F
Faxaflóahafnir reka nú þegar eina höfn í Hvalfirði og vilja gleypa NATÓ höfnina sem ætlunin var að einkavæða en ekki segja til sveitar. |
axaflóahafnir er sameignarfélag Reykjavíkur, Akraness og þriggja annarra sveitarfélaga og rekur hafnir þeirra. Fyrir nokkrum misserum sendi Björn Ingi Hrafnsson stjórnarformaður Faxaflóahafna ríkisstjórninni bréf þar sameignarfélagið lýsti áhuga sínum á að fjármagna lagningu Sundabrautar. Þótti það engu síðri nýlunda að höfn þættist vera banki en þegar orkuveita hóf uppeldi á risarækjum.
Samgönguráðherra tók þessari málaleitan ólíklega sagði að lagning Sundabrautar yrði að sjálfsögðu boðin út. Stjórnarformaðurinn lagði ekki árar í bát heldur svaraði að bragði í fjölmiðlum að Faxaflóahafnir myndu bjóða í verkið. Sjá menn í hendi sér hvað það liggur beint við að Faxaflóahafnir gerist vegavinnuverktakar í hjáverkum. Það er jafn rökrétt og að orkuveita hækki verðið á heita vatninu af því það sé svo hlýtt í veðri.
Nú berast svo fréttir af því að hafnaraðstaða og olíubirgðastöð NATÓ í Hvalfirði séu komin á innkaupalista Faxaflóahafna. Íslenska ríkið tók við stöðinni og höfninni þegar bandaríski herinn yfirgaf landið. Nú á að einkavæða hana. Þar með væri góð höfn í nágrenni Reykjavíkur komin í einkaeign. En þetta geta Faxaflóahafnir ekki horft upp á, að einhver einkaaðili færi að reka höfn í samkeppni við sameignarfélagið. Það væri eins og Orkuveitan hefði sleppt því að hefja fjarskiptarekstur í samkeppni við einkafyrirtæki.
Alferð og Orkuveitan, Björn Ingi og Faxaflóahafnir, framsóknarmenn eru samir við sig, segir nú kannski einhver. Það er ekki alveg sanngjarnt. Alfreð hrinti öllum furðuhugmyndum sínum í framkvæmd. Björn Ingi er svona meira að gera sig gildandi í umræðunni fyrir átökin um formannsstólinn í flokknum og hrindir vonandi engu í framkvæmd.