Miðvikudagur 10. október 2007

283. tbl. 11. árg.
[Pistlarnir] eru skemmtilega skrifaðir. Þeir eru mátulega ögrandi; hann er einn af þeim mönnum sem er hressandi að vera ósammála þegar þannig ber undir. Þess vegna gleypir maður í sig pistla Ólafs Teits þegar þeir birtast í Viðskiptablaðinu hvern föstudag.
– Egill Helgason, í Þjóðmálum, sumarhefti 2006.

Í dag bætist í Bóksölu Andríkis ein áhugaverðasta og mikilvægasta bók þessa árs og full ástæða fyrir alla áhugamenn um íslensk þjóðmál að verða sér út um hana. Hér er á ferð nýjasta bók Ólafs Teits Guðnasonar, Fjölmiðlar 2006, og birtast þar allir hinir umtöluðu fjölmiðlapistar hans frá því viðburðaríka ári.

Það er rétt hjá Agli Helgasyni að Ólafur Teitur skrifar hressilegan og skemmtilegan stíl og slær oft á létta strengi í bókum sínum, en þrátt fyrir það þá eru bækur hans ekki síður hrollvekjandi en skemmtandi. Það sem er svo hrollvekjandi eru hin ótalmörgu, alvarlegu og fjölbreyttu dæmi sem Ólafur Teitur tekur af vinnubrögðum íslenskra fjölmiðla. Af skiljanlegum ástæðum verður fólk að verulegu leyti að treysta á fjölmiðla til að fræða sig um mál og viðburði frá degi til dags – og er þá augljóst hversu gríðarlegu máli það skiptir að í boði séu fjölmiðlar sem fólk getur borið sæmilegt traust til. Ef fjölmiðlar gefa óvandaða, ósanngjarna eða hlutdræga mynd af tilteknum málum, jafnvel ítrekað og sumir hugsanlega árum saman, þá hefur það stórskaðleg áhrif á möguleika fólks til að mynda sér skynsamlega skoðun á þeim.

Fjölmiðlabækur Ólafs Teits Guðnasonar eru bókstaflega fullar af dæmum af vinnubrögðum fjölmiðlamanna, mannanna sem hafa mörg orð um að þeir hafi það hlutverk að gagnrýna og „veita aðhald“ – en þurfa sjálfir raunar sárlega á sömu þjónustu að halda. Ólafur Teitur er óhræddur við að taka kollega sína á beinið enda eru þeir margir sem kunna honum litlar þakkir fyrir. En hinn almenni lesandi, maðurinn sem dag hvern verður að leita í fjölmiðla eftir upplýsingum um það sem fram fer, en getur auðvitað ekki staðið í því frá morgni til kvölds að kanna bakgrunn frétta, leggja flókið samhengi ótal hluta á minnið eða kanna á annan hátt vinnubrögð fjölmiðlamanna í einstökum málum, honum býðst í fjölmiðlabókum Ólafs Teits einstakt hjálpargagn til þess að gera sér rökstudda mynd af því hversu vel íslenskum fjölmiðlum er treystandi. Allir þeir sem vilja vera upplýstir menn ættu að kynna sér fjölmiðlabækur Ólafs Teits Guðnasonar og þau rökstuddu sjónarmið sem hann setur þar fram.

Fjölmiðlar 2006 fást í Bóksölu Andríkis og kosta þar kr. 1890 og er heimsending innanlands innifalin í því verði eins og ætíð í Bóksölunni. Við sendingu bókar til útlanda bætast hins vegar 600 krónur.

Jafnframt bjóðast nú, meðan birgðir endast, í einum pakka allar þrjár fjölmiðlabækurnar sem út eru komnar og kosta þá samtals kr. 4900. Þessi ritröð ætti að vera í bókasafni hvers skynsams fjölmiðlanotanda.