Fimmtudagur 1. nóvember 2007

305. tbl. 11. árg.

O

Hvað varð um baráttuandann?

rkuveita Reykjavíkur krefst þess að máli sem höfðað hefur verið gegn henni til að fá tiltekinn fund lýstan ólöglegan verði vísað frá dómi. Gildi fundarins verði þá ekki hnekkt nema með því að nýtt mál verði höfðað. Þrætum um gildi fundarins ljúki þar með seinna en ella fyrir dómstólum.

Vinstrigrænir sem eiga tvo borgarfulltrúa telja umræddan fund ólöglegan. Sjálfstæðismenn, sem eiga sjö borgarfulltrúa, lögðu til í borgarstjórn á dögunum að borgarstjórn lýsti stuðningi við málshöfðunina. Nýi vinstrimeirihlutinn, og þar með báðir fulltrúar vinstrigrænna, vísuðu þeirri tillögu frá borgarstjórn og bíður hún nú í borgarráði.

Hvað hefur eiginlega komið fyrir hina vösku baráttukonu, Svandísi Svavarsdóttur? Þessa sem gengur fyrir hugsjónunum einum en lætur sig völdin engu skipta? Það liggur einfaldlega fyrir að meirihluti borgarstjórnar Reykjavíkur álítur að ekki hafi verið um gildan eigendafund Orkuveitunnar að ræða og það liggur einnig fyrir að Reykjavíkurborg á yfir 90 % í Orkuveitunni og borgarstjórn skipar 5 af 6 stjórnarmönnum?

Stjórnendur Orkuveitunnar krefjast þess í hennar nafni að vísað verði frá dómi máli sem vitað er að meirihluti borgarstjórnar Reykjavíkur vill fá efnisdóm í. Og ekki bara einhvern efnisdóm. Stjórnendur Orkuveitunnar munu, ef frávísunarkröfunni verður hafnað, krefjast þess að hafnað verði þeim kröfum sem vitað er að meirihluti borgarstjórnar styður.

Þarf frekari vitna við um þann hugsunarhátt sem ríkir í Orkuveituhúsinu? Og enginn gerir neitt.

A nnað mál tengt sveitarstjórnum er nýtt lagafrumvarp Erlu Óskar Ásgeirsdóttur varaþingmanns Sjálfstæðisflokksins og fleiri þingmanna flokksins, þess efnis að lágmarksútsvar sveitarfélaga verði afnumið. Það er ástæða til að lýsa stuðningi við þetta frumvarp um leið og vakin er athygli á því hvaða sveitarfélög það eru sem innheimta lágmarksútsvar í dag. Þau eru ekki mörg. En það eru einna helst þau sem hvað harðvítugast hafa þurft að verja sjálfstæði sitt undanfarin ár fyrir áköfum sameiningarsinnum í verr reknu sveitarfélögunum sem heimta hæsta skatta og eyða af mestri grimmd. Skorradalshreppur og Helgafellssveit láta sér bæði nægja lágmarksútsvar og hafa átt í vök að verjast fyrir sameiningarsinnum sem láta kjósa aftur og aftur í þeirri von að íbúarnir gefist upp og sameinist. Auk þessara tveggja virðingarverðu sveitarfélaga eiga ráðamenn Ásahrepps heiður skilinn, en þeir láta sér einnig nægja lögbundið lágmarksútsvar af sínu fólki.

Þ eir velunnarar Vefþjóðviljans sem eiga einhvern afgang eftir að ríki og sveitarfélög hafa tekið til í launaumslögum þeirra styðja margir útgáfuna með mánaðarlegu framlagi. Starf Andríkis hefur frá upphafi verið fjármagnað með þessum frjálsu framlögum. Það er fyrirhafnarlítið að ganga til liðs við hinn góða hóp sem styður félagið og útgáfustarf þess.