Föstudagur 9. nóvember 2007

313. tbl. 11. árg.

H inn nýi meiri hluti REI-listans, sem tekið hefur við stjórn borgarinnar, boðar nú að hæsta gjald fyrir klukkustund á leikskóla muni hækka úr 100 krónum í 102 krónur og fimmtíu aura. Einhverjir flokkanna sem mynda listann hafa lagt til að leikskólinn verði „gjaldfrjáls“. Þetta er vissulega lítið skref í þá átt að hann verði gjaldfrjáls fyrir aðra en þá sem nota hann.

D avíð Logi Sigurðsson blaðamaður á Morgunblaðinu hefur skrifað bókina Velkominn til Bagdad – Ótti og örlög á vígvöllum stríðsins gegn hryðjuverkum. Þar segir hann frá ferðalögum sínum um Afganistan, Írak og Kúbú. Davíð Logi var gestur í Kilju Ríkissjónvarpsins 24. október síðastliðinn. Það er rétt sem umsjónarmaður Kiljunnar sagði þar um þetta framtak Davíðs Loga. Það sýnir að hann hefur áhuga á starfi sínu. Fæstir blaðamenn koma öllu því til skila í fréttaskrifum sínum í blöð, hvað þá útvarp og sjónvarp, sem þeir grafa upp í störfum sínum. Tími og pláss er af skornum skammti og fréttaskrif eru miskunnlaust skorin niður á leið í prentsmiðjuna. Bókaútgáfa getur því verið ágæt leið til að fylla upp í eyðurnar og gefa betri mynd.

Í þættinum sagði Davíð Logi meðal annars: „Írakar eru einhvern veginn og voru sko áratugum saman í hugum okkar þegnar Saddams Hussein, þetta var eitthvað skrítið land. Núna er þetta land átaka.“ Nú hefur Vefþjóðviljinn ekki lesið bókina og kannski eru þessi ummæli bara enn eitt dæmið um að stutt umfjöllun í fjölmiðlum gefur takmarkaða mynd af umfjöllunarefninu.

En „eitthvað skrítið land“ er skrítin lýsing á harðstjórn Saddams. Menn geta ekki alveg litið framhjá því, þótt erfiðlega gangi að koma á friði í Írak og landið sé vissulega „land átaka“ um þessar mundir, að Saddam Hussein kúgaði ekki aðeins eigin þegna með tiltækum ráðum, jafnt eiturgasi sem pyntingum. Hann atti þjóðinni út í tvö mannskæð stríð, fyrst með áralöngu stríði við Íran og svo með innrásinni í Kúveit. Þegar hann sá fram á að vera hrakinn frá Kúveit gerði hann sitt til að hleypa öllu í bál og brand í Miðausturlöndum með því að skjóta eldflaugum á Ísrael. Hann virti svo vopnahlésskilmála og ályktanir öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna að vettugi í rúman áratug, svelti þar með þjóð sína og kom í veg fyrir að hún fengi lyf og læknishjálp. Þessi átök og eftirmál þeirra kostuðu milljónir manna lífið.

Skrítið land þarna hjá Saddam.