Miðvikudagur 17. október 2007

290. tbl. 11. árg.

Þ ær eru ófáar áskoranirnar sem borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins hafa verið sendar á þessum vettvangi á síðustu 17 mánuðum um að lækka nú útsvarið á borgarbúa. R-listinn hækkaði sem menn muna útsvarið upp í topp. Útsvarið er enn eins hátt og lög leyfa. Það bætir ekki vígstöðu sjálfstæðismanna í minnihlutastarfinu sem framundan er. Það gæti orðið erfitt að gagnrýna nýja R-listann fyrir að hafa útsvarið í toppi þegar menn lækkuðu það ekki þegar færi gafst.

Rætt var við Geir H. Haarde formann Sjálfstæðisflokksins í helgarblaði Viðskiptablaðsins um liðna helgi. Þar var hann meðal annars spurður um skattalækkanir og hvort ekki væri betra að allir vissu hvenær þær eigi að koma til framkvæmda.

Ekki endilega. Við verðum að hafa eitthvað af þessu upp í erminni. Margar ástæður eru fyrir því. Til dæmis dregur að gerð kjarasamninga. Það væri óskynsamlegt að spila út svigrúminu fyrirfram. Þannig að þetta bíður. En reynslan sýnir að fólk þarf ekki að kvíða því að við þetta verði ekki staðið.

Við þessi orð forsætisráðherra er ýmislegt að athuga. Við síðustu áramót var áður lögfest 1% lækkun á tekjuskatti einstaklinga dregin til baka. Kvíði er því ekki alveg ástæðulaus í þessu sambandi. Með því að nefna kjarasamninga þegar hann er spurður um skattalækkanir kallar forsætisráðherra beinlínis á að ASÍ fái að ráðskast með útfærsluna á þeim. Það verða því bætur og afslættir í stað almennrar lækkunar. Kerfið verður flækt í stað þess að einfalda það í átt að flötum skatti. Þetta bætist við þá ógæfu að kynna fjárlagafrumvarp með þvílíkum afgangi að allir þrýstihópar landsins bættu einu núlli við á umsókninni til fjárlaganefndar. Ráðherrann er heldur ekki fyrstur til að tala um „svigrúm til skattalækkana“ eins og skattalækkanir komi ekki öðrum við en ríkissjóði. Hvað með svigrúm einstaklinganna til að greiða skatta? Menn verða að hætta að hugsa þetta út frá ríkissjóði og hvaða svigrúm hann hefur og hvenær sé skynsamlegt að spila einhverju út úr erminni. Það er ekki eftir neinu að bíða þegar mikilvæg mál eru annars vegar. Menn fá oft minni tíma en þeir ætla. Spyrjið bara borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.