Mánudagur 29. október 2007

302. tbl. 11. árg.
Það hafði mikil áhrif á mig að ræða við lögregluna í Thamesárdal og heyra viðhorf hennar til fíkniefna og glæpa. Flest rán í Henley eru framin af mönnum frá Reading. Yfirleitt þurfa þeir pening til að fjármagna fíkniefnaneyslu sína. Þegar ránsfengur upp á 3.000 pund dugar til að kaupa 300 punda fíkniefnaskammt þurfa menn að ræna og rupla heil ósköp. Á svæðum á borð við Reading eru flest afbrot framin af tuttugu til þrjátíu síbrotamönnum sem eru flestir háðir fíkniefnum. Einn lögreglumannanna sem ég ræddi við var sannfærður um að ef menn leyfðu fíkniefni mundi glæpum snarfækka. Hafa lögreglumennirnir á réttu að standa og ef svo er hafa stjórnmálamenn kjark til að gera þessa skoðun að sinni? Mun ég hafa kjark til þess? Ég veit það ekki.
– Boris Johnson, Friends, Voters, Countrymen, bls. 204 – 205.

B oris Johnson þingmaður og frambjóðandi til embættis borgarstjóra í London segir ansi skemmtilega frá þátttöku sinni í kosningabaráttu breska Íhaldsflokksins árið 2001 þegar flokkurinn reyndi að rétta aðeins úr kútnum eftir ófarirnar 1997. Þetta gerir hann í einni af bókum sínum Friends, Voters, Countrymen – Jottings on the Stump. Johnson tók við af sjálfum Michael Heseltine sem frambjóðandi Íhaldsflokksins í Henley við Thames og bókin er eiginlega of spennandi fyrir þá sem ekki hafa fylgst með Johnson um árabil til að réttlætanlegt sé að upplýsa hér hvort hann náði kjöri. Síðan hafa farið fram aðrar kosningar og Johnson situr nú á þingi.

En Johnson hitti þessa bobbía á yfirferð sinni sem voru orðnir þreyttir á eltingarleik við fíkniefnaneytendur sem stela handtöskum af gömlum konum, skríða inn um glugga til að hnupla perlufestum og stinga geisladiskum og rakavélablöðum oní buxnastrenginn í verslunum. Hvers vegna gera þeir þetta? Jú vegna þess að þeir þurfa að eiga fyrir næsta skammti. Og hann kostar ekkert smáræði því efnin eru ólögleg og það er mikil áhætta falin í því að framleiða þau, flytja á milli landa og dreifa þeim til fíkniefnaneytenda.

Það er ekki að undra að Johnson spyrji hvenær stjórnmálamenn muni þora að spyrja hvort fíkniefnabannið skili yfirleitt nokkru nema aukinni ógæfu: Er lækningin verri en meinið sjálft? Ef marka má viðbrögð hér á landi við því að lagt sé til að verslun með varning sem þegar er löglegur verði gerð möguleg víðar en í 50 sölubúðum ríkisins fá menn yfir sig að vilja auka unglingadrykkju og sundra fjölskyldum. Menn geta ímyndað sér hvað sagt yrði um – eða gert við – þingmann sem vogaði sér að efast um bannið við fíkniefnum.