Mánudagur 12. nóvember 2007

316. tbl. 11. árg.

Í dag bætist í Bóksölu Andríkis mikilvæg og áhugaverð bók. Meginstef hennar er að undanfarin ár hafi ný ógn steðjað að frelsi Vesturlanda og sótt í sig veðrið, hægt en örugglega: Íslamisminn.

Með íslamisma er átt við róttækan skilning á íslam og hann hefur heldur en ekki færst í aukana á liðnum árum, bæði í hinum hefðbundna múslimaheimi sem og í Evrópu þar sem hann hefur numið land með vaxandi hraða. Íslamistar stefna að því ljóst og leynt að skapa í Evrópu sérstök samfélög múslima með það beinlínis fyrir augum að íslamvæða Evrópu smám saman. Helsta stoð íslamistanna eru allt annars konar menn: naívistarnir heima fyrir. Fólkið sem veigrar sér við að horfast í augu við það sem blasir við en telur sér trú um að lykillinn að farsælli framtíð sé að gefa eftir vestræn grundvallargildi, ein í dag, önnur á morgun. Fólk sem aldrei í lífinu myndi dirfast að gefa í skyn, hvað þá meira, að þess eigin menning kunni að hafa eitt og annað umfram einhverja aðra. Fólk sem telur heimamenn þurfa að laga sig að hinum nýkomnu en ekki öfugt. Íslendingar hafa lengi sloppið betur en aðrar þjóðir en enginn veit hversu lengi það stendur og raunar er það svo að margir Íslendingar virðast barnslega ákafir í að endurtaka sem flest mistök sem gerð hafa verið á nágrannalöndunum í þessum efnum.

Á síðasta ári kom út í Danmörku bók sem fjallar á skilmerkilegan hátt um þetta efni, Islamister og naivister, eftir tvo þjóðkunna stjórnmála- og blaðamenn þar í landi. Hjónin Karen Jespersen og Ralf Pittelkow störfuðu lengi með dönskum jafnaðarmönnum og Karen var í tæpan áratug félagsmálaráðherra Danmerkur í ríkisstjórn Pouls Nyrups Rasmussens, en Ralf var pólitískur ráðgjafi forsætisráðherrans. Seint á síðasta ári söðlaði Karen um og gekk til liðs við Venstre, og er nú á ný orðin félagsmálaráðherra í Danmörku.

Islamister og naivister varð stórsölubók og umtöluð í Danmörku um leið og hún kom út. Íslamistar og naívistar er nú komin út á íslensku og verðskuldar sömu viðtökur hér á landi. Bókin fæst í Bóksölu Andríkis og kostar þar kr. 1.990 og er heimsending innanlands innifalin í verðinu. Sexhundruð króna sendingargjald bætist við pantanir að utan. Íslamistar og naívistar er bók sem hugsandi menn kaupa fyrir sjálfa sig og vini sína.