Fimmtudagur 11. október 2007

284. tbl. 11. árg.

D oris Lessing fær bókmenntaverðlaun Nóbels í ár. Hún hefur að sögn spekinga verið öðrum konum í rithöfundastétt mikil hvatning og femínistar hafa margir hverjir haft hana í hávegum, og ekki síst fyrir hennar þekktustu bók, The Golden Notebook.

Fyrir nokkrum árum gaf Lessing út nýja bók, The Sweetest Dream, þá komin yfir áttrætt. Af því tilefni var talað við hana í breskum fjölmiðlum, en einhverra hluta vegna voru svör hennar ekki áberandi í öllum speglunum og víðsjárnum eða hvað þeir heita þættirnir þar sem menningarvitar vitna hver í annan. Doris Lessing reyndist hreint ekki hrifin af kvennahreyfingunum. Og hún var ekki einu sinni neitt sérstaklega bergnumin af þeim konum sem „ruddu brautina“ í kvennabaráttunni fyrir nokkrum áratugum. „The great figures of that time do have a pretty exhibitonist streak“ sagði hún og bætti við að þær hefðu verið svo merkilegar með sig, að þær hefðu ekki getað sagt nokkurn skapaðan hlut án þess að níða karlmenn niður í leiðinni. Þetta hafi verið trúarbrögð, þær hafi átt sína trú og enginn hefði mátt blaka við þeim. Og nú á tímum, sagði Doris Lessing, eru það karlmenn sem ekki eru metnir að verðleikum.

Þekktasta bók Lessing er The Golden Notebook – eins og fréttamenn munu vafalaust margsegja í dag – og hefur oft verið látið meira með efni hennar en höfundurinn hafði hugsað sér. Í einu viðtalinu sagðist Doris Lessing meira að segja hafa lent í deilu við sænskan femínista og deilan síharðnað þar til sú sænska hefði öskrað á Lessing: „Þetta er mín bók. Hvað þykist þú vera að segja mér til um hana.“

Þetta allt munu íslenskir fjölmiðlar auðvitað rifja upp í dag, allir sem einn.

J ohn og Paul voru líka voða góðir vinir. Þá kom Yoko í heimsókn.