U ndanfarin ár hefur hópur manna talað og talað um „Evrópumálin“. Tal þeirra er fimmþáttungur, sem yfirleitt kemur í fjölmiðum í þessari röð:
- Umræðan um Evrópumálin hefur aldrei verið háværari.
- Norðmenn eru rétt ófarnir inn í Evrópusambandið. Þá eiga Íslendingar engan annan kost en að fara þangað.
- Þjóðaratkvæðagreiðsla um Evrópusambandsaðild er bara tímaspursmál.
- Það er bannað að tala um Evrópumálin.
- Þetta viðtal við þennan þarna, það markar tímamót. Héðan af verður þróunin ekki stöðvuð.
![]() |
Það þarf engan að undra að stjórnarskrá sú sem embættismenn ESB reyna nú að troða ofan í kokið á almenningi innan sambandsins standi í hinum almenna manni. Hér er hún til samanburðar við stjórnarskrár Íslands og Bandaríkjanna. |
Undanfarin ár hafa verið hagstæð fyrir hið fullvalda Ísland og þá sem standa vilja vörð um það. Hættan á því að landið verið dregið inn í Evrópusambandið er minni nú en í langan tíma. Alþingiskosningar fóru fram fyrir örfáum mánuðum án þess að nokkur flokkur berðist fyrir aðild að Evrópusambandinu eða því að gjaldmiðill ýmissa aðildarlanda þess yrði tekinn með valdboði í opinbera notkun á Íslandi. Þó þögn stjórnmálaflokka sanni vitaskuld ekki að tiltekið málefni sé óþarft, þá má engu að síður talsverðar ályktanir draga af þeirri staðreynd að enginn flokkur taldi sig geta fiskað út á Evrópumál í vor.
Meðal þess ánægjulega sem gerst hefur í „Evrópuumræðunni“ undanfarið, er að Geir H. Haarde, nýr formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur með afgerandi hætti tekið af skarið um andstöðu sína og síns flokks við inngöngu Íslands í Evrópusambandið og opinbera upptöku nýs gjaldmiðils á Íslandi. Er gott til þess að vita að hrakspár um að stefna Sjálfstæðisflokksins í málinu kynni að breytast með nýjum formanni hafa reynst markleysa.
Fyrir nokkru lauk sérstök Evrópunefnd, skipuð fulltrúum allra þingflokka, starfi sínu og gaf út ýtarlega skýrslu um Ísland og Evrópumálin. Í skýrslunni er blásið á ófáar fullyrðingar manna um „Evrópuumræðuna“, og hvað það varðar hefur ekkert sérstakt gerst frá útkomu hennar sem hrekur niðurstöður hennar. Í nýrri grein um Evrópumálin segir formaður nefndarinnar, Björn Bjarnason:
Niðurstöður skýrslunnar eru ígrundaðar og rökstuddar og allt annars eðlis en losaralegt tal um aðild Íslands að ESB – tal, sem byggist mikið á kveinstöfum en lítið á rökum. Hvaða stjórnmálaflokkur vill aðild Íslands að ESB? Að láta eins og eitthvað sé óljóst um, hver þurfi að vera samningsmarkmið Íslands, byggist í besta falli á þekkingarleysi. ESB gerir kröfu um að fallist sé á öll skilyrði þess, sé eitthvert hik á viðsemjandanum, er hann spurður, hvað hann þurfi langan tíma til að laga sig að þessum kröfum – ESB vill engar sérlausnir, kannski tímabundna aðlögun. |
Þetta er eitt af því sem máli skiptir í umræðunni um Evrópusambandið. Það eru engar varanlegar sérlausnir í boði. En jafnvel þó svo yrði einhvern tímann, þá er eðli Evrópusambandsins, hins stjórnlynda, yfirþjóðlega tollabandalags, hið sama og þangað á hið frjálsa og fullvalda Ísland ekkert erindi.