Þriðjudagur 13. nóvember 2007

317. tbl. 11. árg.

H áskólamenn eru margir þeirrar skoðunar að þeir eigi einkarétt á helstu störfum hjá hinu opinbera. Og þeim hefur orðið verulega ágengt með þá skoðun sína á undanförnum árum. Maraþonskólaganga og kippa af prófgráðum eru orðin skilyrði fyrir mörgum störfum hjá ríki og sveitarfélögum. Helst þurfa gráðurnar auðvitað að vera á réttu „fagsviði“. Þannig var það nokkuð gagnrýnt á sínum tíma að Friðrik Sophusson lögfræðingur væri ráðinn forstjóri Landsvirkjunar þar sem hinn mæti verkfræðingur Halldór Jónatansson hefði haldið af festu um stjórnartaumana um árabil. Þetta gagnrýndi Össur Skarphéðinsson ritstjóri DV í leiðaraskrifum sínum. Eini gallinn á þessu var að Halldór Jónatansson var lögfræðingur.

Guðmundur Ólafsson hagfræðingur og háskólakennari var gestur í Silfri Egils Helgasonar í Ríkissjónvarpinu á sunnudaginn var. Þar lýsti hann því hve ómögulegt það væri að hafa „pólitíska“ menn að störfum í Seðlabankanum og gott ef hann sagði ekki að peningamálastefnan væri komin í þrot vegna þessa. Nú eru auðvitað allir menn pólitískir að einhverju leyti en líklega hefur Guðmundur átt við að menn sem starfað hefðu í stjórnmálum ættu ekki erindi í hin miklu vísindi í Seðlabankanum.

Þetta er merk kenning hjá Guðmundi og henni og honum sjálfum til heiðurs birtir Vefþjóðviljinn hér litla mynd sem sýnir árlega hækkun á vísitölu neysluverðs á Íslandi á tímabilinu 1979 til 1993 og svo 1993 til 2007. Það eru jafnlöng tímabil. Fyrra tímabilið var „ópólitískur“ seðlabankastjóri (formaður bankastjórnar) að störfum en hið seinna stóðu nokkrir fyrrverandi stjórnmálamenn verðbólguvaktina í bankanum. Jón Sigurðsson, Steingrímur Hermannsson, Finnur Ingólfsson, Birgir Ísleifur Gunnnarsson og Davíð Oddsson.

Verðbólgan undir stjórn hinna „pólitísku bankastjóra“ var að meðaltali 3,5% á ári en 33% hjá fyrirrennurum þeirra. Ef hækkun á húsnæði væri tekin út úr vísitölunni eins og Guðmundur hefur lagt til væri munurinn sjálfsagt einn meiri. Auðvitað segir þetta ekki nema takmarkaða sögu um hvernig þeir stóðu sig í starfi. Líklega hefði enginn seðlabankastjóri getað haft heimil á verðbólgunni hér á fyrra tímabilinu eins og ástandið var í stjórnmálum og á vinnumarkaði. En seinna tímabilið – undir stjórn hinnar pólitísku bankastjóra – er kannski ekki alveg slík hörmung að kalla þurfi á snillingana úr háskólanum til að skakka leikinn.

Það er svo miklu áhugaverðari spurning hvort ríki eigi yfirleitt að reka seðlabanka og gefa út gjaldmiðil en hvort Steingrímur Hermannsson eða Þorvaldur Gylfason eigi að verma stól bankastjórans.