Föstudagur 12. október 2007

285. tbl. 11. árg.

Þ að er heldur kynlegur kvistur Margrét Sverrisdóttir varaborgarfulltrúi. Eða þá þeir borgarfulltrúar sem í samningaæsingi virðast hafa lofað að kjósa þennan varaborgarfulltrúa sem forseta borgarstjórnar eftir helgi. Margrét Sverrisdóttir er hvorki kjörin borgarfulltrúi né félagi í nokkrum þeirra flokka sem í fyrra fengu kjörinn mann í borgarstjórn. Hún var í fyrra kjörinn varaborgarfulltrúi af lista Frjálslyndra, en hefur síðan yfirgefið þann flokk og er nú varaformaður Íslandshreyfingarinnar sem á engan mann í borgarstjórn.

Fyrir nú utan þá fráleitu hugmynd, að Margrét Sverrisdóttir varaborgarfulltrúi komi til greina sem forseti borgarstjórnar, þá er hver seta hennar á borgarstjórnarfundum stóreinkennileg.

Fyrir nokkru gerðist það, að einn af kjörnum alþingismönnum Frjálslynda flokksins, Gunnar Örlygsson, ákvað að yfirgefa þann merka flokk og ganga í annan stjórnmálaflokk. Gunnar ákvað hins vegar að sitja áfram á þingi og virtist álíta að þingsætið tilheyrði sér einum en flokkurinn sem bauð hann fram kæmi þar hvergi nærri. Sá skilningur á stjórnarskrárbundnum réttindum alþingismanns var kórréttur, hvað sem mönnum kann að finnast um ákvörðun hans að öðru leyti. Og fólki fannst líka eitt og annað um hana.

Einn einstaklingur varð öllum öðrum reiðari. Þessi einstaklingur lét sér ekki nægja að gagnrýna Gunnar opinberlega heldur kvartaði sérstaklega undan honum til umboðsmanns alþingis, og var vissulega ákveðin hugmyndaauðgi fólgin í slíku tiltæki. Í bréfi sínu til umboðsmanns spurði þessi bálreiði einstaklingur sérstaklega hvort það gæti virkilega verið, að til væri „opin leið fyrir tækifærissinna að fara í framboð fyrir einn flokk en skipta svo um flokk strax að loknum kosningum“!

Næstum því upp á dag fyrir tveimur árum, hinn sjöunda október 2005, skrifaði sami hneykslaði einstaklingur grein í Morgunblaðið og hellti þar úr skálum reiði sinnar yfir þá stjórnmálamenn sem „fótum troða umboð kjósenda sinna„ með því að yfirgefa þann flokk sem bauð þá fram en hanga áfram á því sæti sem kjósendur ætluðu flokknum. Það hreinlega særir „réttlætiskennd kjósenda þegar þingmaður, sem nær kjöri vegna stuðnings við þann flokk sem hann er fulltrúi fyrir, fer með umboð kjósenda eins og honum sýnist, fer jafnvel úr stjórnarandstöðu til að styðja stjórnarmeirihlutann á miðju kjörtímabili, eins og nýlegt dæmi sannar“ – skrifaði þessi sárhneykslaði einstaklingur fyrir tveimur árum.

Það þarf auðvitað ekki að taka það fram, að sá einstaklingur sem skrifaði bæði í blöð og til umboðsmanns alþingis vegna þess að Gunnar Örlygsson fór úr Frjálslynda flokknum en sagði ekki af sér trúnaðarstöðum, heitir Margrét Sverrisdóttir. Sama Margrét Sverrisdóttir og var kjörin varaborgarfulltrúi af F-lista Frjálslyndra og óháðra fyrir ári en sagði sig síðar úr Frjálslynda flokknum. En hangir á varaborgarfulltrúasætinu og ætlar að láta kjósa sig forseta borgarstjórnar úr því.

Og nei, Margrét getur ekki haldið því fram að hún sé einfaldlega hætt að vera fulltrúi Frjálslyndra en sé nú fulltrúi „óháðri“. Hún settist á listann, án prófkjörs, sem fulltrúi Frjálslynda flokksins, var þá meðal annars framkvæmdastjóri flokksins og síðar frambjóðandi til varaformanns flokksins. Og í dag er hún raunar alls ekki óháð. Hún er hvorki meira né minna en varaformaður starfandi stjórnmálaflokks.

En það að Margrét Sverrisdóttir geri það sama og jafnvel meira en það sem hún sárreið gagnrýndi Gunnar Örlygsson fyrir, er ekki það sem helst stendur í vegi fyrir því að hún geti orðið forseti borgarstjórnar. Hún er einfaldlega ekki borgarfulltrúi þó hún sæki fundi borgarstjórnar í tímabundnum forföllum hins kjörna aðalmanns Frjálslyndra. Hvað ætla menn að gera ef Ólafur F. Magnússon gerir sér ferð niður í ráðhús. Þá er „forseti borgarstjórnar“ ekki lengur „ borgarfulltrúi“.

Síðast þegar vinstristjórn var mynduð með hrossakaupum þá víluðu menn ekki fyrir sér að gera Júlíus Sólnes að hagstofuráðherra til að tryggja meirihlutann. Nú á að leika svipaðan leik og gera Margréti Sverrisdóttur varaborgarfulltrúa að forseta borgarstjórnar.

Gott og vel, geriði það sem ykkur sýnist, myndiði hvaða furðumeirihluta sem ykkur lystir og það jafnvel án þess að ræða eina málið sem er sagt hafa sprengt fyrri meirihluta, geriði þetta allt og meira til ef ykkur langar, en ekki – ekki – gera varaborgarfulltrúa að forseta borgarstjórnar Reykjavíkur.