U m þessar mundir eru níutíu ár liðin frá því óhappamenn efndu til byltingar í Rússlandi. Henni fylgdi ógnarstjórn kommúnismans, mestu manngerðu hörmungar sem dunið hafa á saklausu fólki. Hundruð milljóna manna áttu eftir að eyða ævinni undir kommúnistastjórn, í hinum nýju Sovétríkjum eða fylgiríkjum þeirra sem síðar urðu. Kommúnista dreymdi um að breiða ófögnuðinn út um heiminn allan og ef þeim hefði tekist að rjúfa samstöðu vestrænna lýðræðisþjóða er engin leið að segja hvernig farið hefði. Þessari sögu allri, hörmungunum sem leiddar voru yfir Austur-Evrópu og baráttunni um örlög Vesturlanda, „kalda stríðinu“, mega menn ekki gleyma.
Fyrir nokkru kom út á íslensku lítil og mjög aðgengileg bók sem rifjar upp hvað var í húfi. Í bók sinni Kommúnismanum, sögulegu ágripi segir Richard Pipes, fyrrverandi söguprófessor við Harvard háskóla í Bandaríkjunum, sögu kommúnismans og þess sem hann leiddi yfir þjóðirnar. Lenín og Stalín, Pol Pot og Kastró, Mao og Allende, og ótal margir aðrir eru þar kynntir til sögunnar og óhætt að segja að ekki eru allar lýsingarnar fallegar. Sérstaka athygli vekur illmennska Leníns, en oft hefur verið reynt að draga upp mynd af honum sem heiðvirðum hugsjónamanni sem hefði hindrað uppgang Stalíns ef bara heilsan hefði ekki brugðist. Maó er svo kapítuli út af fyrir sig, en hörmungarnar sem hann leiddi yfir Kínverja eru með hreinum ólíkindum.
Á Íslandi var vissulega háð kalt stríð. Hart var tekist á, svo ekki sé meira sagt, um það hvort Ísland skyldi skipa sér í sveit vestrænna lýðræðisþjóða með inngöngu í Atlantshafsbandalagið og hvort semja skyldi við Bandaríkin um varnir landsins. Þá, sem löngum, börðust ýmsir fyrir því að landið yrði lýst varnarlaust og hlutlaust, en sem betur fór urðu þeir ofan á sem tryggja vildu varnir landsins. Þessi saga má vitanlega ekki gleymast og lengi mega frjálsir Íslendingar minnast með þakklæti manna eins og Ólafs Thors og Bjarna Benediktssonar sem mestan hita og þunga báru af baráttunni á fyrstu árum kalda stríðsins. Og auðvitað voru það ekki aðeins mikilhæfir forystumenn sem tryggðu þá niðurstöðu sem varð; fjöldi annarra, bæði nafngreindra stjórnmálamanna og baráttumanna, auk hins stóra hluta almennings sem fylgdi þeim að málum, réði þar úrslitum.
Þegar menn lesa hina fróðlegu bók Pipes um kommúnismann, sést enn betur en áður, hversu mikið var í húfi og hvílíkt ábyrgðarleysi það hefði verið að gera ekki allt sem í valdi Íslendinga stóð til að tryggja varnir landsins og samstöðu þess með þeim ríkjum sem andæfðu ógnum og útþenslu kommúnismans. Kommúnisminn, sögulegt ágrip fæst í Bóksölu Andríkis og kostar þar kr. 1950, heimsending innanlands innifalin eins og jafnan.
Bóksalan hóf svo nýlega að senda bækur úr landi gegn föstu 600 króna gjaldi á hvert pantað eintak.