Föstudagur 16. nóvember 2007

320. tbl. 11. árg.

Þ egar efnt var til útvarpsumræðna frá Alþingi fyrir átta mánuðum var staðan sú í stjórnmálum að yfir landinu vofði vinstristjórn undir forystu Steingríms J. Sigfússonar. Og í staðinn fyrir bálreiða byltingarmanninn sem menn höfðu vanist í slíkum umræðum var birtist Steingrímur sem yfirvegaður landsfaðir sem fór með ljóð – og ekki meðvituð nútímaljóð sem enginn maður kann, heldur fallegar ljóðlínur eftir Jónas Hallgrímsson. En hann gerði fleira en að rifja upp Hulduljóð Jónasar. Hann bætti því við til fróðleiks fyrir almenning að ef Jónas væri uppi nú á dögum þá væri hann í liði með Vinstrihreyfingunni grænu framboði í umhverfisbaráttu hennar.

Svona skiptir hið tveggja alda gamla þjóðskáld enn máli á Íslandi. Ljóðin hans eru mörgum mönnum nærtæk þegar mikið liggur við og ekki er lítið púður í því að geta kvatt sjálft „listaskáldið góða“ í lið með þegar baráttan er ströng. En af því að heimurinn er ósanngjarn þá leyfði framhleypið vefrit sér að benda á, að ekki væri gott að slá neinu föstu um það hvað skáldið hefði sjálft sagt um að vera hrifsað svona til seinnitíma hernaðarþarfa. Jónas Hallgrímsson unni íslenskri náttúru; fjöllum, fuglum og blómum, hinu smáa hreint ekki síður hinu stóra. En þegar hann var ekki að yrkja um fífilbrekku og grónar grundir þá sat hann og skrifaði í Fjölni gegn „framkvæmdarleysi þjóðarinnar sem lætur alla verslunina vera í annarra höndum og sömuleiðis fiskiaflann og hvalveiðarnar, þó það hvurki sé stjórninni að kenna né þurfi svo að vera vegna þess hvað landið er fátækt.“ Það væri eiginlega alls ekki víst hvaða nýting náttúrunnar Jónasi Hallgrímssyni hefði þótt réttlætanleg til að bæta hag landsmanna og hvort hann hefði orðið jafn einarður í baráttu fyrir framkvæmdaleysinu og Steingrímur taldi. Og þó Jónasi Hallgrímssyni verði auðvitað hvorki kennt um það né þakkað, þá fór nú svo, sem stundum áður, að Vinstrihreyfingin grænt framboð skilaði fylgi sínu aftur í tæka tíð fyrir kosningar og endaði eftir þær ein upp til fjalla, yli húsa fjær. Lengi munu Íslendingar mega lesa Jónas Hallgrímsson sér til ánægju. Í einu af sínum fallegu kvæðum lýsir hann hrikalegum umbreytingum, sem ekki koma nútímamönnum með öllu ókunnuglega fyrir sjónir:

Vötnin öll, er áður féllu
undan hárri fjallaþröng,
skelfast, dimmri hulin hellu,
hrekjast fram um undirgöng;
öll þau hverfa að einu lóni,
elda þar sem flóði sleit.
Djúpið mæta, mest á Fróni,
myndast á í breiðri sveit.

Þarna hafði mikið gengið á. Runnar og rjóður hurfu, blómin bliknuðu og drúptu höfði. Það hefur vafalaust farið um náttúruunnandann Jónas þegar hann lýsti slíkum atburðum. En niðurstaðan varð samt falleg.

Hver vann hér svo að með orku?
Aldrei neinn svo vígi hlóð!
Búinn er úr bálastorku
bergkastali frjálsri þjóð.
Drottins hönd þeim vörnum veldur;
vittu, barn! sú hönd er sterk;
gat ei nema guð og eldur
gjört svo dýrðlegt furðuverk.

