Mánudagur 1. október 2007

274. tbl. 11. árg.
 Á sama hátt er ég andvígur aðild Breta að evrunni eða að við köstum pundinu eins og við íhaldsmenn köllum það. Aðalástæðan fyrir andstöðu minni er að með því að kasta pundinu væri verið að taka frá okkur möguleikann á að refsa stjórnvöldum fyrir slæma stjórn efnahagsmála (hvort sem er stjórn peningamála eða ríkisfjármála). Völdin væru færð til Brussel og Frankfurt.
– Boris Johnson, Friends, Voters, Countrymen, bls. 12.

Þ að er sagt að íslensku stórfyrirtækin séu með nær alla sína starfsemi erlendis, Ísland skipti vart máli lengur, en það sé engu að síður lífsspursmál fyrir þau að losna við íslensku krónuna. Í aðra röndina er svo sagt að íslenskur almenningur og smáfyrirtækin séu að kikna undan íslenska vaxtaorkinu en í hina að peningamálastefna Seðlabankans hafi engin áhrif. Og hvers vegna hefur hún nú engin áhrif? Jú vegna þess að hver sem er getur tekið lán í öðrum gjaldmiðlum, japönsku jeni eða svissneskum franka, hvort sem er fyrir nýju sófasetti eða skurðgöfu.

Hver er vandinn?

Er að undra að samkvæmt nýjustu könnun vilji færri Íslendingar taka upp evru en ganga í sjálft Evrópusambandið? Eftir „evruumræðuna“ undanfarið er nú svo komið að Íslendingum þykir vænna um krónuna sína en sjálfstæði þjóðarinnar. Íslendingar vilja fremur hætta að tilheyra frjálsu og fullvalda ríki en að kasta krónunni.

Svona fer oft þegar menn koma sér hjá því að svara grundvallarspurningum. Það kemur falskur og innantómur tónn í umræðuna. Í þessu tilviki ættu menn að ræða hvort ríki eigi yfirleitt að gefa út gjaldmiðla. En allt púðrið fer í tæknilegar vangaveltur um hversu stór ríki eða ríkjasamsteypur þurfti að vera til að gefa út gjaldmiðla. El Salvador, Ísland, Noregur, Svíþjóð, Sviss? Og hvað með Bandaríkin, eiga þau snúa baki við grænbak? Bandaríkjadalur er búinn að falla hressilega að undanförnu gagnvart öðrum gjaldmiðlum. Bandarískir ferðamenn í París hafa aldrei fengið jafn háa kortareikninga þegar heim er komið. Eða þeir sem flytja út vörur frá evrulöndunum til Bandaríkjanna, hvers eiga þeir að gjalda? Tekjur þeirra hafa snarminnkað vegna óstöðugleika tveggja stærstu gjaldmiðla í heimi gagnvart hvor öðrum. Þurfa evrulöndin nýja mynt?

Gallinn við hina svokölluðu „evruumræðu“ er að þeir sem fara fyrir henni vilja að stjórnmálamenn ákveði hvaða gjaldmiðil Íslendingar skuli nota. Eins og Vefþjóðviljinn hefur sagt í svo mörg ár er enginn þörf á fleiri ákvörðunum að ofan um það efni. Ríkissjóður gerir upp í krónum en aðrir geta haft sína hentisemi. Það verður sífellt auðveldara að nota aðra mynt en krónuna hér á landi. Þeir sem vilja geta þá gert það og margir gera það nú þegar í stærstu viðskiptum sínum. Íbúða-, bíla- og húsbúnaðarkaup eru fjármögnuð með erlendu lánsfé. Menn  setja sparifé sitt í stórum stíl í erlenda verðbréfasjóði og hlutafélög. Ríkissjónvarpið sýnir ekki kvikmynd um þessar mundir án þess að menn séu minntir – eða myntir – á myntkörfulánin frá Frjálsa fjárfestingarbankanum. Loksins þegar krónan hefur fengið alvöru samkeppni frá öðrum gjaldmiðlum vilja menn losna við hana – og minnka samkeppnina.

Eins og Boris Johnson þingmaður Henley og borgarstjórakandídat bendir á í einni af hinum skemmtilegu bókum sínum þá væri það ólýðræðislegt skref að fela ríkisstjórnum annarra landa – eða skriffinnum í Brussel og Frankfurt – stjórn peningamála. Á meðan ríki gefa út gjaldmiðla er æskilegt að kjósendur geti haft eitthvað um það að segja hverjir fara með völdin sem því fylgir.