Föstudagur 28. september 2007

271. tbl. 11. árg.

F yrir nokkru gerðist það á Bretlandi að það kviknaði í íbúðarhúsi og húsráðandi gat enga björg sér veitt. Sem betur fór kom slökkviliðið fljótt á vettvang og vildi svo vel til að slökkviliðsmennirnir voru báðir konur, enda var þá nýlokið velheppnuðu átaki um að fjölga konum í lögreglu og slökkviliði. Að vísu tókst slökkviliðsmönnunum ekki að brjóta upp útidyrahurðina að hinu brennandi húsi en þær stöðvuðu þá leigubifreið sem átti leið hjá og bílstjóri hennar spyrnti dyrunum upp af þeim fautaskap sem karlkynið hefur þróað með sér á liðnum öldum. Gátu slökkviliðsmennirnir þá haldið áfram faglegum störfum sínum með fullum sóma. Sést af þessu, það sem Vefþjóðviljinn hefur alltaf vitað, að það er kyn og ekkert nema kyn starfsmanna sem skiptir máli. Þess vegna er mikilvægt að vera sýknt og heilagt að telja kynjahlutföll í hverri starfsgrein og efna svo til opinberra aðgerða til að jafna þau með smjörhníf.

Í síðustu viku varð það slys á Bretlandi að ungur drengur drukknaði í tjörn. Meðal vitna af atvikinu voru tveir lögregluþjónar sem næstum því gerðu þau mistök að koma hinum drukknandi dreng til hjálpar. Þeir höfðu þó rænu á að spyrja stjórnstöðina ráða og þar var þeim réttilega bent á að þeir höfðu ekki lokið viðhlítandi námskeiði í björgun úr tjörnum og höfðu því ekki réttindi til slíkra aðgerða. Varð drengurinn því ekki fyrir því að réttindalausir menn björguðu honum, en það er lífsreynsla sem fæstir vilja ganga í gegnum. Sést af þessu það sem Vefþjóðviljinn hefur alltaf vitað, að það er mælanleg hæfni og ekkert annað sem skiptir máli. Það er bráðnauðsynlegt að sem ýtarlegastar starfsreglur gildi um öll þau tilvik sem upp koma svo að hvert verk sé unnið af hæfum manni eftir faglegum verkferlum.