Svona má finna margt í Jónasi og túlka og mistúlka eins og ósvífni hvers og eins hrekkur til. Og hafði hann ekki séð það fyrir?

Þeir búast við að blekkja mig
og breiða’ ofan á náinn,
þeir sem ekki þekkja mig
þegar ég er dáinn.

Enda er Jónas skemmtilegur og víðar en í ljóðum sínum. „Honum mættu tveir harmar í vetur; hann missti dóttur sína og konan hans skrifaði novelle“ skrifaði hann í sendibréfi um mann nokkurn og finna auðvitað flestir sárt til með slíkum vesalingi. Á öðrum stað skrifaði hann um íslenska heimsborgara:

Nú er orðinn siður fyrir austan að tyggja með framtönnunum; en það eru ekki allir sem vita af hverju það kemur til. Mér var sagt á einum bæ þetta héti að tyggja upp á dönsku og þá fór ég að reyna það líka; þá varð ég allt í einu þolinmóður og iðinn að nema og þó ég væri lúinn í kjálkunum og yrði að éta hálftuggið á daginn, þá bættist mér tvöfalt upp á nóttunni. Mig dreymdi þá ég væri kominn á kjól og kynni að tyggja upp á dönsku og hló þá stundum hátt upp úr svefninum þegar ég sá hunda bíta bein eða bændur á peysu sem tuggðu með jöxlunum. Prestsdóttirin átti bágara en ég; hún var bæði ung og fríð og hafði viðkvæma samvisku en þrekið vantaði og styrkleika sálarinnar til að leggja hart á sig og læra það sem mest reið á; að tyggja upp á dönsku eins og faðir hennar; þegar hún hugsaði út í það, flóði hún stundum öll í tárum og sagði guð hefði ekki gefið sér jaxlana til annars en syndga. Þá kom Hjörleifur sterki á mórauðri úlpu og hafði bundið reipi um sig miðjan. Hann kenndi í brjóst um stúlkuna og huggaði hana eins og hann gat … og tók svo til orða: „Þú átt ekki að gráta, fuglinn minn! þó þér hafi orðið það á að tyggja með jöxlunum; ég skal segja þér hvernig þessi hinn nýi siður er kominn upp í sveitinni. Hér kom maður útlendur og hafði misst jaxlana í Danmörku; hann varð þá að nota framtennurnar, vesalingur, og tyggja með þeim eins og hann gat. En svo komu prestar og sáu það til hans og tóku það eftir honum og síðan hver af öðrum. Þessum mönnum hefnist nú fyrir og hafa þeir gjört sig að athlægi af því þeir fóru að tyggja upp á dönsku.“

Ekki er víst hversu smellin þessi saga þykir í dag. Og þó, er ekki alltaf gaman að skopast að þeim Íslendingum sem gína við sérhverju því sem þeir halda að sé móðins úti í löndum? Sem verða að taka þátt í þróuninni? En hvað sem líður áhuga Íslendinga á lausamáli hins tveggja alda gamla landa síns, þá má fullyrða að lengi enn munu ljóð hans hitta í mark hjá nýjum og nýjum kynslóðum. Það verður lengi spurt á Íslandi hvað sé svo glatt sem góðra vina fundur og þröstur beðinn fyrir kveðjur til engils með húfu og rauðan skúf í peysu. Og áhrif Jónasar munu lifa svo lengi sem íslensk tunga er töluð. „Heilsaðu, vinur minn! þeim sem þú heldur taka vilji kveðju minni“, kvaddi Jónas í einu allra síðasta sendibréfi sínu. „Heilsaðu sérhverjum heima, þeim sem þú heldur að vilji gangast við mér“ söng Megas eitthundrað og fjörutíu árum eftir dauða skáldbróður síns, rúmum áratug áður en Magnús Þór Jónsson fékk íslenskuverðlaun Jónasar Hallgrímssonar og fór á margan hátt vel á því.