Föstudagur 2. nóvember 2007

306. tbl. 11. árg.

J

Ekki njóta allir eldanna sem kveikja þá.

ohn R. Christy prófessor er meðal nokkur þúsund vísindamanna sem leggja loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna (IPCC) lið. Nefndin deildi friðarverðlaunum Nóbels með varphænu lýðnetsins á dögunum. Christy skrifaði um þessa upphefð sína í The Wall Street Journal í gær en segist þó vart munu bæta því á afrekaskrá sína að vera handhafi 0,01% Nóbelsverðlauna.

Christy kvartar hins vegar undan því að kollega sína meðal vísindamanna skorti auðmýkt gagnvart því verkefni að rannsaka loftslag Jarðar. „Við erum þó enn nokkur sem erum auðmjúk gagnvart því viðfangsefni að mæla og meta hið ótrúlega flókna kerfi sem loftslagið er. Við teljum okkur ekki geta fullyrt með vissu hvað kerfið er að gera og hvers vegna,“ segir hann og bætir svo við: „Móðir náttúra er flóknari en svo að við dauðlegir menn (til dæmis vísindamenn) og sú tækni sem við höfum yfir að ráða getum kortlagt hana til hlítar.“

Christy gagnrýnir einnig að það sé sama hvaða veðrabrigði eigi sér stað, alltaf séu menn tilbúnir til að líta á þau sem merki um gróðurhúsaáhrif af manna völdum og óhjákvæmilegan heimsendi. „Við hin klórum okkur í kollinu og reynum að leita raunverulegra skýringa. Við höfnum því að allt sé af manna völdum vegna þess að allt sem við verðum vitni að í loftslaginu hefur gerst áður. Sjávarmál rís og hnígur í sífellu. Heimskautaísinn hefur hörfað áður. Á einu árþúsundi synda flóðhestar í Thames og einu augnabliki í jarðsögunni síðar liggur ís frá Asíu til Norður-Ameríku.“

Christy tekur svo dæmi af því að undanfarin fimm ár hafi verið fremur þurr í suðvestur hluta Bandaríkjanna og skógareldar tíðir. Má ekki skrifa það á reikning gróðurhúsaáhrifanna? Christy bendir á að þurrkatíð í suðvesturríkjunum hafi undanfari þúsund ár yfirleitt staðið í 50 ár að jafnaði en ekki 5 ár. Þannig hafi bæði 12. og 13. öldin verið mjög þurrviðrasamar á þessum slóðum. Menn eigi því að fara varlega í að tengja slíka staðbundna atburði við gróðurhúsaáhrifin.

Christy telur víst að maðurinn eigi þátt í að auka styrk koltvísýrings í andrúmsloftinu. En eigum við að grípa til aðgerða til að draga úr útblæstri hans? Christy svarar því líka með dæmi. Gefum okkur að menn gangi í það af hörku að draga úr útblæstrinum og nái að koma 10% af orkunotkun heimsins yfir í koltvísýringslausa kjarnorku fyrir 2020 – sem væri á við helming af orkunotkun Bandaríkjanna. Miðað við spálíkön IPCC myndu þessi 1000 nýju kjarnorkuver sem til þyrfti draga úr hlýnun Jarðar um 0.1C á einni öld. Það er auðvitað hjóm eitt.

Christy segir að reynsla sín frá Afríku kenni sér að lífið án aðgang að orku sé miskunnarlaust og stutt. Óvissar afleiðingar hlýnunar Jarðar í framtíðinni hljóti að vera metnar og léttvægar fundnar í samanburði við þau vandamál sem blasa við okkur nú um stundir. Baráttan við vannæringu, sjúkdóma og vatnsskort hljóti að hafa forgang.