Kolbrún: Ég er náttúrlega dálítið mikill aðdáandi Óla Teits. Hann þorir, hann er óragur og það er ekki annað hægt en að dást að svona mönnum. Hann skammar fjölmiðlamenn og fjölmiðlamenn mega alveg fá aðhald. Og oftast hefur hann alveg á réttu að standa.
Egill: Það eru margir sem hata Ólaf Teit út af þessu. Kolbrún: Ég veit það. Egill: Hann er mjög óvinsæll meðal fjölmiðlamanna … hann gengur gegn skjallbandalögum… |
– Egill Helgason og Kolbrún Bergþórsdóttir ræða bók Ólafs Teits Guðnasonar, Fjölmiðla 2006, í Kiljunni 17. október. |
Í síðustu viku sagði Vefþjóðviljinn frá grein sem Bjarni Harðarson skrifaði í hausthefti Þjóðmála um bók Lysanders Spooners, Löstur er ekki glæpur. Og það mætti ætla að þingmenn landsins hefðu fátt annað að gera en að lesa þær ágætu bækur sem til sölu eru í Bóksölu Andríkis því nú hefur Björn Bjarnason skrifað grein um nýjustu bók Ólafs Teits Guðnasonar, Fjölmiðla 2006.
Björn segir, að það sé ómetanlegt að fjölmiðlapistlar Ólafs Teits komi út á bók, eins og þeir hafa nú gert þrjú ár í röð: „Heildarmyndin, sem þar fæst, af efnistökum fjölmiðla auðveldar mat á metnaði þeirra og stefnu. Þá gefur það bókunum aukið gildi, að þar er að finna mannanafnaskrá, en með leit í henni er unnt að átta sig betur á því en ella, hvert viðhorfið er til einstakra manna, sem eru undir smásjá fjölmiðla vegna þátttöku í stjórnmálum, viðskiptalífi, menningarlífi og íþróttum, svo að nokkrir málaflokkar séu nefndir til sögunnar“ – segir Björn og er óhætt að taka undir það. Jafnvel fyrir þá, sem hafa lesið hvern pistil þegar hann bitist í Viðskiptablaðinu, eru bækurnar hvalreki. Samhengið og heildarmyndin sem þær gefa, er alveg einstakt og hreinlega til þess fallið að gerbreyta hugmyndum lesandans um þá mynd sem fjölmiðlamenn draga upp af heiminum í kringum hann.
„… en lögreglan ákveðið að krefjast ekki farbanns yfir manninum þar til máli hans lyki í Hæstarétti. Þess var strax krafist í leiðara dagblaðs að Björn segði af sér embætti vegna þessa – og geta menn þá reynt að ímynda sér hvernig næsti leiðari yrði ef Björn tæki upp á því að hringja í lögregluna og skipa henni að krefjast farbanns yfir dæmdum manni.“ |
Eins og Björn bendir á, þá gefa bækur Ólafs Teits skýra mynd af samhengi hlutanna í íslenskum fjölmiðlum og af því hvaða viðhorf einstakir fjölmiðlar hafa til manna og málefna. Og það fer vel á því að Björn hafi orð á þessu, því fáir ef nokkrir íslenskir stjórnmálamenn eru þessi misserin fjær því en hann að njóta sannmælis fyrir störf sín. Að Morgunblaðinu undanskildu, þar sem Björn nýtur greinilega virðingar og vinsemdar, þá má taka undir með Ólafi Teiti sem kemst í bókinni að þeirri niðurstöðu að Björn sé sá „úr stjórnarliðinu sem á hvað erfiðast með að fá sanngjarna umfjöllun í fjölmiðlum.“ Og dæmin sem Ólafur Teitur rekur eru ótalmörg; það er logið upp á Björn lögbrotum, það eru búnir til um hann palladómar, fréttamenn segja á fundum að þeir treysti sér ekki til að lesa pistla Björns, þegar haldið er fram vanhæfi Björns þá er því slegið upp á forsíðu en þegar Hæstiréttur hafnar slíkum kenningum þá er ekki sagt orð um það, og þannig mætti áfram og áfram telja. Og á þessum og öðrum fréttum byggir fólk svo skoðanir sínar á manninum.
Á dögunum var sagt frá því að héraðsdómur hefði dæmt erlendan mann í langt fangelsi fyrir alvarlegt afbrot en lögreglan ákveðið að krefjast ekki farbanns yfir manninum þar til máli hans lyki í Hæstarétti. Þess var strax krafist í leiðara dagblaðs að Björn segði af sér embætti vegna þessa – og geta menn þá reynt að ímynda sér hvernig næsti leiðari yrði ef Björn tæki upp á því að hringja í lögregluna og skipa henni að krefjast farbanns yfir dæmdum manni. Um daginn náði lögreglan í landinu árangri í baráttu sinni við fíkniefnainnflytjendur og var mál manna að sá árangur væri að þakka gerbreyttu skipulagi og stórefldu starfi lögreglunnar. Í leiðara dagblaðs var tekið undir það og sérstaklega tekið fram að heiðurinn væri hjá lögreglustjóranum og nýja skipulaginu sem væru nú eitthvað annað og betra en dómsmálaráðherrann sem ætti að segja af sér vegna einhvers. Engum datt í hug að nefna að það var þessi ómögulegi dómsmálaráðherra sem kynnti, barðist fyrir og fékk lögfest hið nýja skipulag og veðjaði síðan á hinn unga lögreglustjóra til starfa.
Nú er það auðvitað ekki svo að ekki megi gagnrýna þennan stjórnmálamann eins og alla aðra. Vefþjóðviljinn kann honum til dæmis litlar þakkir fyrir tónlistarhúsið sem verið er að byggja við höfnina. En slagsíðan í opinberri umfjöllun um verk Björns undanfarin ár, er fjarri allri sanngirni. Og það er ekki aðeins í umfjöllun um einn stjórnmálamann sem íslenskir fjölmiðlar ganga fram með mjög umdeilanlegum hætti. Bækur Ólafs Teits eru sneisafullar af vandlega röktum og rökstuddum dæmum og, eins og áður hefur verið haldið fram, þá eru þær algerlega ómetanlegt hjálpargagn fyrir alla þá sem þurfa að treysta á fjölmiðlana til að fræðast um það sem fram fer.
Fjölmiðlabækur Ólafs Teits fást í Bóksölu Andríkis, hver þeirra kostar þar kr. 1890 heimsend en einnig er hægt að fá þær allar þrjár í pakka á kr. 4900.