Laugardagur 17. nóvember 2007

321. tbl. 11. árg.

Í hnausþykku helgarblaði Viðskiptablaðsins er meðal annars ýtarlegt viðtal við Finn Sveinbjörnsson, bankastjóra Icebank og fyrrverandi forstjóra Kauphallarinnar, eða Verðbréfaþings Íslands. Í viðtalinu er töluvert rætt um íslenskt fjármálalíf og í lokin er Finnur spurður um hvort hann telji ástæðu til að Íslendingar taki upp evru. Og svarar skýrt:

Nei, hvorki einhliða né með því að ganga í Evrópusambandið á undan. Ég tel að við þurfum tvímælalaust að styrkja stjórntæki Seðlabankans á sviði peningamála og vil alls ekki fórna sjálfstæðri peningamálastjórn með því að taka upp evruna. Ég tel nefnilega að reynslan hafi sýnt að aðlögun að óhjákvæmilegum hagsveiflum með því að treysta eingöngu á fjármál hins opinbera og vinnumarkaðinn yrði sársaukameira en að hafa peningamálin einnig í vopnabúrinu. Þá finnst mér margt í þessari umræðu hafa verið afskaplega yfirborðskennt og lítt ígrundað.

Það er alkunna að ef úr viðskiptalífinu eða hinum háu háskólum heyrist af stuðningsmanni þess að evra verði tekin upp sem opinber gjaldmiðill Íslands, þá verður það undantekningarlítið að stórri frétt í helstu fjölmiðlum. Gaman verður að sjá hversu mikla athygli þessi eindregnu orð bankastjórans og fyrrum Kauphallarforstjórans munu vekja.

Sem minnir auðvitað á annað efni helgarblaðs Viðskiptablaðsins. Þar birtast jafnan fjölmiðlapistlar Ólafs Teits Guðnasonar, sem geta gerbreytt áliti manna á íslenskum fjölmiðlum. Ritröð hans, Fjölmiðlar 2004, 2005 og 2006 fæst í Bóksölu Andríkis og hana ættu allir áhugamenn um þjóðmál að verða sér út um.

Á gærdegi íslenskrar tungu fór forseti Íslands norður í Öxnadal og afhenti skólabörnum nýja ævisögu Jónasar Hallgrímssonar, sem Böðvar Guðmundsson hefur skrifað. Það fór vel á því, enda Böðvar lengi búsettur í Danmörku þar sem hann skrifar og hugsar um íslensk málefni. Svo er hann líka hagorður eins og forsetinn veit.