Föstudagur 19. október 2007

292. tbl. 11. árg.

N

Repjuakur. Á uppskeran að seðja hungur eða brenna á bílvélum í nafni umhverfisverndar?

ú í september kom út skýrsla hjá OECD undir nafninu „Biofuels: Is the Cure Worse than the Disease?“ Þar er fjallað um svonefnt lífrænt eldsneyti á borð við etanól og jurtaolíu og menn varaðir við að láta glepjast af fagurgala þeirra sem bjóða þetta eldsneyti.

Fyrir rúmum tveimur árum ákváðu yfirvöld í Minnesota að gerast græn. Þau fyrirskipuðu að í Dieselolíu skyldi bæta 5% af olíu unninni úr nýafskornum jurtum, það sem menn þekkja sem matarolíu. Sjálf Dieseolían er hins vegar úr aðeins eldri jurtaleyfum sem náttúran gerði að hráolíu með tíð og tíma.

Í Minnesota getur kólnað aðeins yfir veturinn. Það urðu standandi vandræði með þessa olíu. Bílar fóru ekki í gang og síur stífluðust. Þessi vandræði hafa komið í veg fyrir að jurtaolía hafi fengist viðurkennd í helstu eldsneytisstöðlum þar vestra. Slíkir staðlar í Bandaríkjunum eru oftast frjáls samvinna framleiðenda, neytenda og fleiri aðila en ekki tilskipun embættismanna eins og í Evrópusambandinu.

Evrópusambandið hefur þannig mælst til þess að menn drýgi olíuna með jurtaolíu en aðeins með repjuolíu eftir að hafa þegið heilræði frá talsmönnum repjubænda.

Í Bandaríkjunum hefur kornbændum hins vegar orðið svo vel ágengt með stjórnmálamennina að ríkisstyrkir flæða í kornrækt til etanólframleiðslu og reynt er að troða etanólinu í bensín hvar sem færi gefst. Bandaríska dagblaðið The Wall Street Journal hefur harðlega gangrýnt þetta ævintýri undanfarin ár. Í ritstjórnargrein í fyrradag er því haldið fram að matvælaverð í heiminum hafi hækkað vegna þessa. Þar er því einnig haldið fram að í ræktun, framleiðslu og vinnslu á 1 lítra af etanóli þurfi 1700 lítra af vatni og því megi gera ráð fyrir vatnsskorti í þeim ríkjum Bandaríkjanna þar sem kornræktun í eldsneyti er hvað mest.

Í greininni er einnig vísað í aðra grein úr Scientific American þar sem því að haldið fram að ætli Bandaríkjamenn að drýja allt eldsneyti sitt um 10% með etanóli fari yfir 40% af ræktuðu landi í það. Hinn kosturinn sé að taka ósnortið land undir þessa ræktun, ryðja skóga og þurrka votlendi.