Miðvikudagur 14. nóvember 2007

318. tbl. 11. árg.

Í dag er öld liðin frá fæðingu eins skemmtilegasta rithöfundar Norðurlanda, Astridar Lindgren. Með verkum sínum skemmti hún börnum margra kynslóða og mun svo líklega lengi standa, þó auðvitað sé engin leið að vita hvaða barnabækur leyfist að lesa í framtíðinni. Og sögupersónur hennar lögðu ekki aðeins gott til mála í bókum hennar – þær áttu það líka til að koma til liðs við góðan málstað utan þeirra.

Þegar Lindgren var farin að nálgast nírætt bar það við, því miður, að kosið var um það í Svíþjóð hvort landið skyldi ganga í Evrópusambandið. Blaðamenn leituðu álits frægasta rithöfundar landsins á málefninu og fengu það svar að eitt væri víst: Lína Langsokkur væri alfarið á móti Evrópusambandinu. Og þurfti reyndar engum að koma á óvart: Níu ára gömul stúlka sem býr ein – með apa og hesti, sem býr á dyrapallinum – og ræður sínum málum sjálf, gengur ekki í skóla, sefur með tærnar á koddanum en höfuðið djúpt undir sæng, geymir vekjaraklukkuna í kökudunknum en steikarpönnuna á hattahillunni, gengur um á skóm sem eru nákvæmlega helmingi lengri en fætur hennar og fer þannig í búðir þar sem hún kaupir kíló eftir kíló af sælgæti sem hún aldrei greiðir fyrir öðru vísi en með gullpeningum – hvernig hefði slík persóna átt að geta fellt sig við útþenjandi skrifræðisbákn sem stöðugt leggur skugga sinn yfir stærri svið mannlífsins og dælir frá sér reglum, tilskipunum og stöðlum og gerir sitt besta til að steypa ólíkum ríkjum í eitt mót? Nei, auðvitað var Ingilína Viktoría Kóngódía Engilráð Eiríksdóttir Langsokkur á móti Evrópusambandinu.

Rétt eins og svo margir aðrir mætir menn. Meira að segja hann Emil litli í Kattholti ætlaði ekki að láta sitt eftir liggja á kjördag, en því miður festi hann höfuðið á sér ofan í súpuskál og komst ekki á kjörstað. En þið getið varla hugsað ykkur ærsl hans yfirleitt. Sem aldrei brjótið súpuskál og skemmið ekki neitt.