Þriðjudagur 16. október 2007

289. tbl. 11. árg.
Ég man hvernig ég var, ég man, að ég þóttist líka vera blóðrauður bólsi, eins og þú núna, þegar ég var unglingur. Þetta þótti fínt þá, að vera bólsi og hengja rauða fána utan á beitningaskúrana, annars var maður ekki maður með mönnum. En ég óx fljótlega upp úr þeirri vitleysu, eftir að ég sá eldheita andstæðinga á kosningafundi, eftir eldheitar umræður og hnippingar og svívirðingar á báða bóga, standa í mesta bróðerni og í hrókasamræðum á bak við sviðið í samkomuhúsinu hérna og sulla í sig öli. Ég hugsaði bara með mér: Halda þeir virkilega, að við kjósendur séum einhver fífl? Þeir hatast á senunni fram í okkur, en hlæja síðan og gera að gamni sínu á bak við tjöldin, hugsaði ég. Ég fór að hugsa betur um tilveruna, og síðan hef ég skilað auðu. Auðvitað fer ég á kjörstað til að losna við nudd kosningasmalanna, það er annað mál.
– Guðbergur Bergsson, Leikföng leiðans, bls. 129.

Í dag tekur nýr meirihluti við völdum í borgarstjórn Reykjavíkur og allir fá þá ný hlutverk. Svandís Svavarsdóttir, sem í síðustu viku var allra manna reiðust yfir annars vegar sameiningu tveggja orkufyrirtækja og hins vegar kaupréttarsamningum nokkurra manna í sameinuðu fyrirtæki, mun frá og með deginum í dag taka að sér að tryggja völd Dags Eggertssonar, sem studdi kaupréttarsamningana af heilum hug, og Björns Inga Hrafnssonar sem er helsti baráttumaður fyrir sameiningunni. Og þeir, sem í síðustu viku áttu vart orð til að lýsa aðdáun sinni á hugsjónakonunni Svandísi – þessari sem var svo staðráðin í að fá allt upp á borðið – , eru sjálfsagt í þessari viku jafn orðlausir af hrifningu yfir því að Svandís haldi þeim Degi og Birni Inga við kjötkatlana og alveg sammála henni um að nú sé þýðingarmest að „róa umræðuna“.

Það er ekki alltaf mikið að marka reiðilestrana og æsingaræðurnar. Og auðvitað á það ekki eingöngu við um þá sem eru vinstra megin við miðju. Það hefði sparað sjálfstæðismönnum í borgarstjórn töluvert vesen ef þeir hefðu getað vaknað fyrr upp af dásvefni sínum gagnvart Orkuveitu Reykjavíkur. Það sem þeir hafa sagt undanfarna daga um að opinber fyrirtæki eigi ekki að vera í áhætturekstri í framandi löndum er alveg hárrétt og vonandi meina þeir það – en það hefði gert svo miklu meira gagn ef það hefði heyrst nokkrum mánuðum fyrr.

En dagurinn í dag er ekki aðeins dagurinn þegar ástir ósamlyndra hjóna hefjast að nýju í ráðhúsinu. Einn frumlegasti rithöfundur Íslands á síðustu áratugum er sjötíu og fimm ára gamall og munu margir vafalaust gera helstu bókum Guðbergs Bergssonar hátt undir höfði í dag. En Guðbergur Bergsson er lifandi og frumlegur í fleiru en skáldsögum sínum og í tilefni dagsins má rifja hér upp tvö dæmi þess.

Í vorhefti tímaritsins Þjóðmála í fyrra skrifaði Guðbergur grein um rithöfundinn Halldór Laxness í tilefni nýrra ævisagna hans. Grein Guðbergs vaki geysilega athygli en litla ánægju ýmissa þeirra sem hafa Halldór og verk hans í hávegum. Oft hafði reynst drjúgt að láta eins og gagnrýnendur Halldórs væru næstum ólæsir með ekkert vit á bókmenntum og sjálfsagt hægrimenn, en eitthvað vafðist fyrir mönnum að afgreiða Guðberg Bergsson með sama hætti. Í greininni segir Guðbergur meðal annars að Halldór „virðist hafa stefnt að því að komast áfram með öllum hugsanlegum ráðum og reyndi þráfaldlega að gerast höfundur á erlendum tungum en náði engri fótfestu, hvorki í dönsku, þýsku né amerísku. Honum er hafnað hvarvetna. Að lokum neyddist hann til að skrifa á móðurmáli sínu. Frægðarsagan segir aftur á móti að hann hafi ekki viljað svíkja tunguna heldur skrifa á íslensku heimsbókmenntir fyrir heiminn, en heimurinn hefur sýnt verkum hans fremur lítinn áhuga og alls engan sá hluti hans sem hann dáði mest, Suður-Evrópa.“

Grein Guðbergs er öll hin hressilegasta og eins og áður segir birtist hún í 2. tölublaði Þjóðmála 2006, en það hefti fæst í Bóksölu Andríkis.

Um Halldór Laxness höfðu þarna komið tvær ævisögur sem báðar vöku mikla athygli og önnur varð tilefni málaferla. Raunar hafði önnur ævisagan ratað í fréttir löngu fyrir útkomu sína, vegna tilrauna til að leggja steina í götu höfundarins við vinnu sína. Af því tilefni skrifaði Guðbergur Bergsson blaðagrein og sagði að það væri „næstum sjúklegt hvað sumir hafa mikla andúð á Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni“ og bætti svo við, sem hefur vonandi glatt margan vinstrimanninn:

Hin einkennilega afstaða til Hannesar kemur helst fram hjá þeim hluta „vinstraliðsins“ sem hefur misst niður um sig buxurnar í stjórnmálum, listum, bókmenntum og menningarmálum. Áður var það allsráðandi þar. Nú kemur aðeins frá því leifar af hugsun fólks sem komst í „kramið“ með því að selja sig í svo litlum skömmtum að það heldur að enginn taki eftir því. En sýnilegi árangurinn er sá sami hér og í flestum löndum þar sem afturhaldið hefur sigrað að undanförnu. Í valdastöðum er sægur af þessu smáskammtafólki: fyrrum marxistum, lenínistum, trotskíistum og æskulýðsfylkingarfólki. Því hefur tekist að losna við hýðingu þótt hún liggi beinast við. Þegar á hólminn er komið lyfta menn eins og Hannes Hólmsteinn gjarna brókinni um berrassaða fyrrum andstæðinga, í gustukarskyni, því oft leynist í mönnum eins og honum miskunnsami Samverjinn en Satan í yfirlýstum englum.