A lltaf verður það undarlegra, Orkuveitumálið. Einkaréttarsamningur um verkefni, búnað, aðstöðu og starfsfólk Orkuveitunnar, sem kannski og kannski ekki var samþykktur á meintum orkuveitufundi gerir málið enn furðulegra en áður, og var ekki bætandi á. Og alltaf verður það meira og meira tilhlökkunarefni fyrir Svandísi Svavarsdóttur að styðja til valda þá borgarfulltrúa sem virðast hafa verið áhugasamastir um málið. Fyrri meirihluti sprakk vegna þess að ekki náðist þar samstaða um óbreytta stefnu í Orkuveitumálum. Varla hefur Framsóknarflokkurinn farið úr þeim meirihluta í þann næsta nema vegna þess að þar væri óbreytt stefna tryggð. Svandís heldur ekki fleiri ræður um sameininguna sem Björn Ingi Hrafnsson styður af öllu hjarta eða kaupréttarsamningana sem Samfylkingin greiddi svo fúslega atkvæði með á stjórnarfundi sem Svandís taldi fyrir helgi svo ólöglegan að hún fór í mál við Orkuveituna. En hún fær að vera pólitískur staðgengill Dags Eggertssonar í meirihluta með Birni Inga og Margréti Sverrisdóttur.
En ef sú verður niðurstaðan að fyrirvaralítill Orkuveitufundur hafi í raun verið góður og gildur – og hvort sem talið verður að umræddur einkaréttarsamningur hafi í raun verið réttilega kynntur og afgreiddur á fundinum – þá verður brýnna en áður að leita svara um það sem fram fór á þeim fundi. Þar mun hafa verið ákveðið að framselja ýmis réttindi frá Orkuveitu Reykjavíkur yfir til annars félags, sem ýmsir einkaaðilar eiga með henni. Þá vaknar vitaskuld spurningin um hvert mótframlagið verður. Hvaða raunverulegu verðmæti eru það sem gagnaðili Orkuveitunnar leggur fram? Hver er sá aðili sem segir að þau verðmæti séu svo og svo mikils virði? Hversu langt gætu stjórnarmenn í Orkuveitunni gengið við ráðstöfun eigna hennar? Eru engin takmörk á því? Mættu þeir selja Hellisheiðarvirkjun fyrir hundrað krónur, svo öfgakennt dæmi sé tekið? Eða leggja Orkuveituhúsið inn í sameiginlegt fasteignafélag með einhverju húsfélagi í lítilli blokk. Mætti það? Hvar liggja mörkin, ef það eru einhver mörk? Nú veit Vefþjóðviljinn auðvitað ekki hversu mikil raunveruleg verðmæti gagnaðili Orkuveitunnar á að leggja fram við fyrirhugaða sameiningu hinna umdeildu orkufyrirtækja – en veit einhver annar það? Vita stjórnarmenn Orkuveitunnar það? Veit nýi meirihlutinn það?
En frá sjónarhóli Vefþjóðviljans er auðvitað fleira athugavert við umsvif Orkuveitunnar en það sem komið hefur fram síðustu daga. Vefþjóðviljinn er einfaldlega andvígur því að þetta opinbera veitufyrirtæki standi í framkvæmdum erlendis, og breytir hugsanleg gróðavon Orkuveitunnar engu um þessa skoðun blaðsins. Og þá skoðun, sem ekki þarf að koma á óvart, setti blaðið fram löngu áður en Orkuveitan varð mál málanna snemma í þessum mánuði. Um það skrifaði Vefþjóðviljinn, löngu áður en stjórnarmenn Orkuveitunnar mættu á hugsanlegan fund til að samþykkja sameiningar og kaupréttarsamninga:
Eftir að vinstrimenn náðu völdum í borginni tóku þeir að þenja Orkuveituna í allar áttir. Hún hefur farið um landið og keypt upp hitaveitur í ýmsum sveitum, sem er vissulega mjög umdeilanleg þróun, og það sem meira er, menn hafa látið Orkuveituna hefja starfsemi hér og hvar í heiminum. Fyrirtæki, sem að öllu leyti er í eigu íslenskra sveitarfélaga – og að langmestu leyti í eigu eins þeirra – er þannig látið hafa slík umsvif erlendis að forstjóri þess mun næstu sjö mánuðina sinna þeim og engu öðru. Nú er Vefþjóðviljinn auðvitað enginn talsmaður þess að sveitarfélög standi í miklum veiturekstri, en látum það vera að sinni. Það er hins vegar með öllu