta mál REI og GGE við mál sem kennt var við fyrirtækið DeCode. Á sínum tíma var rætt um það á Alþingi hvort veita ætti ríkisábyrgð á lán fyrir DeCode og sýndist sitt hverjum. Þá, eins og nú, voru flestir stjórnmálamenn á því að of lítið samráð hefði verið haft, of stutt umræða, ekki nægar upplýsingar og svo framvegis. Fæstir stjórnmálamannanna þá, eins og nú, höfðu minnstan áhuga á því að fjalla um kjarna málsins, það er að segja hvort nota ætti almannafé í áhættufjárfestingar til handa einkafyrirtækjum. Hins vegar voru alls kyns slagorð í gangi um séríslenska þekkingu og byltingar í læknisfræði sem myndu bæta líf allra jarðarbúa. Afstaða þingmanna þá var þvert á allar flokkslínur, alveg eins og hún er núna í málefnum REI og GGE.

Í ágætri grein Örnu Schram í Viðskiptablaðinu sem fylgdist með umræðum um þetta á Alþingi kemur þetta skýrt fram. Steingrímur J. Sigfússon kvartaði yfir því að gögnin væru ekki nógu ítarleg og þess vegna gæti hann ekki stutt framlagt frumvarp en virðist ekki hafa haft neina pólitíska afstöðu með eða á móti. Kolbrún Halldórsdóttir vissi ekki hvernig hún ætti að „fóta sig í málinu“, og segir það allt sem segja þarf um hugmyndafræðilegan grunn háttvirts þingmanns. Lúðvík Bergvinsson vissi ekkert hvað honum fannst og kallaði eftir meiri upplýsingum. Það sama gilti um Svanfríði Jónasdóttur sem taldi þó að þarna væri um að ræða tækifæri sem horfa þyrfti á jákvæðum augum. Össur Skarphéðinsson brást ekki fyrrverandi aðstoðarmanni sínu í þessu máli sem öðrum sem „mesti vindahani“ íslenskra stjórnmála. Það virðist sem einungis tveir þingmenn hafi haldið haus í málinu öllu en það voru þau skoðanasystkin Jóhanna Sigurðardóttir og Pétur Blöndal. Báðir þessir þingmenn sáu skóginn fyrir trjánum og tóku afstöðu gegn því að ríkið væri að vasast í þeim málum sem fyrirtækjum á frjálsum markaði væri best treystandi. Það er reyndar óhugnanlega margt líkt með málinu um Decode á sínum tíma og þessum langdregna farsa um REI og GGE. Fleyg urðu orð eins fjármálamógúlsins þegar hann sagði að það væri „meiri áhætta að vera ekki með en að vera með“ hvað varðaði fjárfestingar í Decode. Það viðhorf var ríkjandi meðal sérfræðinga á fjármálamarkaði á þessum tíma. Enda var gengi bréfa félagsins í hæstu hæðum og flestir vita hvernig fór.

Eins og fyrr sagði virðist allt benda til þess að REI kaupi í GGE og GGE kaupi í REI en það kalla þeir víst ekki samruna í meirihluta borgarstjórnar. Eftir stendur að skattfé almennings verður notað til að fjármagna áhættusöm útrásarverkefni einkafyrirtækja í ýmsum spilltustu löndum heims.