Laugardagur 13. október 2007

286. tbl. 11. árg.

J á var það ekki? Nú þarf að „róa umræðuna“ um Orkuveituna. Og stofna vinnuhóp sem á að skila einhverju eftir „nokkra mánuði“. Þetta segir að minnsta kosti sú sem hefur orgað sig hása undanfarna daga yfir spillingunni í Orkuveitunni og dótturfélaginu REI.

Hvað ætli líði margir dagar þar til Svandís Svavarsdóttir dregur málshöfðun vegna boðunar á stjórnarfund Orkuveitunnar til baka? Málið sé komið í ákveðinn farveg í borgarkerfinu, vinnuhópur sé að störfum, það verði unnið í þágu almannahagsmuna, bla, bla bla…

Félagsfundur vinstri grænna lýsti í ályktun í gærkvöldi „sérstakri ánægju með vasklega framgöngu Svandísar Svavarsdóttur“ og ungir vinstri grænir ályktuðu einnig að „hún sé hinn eini sanni leiðtogi“ borgarstjórnar Reykjavíkur. Menn muna jú að vinstri grænir eru sérlega á móti persónudýrkun í stjórnmálum. Svandís um alla borg.

Segja má að hið nýja samstarf sé fyrsta meiri háttar nýja samstarfið sem vinstri grænir fara í eftir að flokkur þeirra var stofnaður. Þeir voru að vísu með í R-listanum en það samstarf átti sér lengri sögu en flokkur þeirra. Vinstri grænir taka sig og boðskap sinn alvarlega. Það er að minnsta kosti sú ímynd sem þeir vilja að aðrir hafi af sér. Hugsjónamenn, engir hentistefnumenn sem gefa baráttumálin upp á bátinn fyrir völdin.

Það er spurning hvort menn trúi því svo glatt þegar uppvaski hins eina sanna leiðtoga eftir veisluhöldin í Orkuveitunni lýkur.