ósamþykkjanlegt að opinber fyrirtæki eins og veitufyrirtæki íslenskra sveitarfélaga, fyrirtæki sem eingöngu ætti að sjá um að útvega íbúum hlutaðeigandi sveitarfélaga vatn og orku við sanngjörnu verði, standi í fjárfestingum erlendis. Og það má einu gilda hvort þessar fjárfestingar munu skila arði með tímanum. Hvert sem hlutverk opinberra veitufyrirtækja getur hugsanlega verið í heimabyggð á Íslandi, þá hafa þau ekki nokkurt hlutverk utan landsteina. Ef að menn samþykkja að Orkuveita Reykjavíkur taki að sér að leggja vatnslagnir í Shanghaí þá má eldhús Landspítalans alveg eins opna pylsuvagn á Trafalgar-torgi. |
Stundum getur gamansemi sett alvörumál í skiljanlegt samhengi. Í pistli í Viðskiptablaðinu í fyrradag skáldar Ólafur Teitur Guðnason upp frétt um arðbæra útrás sem íslenska vegagerðin standi nú fyrir í Afríku:
Vegagerðin hefur stofnað dótturfélagið No Way Invest, með fimm milljarða króna hlutafjárframlagi. Tilgangurinn er að stunda vegagerð í Afríku, þar sem á eftir að leggja vegi á stórum svæðum. Jón Rögnvaldsson vegamálastjóri telur að í þessu felist gríðarleg tækifæri til að nýta sérþekkingu og kunnáttu Vegagerðarinnar, einkum á sviði malarvega, einbreiðra brúa og malbikunar. Allt séu þetta sérkenni á íslenska vegakerfinu sem vitað sé að mikil not væru fyrir í Afríku. Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands átti á dögunum fund með forseta Súdans, Ómari Assan al-Bashir, sem lýsti yfir eindregnum vilja til að hefja samstarf við Íslendinga á sviði vegagerðar. “Í þessu felast mikil tímamót, ekki bara fyrir báðar þjóðirnar heldur einnig hagkerfi alls heimsins, segir Ólafur Ragnar. “Súdan er 10. stærsta land heims að flatarmáli, en vegakerfið er á margan hátt vanþróað. Bættar samgöngur áttu stóran þátt í því að Ísland breyttist úr fátækasta landi Evrópu í eitt hið ríkasta á fáeinum áratugum. Nú gefst okkur einstakt tækifæri til að miðla Súdönum af reynslu okkar og hjálpa þeim inn í 21. öldina. Þegar hefur verið gengið frá viljayfirlýsingu við opinbera aðila í Súdan um lagningu 10.000 kílómetra af vegum. Því er ljóst að allt stefnir í að verkefnið verði óhemjuarðbært og skili margra milljarða króna hagnaði, einkum ef samningar nást um að Vegagerðin leggi alli vegi í landinu og jafnvel víðar í Afríku. “Okkar hlutverk er að standa vörð um hagsmuni íslenskra skattgreiðenda, með því að sjá til þess að að fyrirtæki hins opinbera skili sem allra mestum hagnaði, segir Kristján Möller samgönguráðherra. Árni Mathiesen fjármálaráðherra tekur í sama streng og blæs á gagnrýni þeirra sem mótmæla stórfelldri útrás opinberra fyrirtækja á hugmyndafræðilegum forsendum. “Ætla menn virkilega að kasta út um gluggann öllum þeim milljörðum sem þarna gætu orðið til? spyr Árni undrandi. Hann bætir við að einu gildi hvort arðbær starfsemi sé rekin af einkaaðilum eða hinu opinbera, hún sé alltaf af hinu góða. “Ég tek undir með Deng Xiaoping leiðtoga Kínverja, sem sagði svo eftirminnilega að það skipti ekki máli hvernig kötturinn væri á litinn svo framarlega sem hann veiddi mýs. Í kjölfar viljayfirlýsingarinnar við yfirvöld í Súdan, sem gefur væntingar um milljarðagróða, hafa Glitnir, Kaupþing og Landsbankinn lýst áhuga á að kaupa hlut í félaginu á margföldu nafnvirði. Við stofnun No Way Invest var gengið frá því að ýmsir lykilstarfsmenn Vegagerðarinnar fengu kauprétti í félaginu, þeirra á meðal G. Pétur Matthíasson upplýsingafulltrúi. |
Svo eru eflaust ýmsir sem sjá ekkert fyndið við þessa frétt. Hví ætti vegagerðin ekki að leggja vegi í Súdan ef Orkuveitan borar eftir vatni í Kína?