Mánudagur 22. október 2007

295. tbl. 11. árg.
Á tímum þegar stjórngleði fer vaxandi á kostnað einstaklingsfrelsins er rit þetta þarft innlegg í umræðuna þó róttækt sé. Bókarkverið sem heitir á íslensku Löstur er ekki glæpur fékk nokkra athygli þegar strípikóngurinn Ásgeir Davíðsson veifaði því á blaðaljósmyndum sem teknar voru í réttarhöldunum yfir hinum kvensæla og íturvaxna vert.
– Bjarni Harðarson í hausthefti Þjóðmála.

Í sumar gaf Andríki út ritið Löstur er ekki glæpur eftir bandaríska hugsuðinn Lysander Spooner. Rit þetta þetta var grunað um að geta höfðað til margra hugsandi áhugamanna um stjórnmál og einn þeirra hefur reynst vera Bjarni Harðarson, alþingismaður Framsóknarflokksins. Í nýjasta hefti Þjóðmála fjallar Bjarni um þessa bók Spooners og margt er í dómi hans sem kætir útgefandann fremur en hitt. Ekki gerir Bjarni þó öll sjónarmið Spooners að sínum, sem má heita sanngjarnt því sennilega hefði Spooner fyrir sitt leyti verið tregur til að taka undir með íslenskum framsóknarmönnum ef slíka menn hefði borið á góma á hans dögum.

En þó hinn skorinorði þingmaður Framsóknarflokksins telji Spooner heldur róttækan fyrir sinn smekk, þá fer því fjarri að hann telji ekkert á kenningum hans að græða, eins og Bjarni orðar það,

„því margskonar kenningar um stjórnun á mannlegum löstum hafa á undanförnum árum skotið rótum í samfélaginu og sumar illu heilli náð inn í löggjöf eins og nýlegt bann við að opna bar þar sem gestum væri leyft að reykja að ekki sé talað um þá mannlegu grimmd gagnvart mörgum þeim sem í áratugi hafa stundað reykingar en er svo bannað að stunda lastafulla nautn sína þá þeir berja nestið sína seinustu hérvistardaga á spítölum landsins. Baráttumenn frjálshyggju hafa látið sig mannréttindi sem þessi litlu varða enda margir frekar þrælar gullkálfsins en boðberar hugsjóna. Við hin höfum oft gengið fulllangt í misskilinni forræðishyggju.“

Þessi orð Bjarna eru áhugaverð. Sérstaklega ber að fagna því að alþingismaður lýsi þannig opinberlega yfir þeirri skoðun að á undanförnum árum hafi verið gengið allt of nærri frelsi borgaranna til að stjórna lífi sínu. Ekki mun standa á Vefþjóðviljanum að styðja við bak Bjarna ef og þegar hann mun beita sér á alþingi til að borgurunum verði á ný afhent það frelsi sem þeir hafa verið sviptir á síðustu árum. Þá má taka undir ábendingu Bjarna um harðneskjuna sem ríkisspítalarnir sýna þeim sjúklingum sínum sem reykja, en spítalarnir hika ekki að við að bæta reykleysinu ofan á annað það sem sjúklingarnir þurfa að glíma við. Hins vegar myndi Vefþjóðviljinn vilja gera örstutta athugasemd við þá ályktun Bjarna um áhugaleysi frjálshyggjumanna þegar kemur að málum eins og þessum. Gæti ekki verið að vandamálið væri að sárafáir frjálshyggjumenn sitja nú á þingi, en ekki að þeir geri lítið með rétt fólks til að ráðstafa lífi sínu?

En hvað sem því líður, þá sækir pólitísk rétthugsun sífellt harðar fram gegn frjálsu lífi borgaranna. Það er gleðiefni að þessi þingmaður Framsóknarflokksins virðist reiðubúinn til að rísa upp gegn því sem hann kallar misskilda forræðishyggju. Bók Lysanders Spooners, Löstur er ekki glæpur, er hugsanavekjandi vopnabúr í þeirri baráttu og fæst í Bóksölu Andríkis og kostar þar kr. 1700, heim send. Þar fæst einnig áskrift að tímaritinu Þjóðmálum en ársáskrift að þessu ómissandi tímariti kostar aðeins 3500 krónur.