Miðvikudagur 31. október 2007

304. tbl. 11. árg.
Ég gef nefnilega voðalega lítið fyrir svona yfirlýsingar þar sem menn setja einhver svona markmið á miða og hafa síðan enga leið til að framfylgja þeim. Ég held að það sé miklu meira og betra siðferði í samfélagi sem byggir á því hvernig hvert og eitt okkar nálgast hlutina, hvernig við erum bara sem siðaðar manneskjur. Ég held að það sé miklu heilladrýgra og siðlegra samfélag heldur en það sem reynt er að stýra siðferðinu ofan frá.
– Illugi Gunnarsson alþingismaður í Íslandi í dag 24. október 2007.

Þ ingmennirnir Illugi Gunnarsson og Kolbrún Halldórsdóttir ræddu á dögunum þá tillögu Kolbrúnar að ríkisstarfsmönnum verði settar reglur um á hvað þeir megi horfa á sjónvarpsrásum hótelherbergja í útlöndum og hvaða aðra þjónustu þeir megi kaupa. Það er ekki oft sem svo skörp hugmyndafræðileg skil verða á milli tveggja þingmanna eins og gerðist í þessu tilviki.

Illugi leit ekki aðeins á reglur af þessum tagi sem gagnslausar því vonlaust væri að framfylgja þeim heldur gætu verið afsiðandi að fá slíkar reglur ofan frá í stað þess að menn þurfi hver og einn að takast á við siðferðileg álitamál. Kolbrún greip hins vegar til þeirrar röksemdar að við kenndum börnum okkar mannasiði þótt ekki lægju refsingar við því að ganga gegn siðunum. „Þótt það séu ekki refsingar við [brotum gegn] mannasiðum reynum við að ala börnin okkar upp í að fara eftir þeim.“ Við erum börnin og ríkið er mamman.

Ágúst Borgþór Sverrisson, sem margir þekkja af smásögum og ekki síður einlægum hugleiðingum hans á vefnum, sendi fyrr í mánuðinum frá sér sína fyrstu skáldsögu, Hliðarspor. Höfundurinn er afar örlátur á eigin upplifun, drauma og þrár í pælingum sínum á vefnum. Þeir sem fylgjast með þeim skrifum hafa vafalaust verið orðnir nokkuð spenntir að fá loks að lesa þessa bók eftir að hafa farið upp á Súfista og niður til Heidelberg með höfundinum og handritinu undanfarið ár.

Margar Reykjavíkursögur af þessu tagi vita ekki hvert þær eru að fara og höfundur kemst aldrei á leiðarenda með viðfangsefni sitt. En þessi saga Ágústs Borgþórs gerir það með einföldum og sniðugum hætti. Þetta er fín lesning. Í bókinni segir einmitt frá tveimur mönnum sem standa frammi fyrir siðferðilegum álitaefnum sem þeir sjálfir – og engir aðrir – geta skorið úr um fyrir þá. Mamma okkar, hvort sem er ríkismamma Kolbrúnar Halldórsdóttur eða sjálf móðir okkar, heldur sjaldnast í höndina á okkur þegar raunveruleg siðferðilegar spurningar vakna. Erfiðustu úrlausnarefnin verða til bak við luktar dyr við persónulegar athafnir og fáir hugsa til lagasafnsins á slíkum stundum. Eins og Ágúst Borgþór lýsir svo vel í sögu sinni reynir fyrst og síðast á einstaklinginn sjálfan í slíkum aðstæðum.

Annað sem verður svo sláandi við lestur Hliðarspors er hið gráa svæði á milli siðlegra og ósiðlegra hluta. Hvenær eru menn örugglega komnir yfir á hvítan eða svartan reit? Af þeirri ástæðu einni ættu menn að láta það eiga sig að setja siðapredikanir í lög og reglur.