Helgarsprokið 30. september 2007

273. tbl. 11. árg.

S kólamál eru af og til sérstaklega til umræðu í fjölmiðlum. Æ oftar kemur það ekki til af góðu eins og árstíðabundnar fréttir af manneklu við skólanna eru dæmi um. Reyndar virðast leikskólar höfuðborgarsvæðisins eiga við sífellda manneklu að stríða. Margir hafa bent á að líkleg skýring á þessum vanda sé samkeppnin við hin ýmsu atvinnutækifæri á einkamarkaðinum. Það hallar á hina opinberu leikskóla í þeirri keppni.

Umfjöllun um mismunandi rekstrarform skóla hefur oft verið á huglægum, pólitískum nótum og stundum reyna menn að gera út á einhvers konar siðferðileg sjónarmið. Dæmi um þetta mátti lesa um í sérstakri umfjöllun í helgarblaði Viðskiptablaðsins nú um helgina. Í tilefni af eðlilegum vangaveltum Þorbjargar Helgu Vigfúsdóttur formanns leikskólaráðs Reykjavíkurborgar, um breytingar á rekstarfyrirkomulagi leikskóla og mögulega aðkomu atvinnulífsins að leikskólarekstri, voru sett fram mótrök sem byggðust á félagsfræðilegum hugmyndum. Sigrún Elsa Smáradóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, heldur því þannig fram að hætta sé á einhvers konar stéttskiptingu meðal leikskólabarna ef fyrirtæki tækju upp á því að tryggja börnum starfsmanna sinna leikskólapláss. Þá væri hætta á að það verði mjög einslitur hópur samfélagsins sem yrði á þess háttar fyrirtækjaleikskóla. Málflutningur sem þessi er á svipuðum nótum og hefur verið hafður uppi þegar einkarekstur á grunnskólastigi hefur borið á góma síðustu áratugina. Alltaf skal reynt að sá efasemdarfræjum í huga almennings með tilvísun til mögulegrar stéttskiptingar, svona rétt eins og stéttskipting hafi aldrei verið til staðar á Íslandi og að hún verði til með einum tilteknum hætti.

Það er ekki ætlunin hér að gjalda varhug við hugleiðingum um félagslegar afleiðingar breytts rekstarfyrirkomulag skóla, leikskóla eða grunnskóla. Það eru eflaust margs konar félagsleg fyrirbrigði sem vert er að hafa í huga í þeim efnum, ekki síður en efnahagsleg atriði. Oft á tíðum eru þessar huglægu hugleiðingar hins vegar þess eðlis að þær ná aldrei að verða annað en einmitt það sem þær eru; hugleiðingar. Þær eru þess eðlis að erfitt er að slá nokkru föstu um efni þeirra. Rökum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar mætti að vísu svara með því að benda á að ekkert fyriræki hér á landi er svo einsleitt í mannauði sínum, svo notað sé faglegt og nútímalegt orðalag, sem borgarfulltrúinn gengur út frá. Í bönkum starfa til að mynda verðbréfadrengir og -stúlkur, gjaldkerar, matráðsfólk, sérfræðingar á ýmsum sviðum, útlendingar og Íslendingar og alls kyns fólk við ræstingar. Allt fólk sem á kannski ekkert sameiginlegt hvert með öðru annað en að vinna á sama stað. Kannski myndi bara ein starfstétt bankans nýta sér leikskóla hans og því yrði til þessi einsleiti hópur sem borgarfulltrúinn vísar til. En kannski ekki. Eitt er þó næsta víst að efnahagslegu áhrifin yrðu þau að tiltekinn hópur úti í atvinnulífinu gengi töluvert öruggari að þessari þjónustu vísri.

Cato stofnunin í Bandaríkjunum gaf nýlega út bók eftir Herbert J. Walberg um skólamál. Titill bókarinnar, School Choice: The Findings, gefur til kynna að ekki sé aðeins fjallað um kosti í skólamálum í þeim anda sem þau mál eru iðulega rædd hér á landi. Bókin er í raun ágætis yfirlit yfir helstu rannsóknir sem gerðar hafa verið í Bandaríkjunum á valkostum í skólakerfinu þar í landi. Eins og segir í inngangi er í bókinni litið fram hjá heimspekilegum ágreiningi um skólavalfrelsi en umfjöllunin takmörkuð við rannsóknir á áhrifum valfrelsisins. Bókinni er skipt upp í kafla með umfjöllun um áhrif mismunandi rekstarforma skóla: sjálfstæðra skóla (charter school), ávísanakerfi og eiginlegra einkaskóla. Þá er í umfjölluninni gert grein fyrir áhrifum þessara skóla á opinbera skóla og áhrifum valfrelsis á landfræðilegar einingar og skólaumdæmi, hvort sem það eru ríki, borgir eða smærri svæði. Eftir að hafa sett fram í nokkrum köflum niðurstöður viðamikilla rannsókna á beinum áhrifum tiltekinna rekstarforma á einkunnir nemenda, á hegðun þeirra, á nemendur með sérþarfir o.s.frv. endar höfundur á umfjöllun sem hann sjálfur telur hvað mikilvægasta mælikvarðann. Lokakafli bókarinnar fjallar nefnilega um ánægju viðskiptavinanna, sem í þessu sambandi eru foreldrar og nemendur.

Það er skemmst frá því að segja að rannsóknirnar sem raktar eru í fyrri köflum gefa flestar til kynna að valfrelsi í skólamálum eykur afköst og hefur að öðru leyti áhrif sem foreldrar, almenningur og stjórnvöld telja vera félagslega jákvæð og verðmæt fyrir einstaklinginn. Þegar kemur að því að meta ánægju kúnnanna bendir höfundur á að vissulega mætti fyrirfram ætla að hvert foreldri liti ekki sömu augum á gæði tiltekins skóla og því væri erfitt að draga einhverja ályktun af svörum allra foreldra um tiltekinn skóla. Í kaflanum um sjálfstæðu skólanna er hins vegar vísað til rannsóknar á 239 sjálfstæðum skólum þar sem einmitt þessi vandi var hafður í huga. Þess vegna voru svör foreldra borin saman við svör fleiri sem málið varðar. Kom í ljós að foreldrar, sérfræðingar og opinberir aðilar gáfu skólunum mjög sambærilegar einkunnir. Foreldrar voru almennt ánægðir með skólann sem þeir höfðu valið börnum sínum. Og það telur höfundur í raun mikilvægast og bendir á að foreldrar vilji hafa aukið valfrelsi í þessum efnum, hvort sem um einkaskóla eða opinbera skóla er að ræða.

Vissulega er ekki endilega réttmætt að draga ályktanir út frá öllum þeim bandarísku rannsóknum sem bókin fjallar um, með tilliti til hins íslenska skólakerfis. Það er þó umhugsunarvert að þessar rannsóknir liggja nú þegar fyrir. Til viðbótar við hina pólitísku umræðu um aukið valfrelsi mætti kannski læra eitthvað af þeim.