Mánudagur 15. október 2007

288. tbl. 11. árg.
Það er mikið fagnaðarefni sem bæði Björn Ingi og Vilhjálmur hafa sagt, hluti Orkuveitunnar mun aukast og þá ætla þeir að selja.
– Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra í Silfri Egils 7. október sl.

Í umræðunni um Reykjavík Energy Invest hafa ansi margir fullyrt án nokkurs fyrirvara að hlutir í REI muni hækka verulega í verði á næstunni. Ólíklegustu stjórnmálamenn hafa látið hafa sig út í að spá fyrir um verðmæti REI á næstu árum. Flestir hafa talað um að hlutirnir muni „tvö- til þrefaldast“. Það getur bara alveg meira en vel verið. Decode margfaldaðist líka í verði um tíma á meðan Hannes Smárason var þar aðstoðarforstjóri. Bjarni Ármannsson var líka forstjóri FBA fjárfestingarbanka sem keypti vænan hlut í Decode og gengið rauk upp. Svo hluthafar REI eru í góðum höndum.

En eru þessar spár um hækkanir eitthvað innleg í umræðuna um hvort hið opinbera eigi að taka þátt í þessum rekstri? Nei, reyndar ekki. Fyrst má geta þess að ef það er svo augljóst að hlutir í tæknifyrirtæki, sem ætlar að reyna fyrir sér í Tansaníu og Djíbúti, muni snarhækka í verði að jafnvel menntamálaráðherra fagni því þá tekur verðið væntanlega nú þegar mið af því.

Í öðru lagi þá er eiginlega öll einkavæðing í uppnámi ef menn vilja setja það sem skilyrði að fyrirtæki hækki ekki í verði eftir einkavæðingu. Hver vill þá kaupa? Markmiðið með einkavæðingu er að draga hið opinbera út úr rekstri sem einstaklingar geta sinnt og losa fyrirtækin þar með undan vitleysisgangi með fé skattborgaranna.

Í Í fréttum Ríkisútvarpsins á laugardaginn var forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur spurður um samning hennar við REI til næstu 20 ára. „Hjörleifur Kvaran forstjóri Orkuveitunnar, sagði við fréttastofu í morgun að samningurinn hefði verið gerður á ensku, og ekki hefði verið búið að þýða hann á íslensku þegar stjórnar og eigendafundurinn var haldinn, enda hefði hann aðeins verið tilbúinn sama dag.“

Já það var full þörf á tillögu Ágústs Augusts Ágústssonar um tvítyngda stjórnsýslu.