Helgarsprokið 21. október 2007

294. tbl. 11. árg.

Þ

Á þessu heimili er aðgangur að léttvíni tiltölulega auðveldur. Þurfa stjórnvöld ekki að bregðast við svona löguðu áður en íbúarnir verða breskum drykkjusiðum að bráð?

að næst seint full sátt um létttvínsfrumvarpið svonefnda. Andstæðingar brydda í sífellu upp á nýjum röksemdum gegn því, nú síðast að það sé nú fjandakornið ekkert mál þó svo maður þurfi að fara í sérbúð til að fá sér áfengi. Þær séu nú flestar hvort eð er í nágrenni við aðrar verslanir. Í leiðara Fréttablaðsins í dag er jafnvel ýjað að því að þetta sé bara skemmtilega sjarmerandi allt saman; eins og að fara í sérverslanir með osta og fisk.

Eins og þetta sé þá ekki líka röksemd fyrir því að leyfa sölu bjórs og léttvíns í matvöruverslununum; vínbúðirnar eru hvort eð er við hliðina á þeim? Hverju myndi það nú breyta ef málið væri að brjóta niður einn vegg og klára viðskiptin – með ost og fisk sömuleiðis – í einni biðröð en ekki tveimur?

Þá er því einnig teflt fram, að Íslendingar muni seint fara að drekka eins og Ítalir og aðrar þjóðir í Evrópu sunnanverðri. Nær sé að líta til Breta, sem eins og allir vita kunna ekki með áfengi að fara og hafi farið illa út úr auknum möguleikum til að ná sér í vín. Óvæntustu menn benda á blessuðu Tjallana máli sínu til stuðnings. Bretar eru víst orðnir óalandi og óferjandi eftir að þeim var auðveldað kaupa sér léttvíni og bjór. Menn hafa jafnvel bætt því við, sennilega meira í gamni en alvöru, að fyrst við Frónbúar horfum jafnmikið á ensk fótboltalið og raun ber vitni, þá boði það nú tæpast neitt gott fyrir landann; svipaður kúltúr, svipaður smekkur fyrir fótbolta, svipað drykkjuvesen.

Þetta er reyndar forvitnilegt sjónarmið: Ítalir eru heimsmeistarar í fótbolta. Þeir eru augljóslega líka heimsmeistarar í skammlausri léttvínsdrykkju. Englendingar eru hins vegar miklu verri í fótbolta en þeir sjálfir halda, og þurfa nú að treysta á úrslitin í leik Rússa og Ísraela – báðar þjóðir slakar í bæði fótbolta og drykkju – til að eiga raunhæfa möguleika á komast á næsta Evrópumeistaramót. Það kemur vel á vondan, enda hvað er verið að hleypa þjóð sem drekkur volgan bjór á svona alvörumót? Og Ísland?!? Almættið hjálpi okkur. Eftir 3-0 tapið gegn Lichenstein er augljóslega hreint glapræði að bjóða fullorðnu fólki upp á það að geta keypt sér vín og öl í matvöruverslunum!

Ætla mætti að menn lumuðu á einhverri tölfræði um það hversu mörg bresk heimili hafa dannast í drykkjusiðum með auknu aðgengi? Drekka allir Ítalir eins og englar? Getur verið að umfang alkóhólisma á Ítalíu og Evrópu sunnanverðri sé ekki jafnþekkt stærð og hún er á Norðurlöndunum?

Umræða um áfengi á Íslandi er sérstæð. Flokkslínur leysast upp, nema hjá vinstri grænum – segir það ekki allt sem segja þarf? – og óneitanlega hvá sumir þegar skiptist í hópa fylgismanna og andstæðinga vínsölu í stórmörkuðum.

Eitt af því sem málið snýst ekki um, er hvort Íslendingar komi til með að drekka eins og Ítalir – að minnsta kosti sá hluti Ítala sem drekkur í hófi – í kjölfar þeirra breytinga sem frumvarpið boðar, eða hvort verslanir ÁTVR séu nógu nálægt stórmörkuðum.

Það snýst um það, jafn asnalegt og sumum finnst nú frelsið vera, að stjórnvöld séu ekki að þvælast fyrir fullorðnum borgunum þessa lands með höftum í formi sérreglna um sölu og dreifingu áfengis og okri á þessari sömu vöru með hrottalegri skattlagningu. Megnið af fullorðnu fólki í öllum hinum vestræna heimi þarf hvorki að búa við sambærileg höft né heldur ríkisrekið okur. Er til of mikils ætlast að að stjórnvöld hérlendis hætti að líta á borgara sína sem börn og óvita í þessum efnum?

Það mun aldrei breytast að áfengi verður bölvaldur hjá ákveðnum hluta þjóðarinnar – og vitaskuld flestra þjóða – á hvaða tímum sem er. Það myndi ekki breytast þó svo áfengi væri selt í leikfangabúðum og sjoppum, né heldur ef það yrði aftur harðbannað að framleiða, selja og drekka það. Um þetta er ekki deilt. Það virðist meira verið að deila um það hvort stjórnvöld eigi að nota eigi þessa staðreynd um lífið og tilveruna til að meina öllu fullorðnu fólki, líkt og um óþroskaða unglinga væri að ræða, um jafn sjálfsagðan hlut og að kaupa vín í matvöruverslunum.

Með þessu er ekki verið að gera lítið úr vanda þeirra sem kunna illa með áfengi að fara. Það eru einfaldlega ekki boðleg úrræði gegn þeim vanda, að reyna að stýra neyslu með aðgangshöftum og okri. Sú „lausn“ hittir fyrir allt of marga fyrir sem hafa ekkert með hana að gera, en hafa jafnframt töluvert ónæði af henni. Það ónæði felst ekki eingöngu í því að geta ekki keypt sér vín í næstu matvörubúð, heldur hinu að með þessari stefnu sinni eru yfirvöld að koma fram við fólk eins og óvita. Íslendingar verða víst seint heimsmeistarar í fótbolta, nú eða eins konar Miðjarðarhafsmeðalhófsdrykkju, en úr því verður ekki bætt með heimsmeti í forsjárhyggju og almennu vantrausti löggjafans á eigin þjóð.