N ýr meirihluti í borgarstjórn Reykjavíkur hefur lýst því yfir að mikilvægt sé að orkufyrirtæki séu í „samfélagslegri eigu“. Það er sjálfsagt í anda umræðustjórnmála að búa til óskiljanleg hugtök um jafn einfaldan hlut og hvort fyrirtæki er í eigu ríkis, sveitarfélaga eða einstaklinga. Með „samfélagslegri eigu“ er átt við í eigu hins opinbera og undir stjórn stjórnmálamanna. En hvers vegna er þá Orkuveita Reykjavíkur að leggja fé í púkkið með einkafyrirtækjum sem ætla að kaupa orkuveitu í opinberri eigu á Filipseyjum. Eiga Filipseyingar ekki að njóta kosta „samfélagslegrar eignar“? Hvers vegna eiga útvarsgreiðendur í Reykjavík og viðskiptavinir Orkuveitu Reykjavíkur að leggja fé í að breyta „samfélagslegri eign“ á Filipseyjum í einkaeign?
Það er heldur engin nýlunda að jafnaðarmenn noti orðaleppa eins og „samfélagslega eign“ til að villa um fyrir fólki. Fyrir rúmum 150 árum kom út lítið rit í Frakklandi þar sem sagði:
Þrátt fyrir að vera svolítið góð með sig, er eins og jafnaðarstefnan finni á sér að öll hennar kerfi og fyrirætlanir eru á endanum heil ófreskja af lögmætu hnupli. En hvað gerir hún? Hún dylur það vandlega fyrir fólki – og líka sjálfri sér – með fegrandi heitum, eins og: bræðralag, samstaða, skipulag, samvinna. En af því við biðjum ekki um svona mikið af lögunum, af því við óskum ekki annars en réttlætis, segir jafnaðarstefnan gjarnan að við viljum ekki bræðralag, samstöðu, skipulag eða samvinnu – og gefur okkur umsögnina einstaklingshyggjumenn. Hið rétta er að við höfnum ekki náttúrulegu skipulagi heldur þvinguðu skipulagi. Við höfnum ekki frjálsri samvinnu heldur bara ósjálfviljugri samvinnu. Við höfnum ekki eðlilegu bræðralagi heldur bara lög-skipuðu bræðralagi. Við höfnum ekki náttúrulegri samstöðu manna sem forsjónin kveður á um, heldur bara tilbúinni samstöðu, sem sviptir fólk sinni eðlilegu ábyrgð. Jafnaðarstefnan ruglar saman stjórnvöldum og samfélagi, rétt eins þær gömlu stjórnmálahugmyndir sem hún er sprottin af. Því er það að í hvert sinn sem við viljum ekki að stjórnvöld geri eitthvað, ályktar jafnaðarstefnan að við viljum ekki að það sé gert yfir höfuð. Við viljum ekki að ríkið sjái um menntun; þar með viljum við ekki neina menntun. Við viljum ekki hafa ríkistrú; þar með viljum við ekki hafa neina trú. Við viljum ekki að ríkið sjái um kjarajöfnun; þar með viljum við ekki hafa neinn jöfnuð, og þar fram eftir götum. – Það mætti eins segja að við viljum ekki að fólk borði, af því við viljum ekki að ríkið rækti korn. |
Það var franski hagfræðingurinn og blaðamaðurinn Frédéric Bastiat sem hélt hér á penna í riti sínu Lögunum. Andríki gaf ritið út í íslenskri þýðingu þegar 200 ár voru liðin frá fæðingu hans árið 2001. Lögin fást enn í Bóksölu Andríkis og raunar hvergi annars staðar.
Önnur grýla vinstri manna í orkumálum er að orkulindir geti komist í hendur útlendinga, búhú, ef góðir stjórnmálamenn passi ekki upp þær. Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra hefur til að mynda varað mjög við þessu. Það mun vera sami Össur og fer með íslenskum fjárfestum um allar jarðir í þeim tilgangi að auðvelda þeim að komast yfir orkulindir vítt og breitt um heiminn.
Eru Íslendingar ekki útlendingar á Filipseyjum og í Tansaníu?