Laugardagur 20. október 2007

293. tbl. 11. árg.

Æ tli nokkuð sé sterkari vísbending um innihald þeirra samninga samninga, sem nú er deilt um hvort réttilega hafi verið gerðir af hálfu Orkuveitu Reykjavíkur upp á síðkastið, en það um hvað umræðan um þá snýst?

Þó reyndar verði að hafa í huga að opinber umræða á Íslandi getur oft snúist um hrein og klár aukaatriði, þá virðist umræðan nú gefa talsverða vísbendingu um málið. Það er varla nokkur maður sem reynir að halda því fram að það sé hagstætt fyrir opinbera fyrirtækið Orkuveitu Reykjavíkur að framselja ótal réttindi til annars fyrirtækis og það með óuppsegjanlegum hætti til tveggja áratuga. Í stað þess að reynt sé að verja slíkan gjörning þá hefur verið efnt til stríðsglæparéttarhalda þar sem reynt er að komast að því hvort og þá hvenær einhver vissi að slíkur samningur stæði til.

Að vísu kann þessi breyting á umræðunni að helgast að einhverju leyti af því að nú hefur nýr meirihluti verið myndaður í Reykjavík. Frá því það var gert hafa fjölmiðlar lítinn áhuga haft á kaupréttarsamningum, ósnertanlegum innanbúðarmönnum eða öðru því sem gæti valdið brestum í meirihlutasamstarfi, heldur aðallega því hvort ekki sé hægt að hanka Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson fyrir annað hvort lygar eða óhæfni og helst hvort tveggja.

Og svo hafa menn vitaskuld réttilega bent á það, að almennir borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins brugðust allt, allt of seint við útrásarbrölti og annarri ofsakenndri starfsemi sem óð uppi innan Orkuveitunnar síðustu ár. Þó sjónarmið borgarfulltrúanna nú séu hárrétt, þá koma þau mörgum mánuðum of seint, sem dregur vitaskuld nokkuð úr þunga þeirrar réttmætu gagnrýni sem þeir nú hafa uppi um Orkuveituliðið.