Fimmtudagur 27. september 2007

270. tbl. 11. árg.

H austhefti Þjóðmála kom út fyrir stuttu og í því kennir að venju ýmissa grasa. Gunnlaugur Júlíusson hagfræðingur skrifar um ógnarstjórn Maos Tses Tungs í Kína, en nú er talið að um 70 milljónir Kínverja hafi látist með beinum eða óbeinum hætti af hennar völdum. Á Vesturlöndum voru hins vegar ófáir vinstrimennirnir sem lofsungu Maó og áttu margar hjartnæmar stundir að lesa úr verkum hans. Geir Ágústsson verkfræðingur skrifar um nýhafið samstarf S-flokkanna í íslenskum stjórnmálum og er ekki mjög hrifinn af því sem hann hefur séð. „Bros og gleði frjálslyndra Íslendinga hefur nú breyst í hnút í maganum“ segir Geir eftir fyrstu mánuði stjórnarsamstarfsins.

Margt fleira er í Þjóðmálum. Halldór Jónsson skrifar um innflytjendur og flóttamenn, og þann „fíflaskap“ sem hann telur sig greina í umræðum og aðgerðum um þann málaflokk; söguáhugamenn fá talsvert fyrir sinn snúð í grein Björns Jóns Bragasonar sagnfræðings um loftvarnarsveitir íslenskra skáta í síðari heimsstyrjöldinni, en þá sáu frjáls félagasamtök um loftvarnir í höfuðborginni og sinntu ýmsum verkefnum sem iðulega eru í höndum opinberra starfsmanna; Guðbjörg Kolbeins fjölmiðlafræðingur skrifar um fjölmiðlafyrirtækið Dagsbrún; Jakob F. Ásgeirsson fer yfir og svarar ritdómi sem Guðjón Friðriksson hefur skrifað um ævisögu Valtýs Stefánssonar – og er svargrein Jakobs nokkuð sláandi. Björn Bjarnason skrifar um stjórnmál líðandi stundar þar sem hann víkur meðal annars að umræðum um upptöku evru og segir þar: „Í niðurstöðum sínum tekur Evrópunefnd ekki afstöðu til þess, hvort æskilegt sé að taka upp evru eða ekki. Lesandi skýrslu nefndarinnar getur þó varla velkst í neinum vafa um, að erfitt sé, ef ekki beinlínis útilokað, að huga að upptöku evru án þess að ræða aðild Íslands að ESB í sömu andrá – og raunar kunni annað að vera óheimilt samkvæmt EES-samningnum.“

Áskrift að Þjóðmálum fæst í Bóksölu Andríkis og kostar ársáskrift með heimsendingu kr. 3.500. Í bóksölunni má einnig kaupa stök hefti tímaritsins.

Ekki sísta lesning hvers Þjóðmála-heftis er leiðari ritstjóra þess, Jakobs F. Ásgeirssonar, en hann hefur árum saman verið kunnur fyrir skrif sín um stjórnmál og menningu. Í Bóksölu Andríkis er einnig að finna pistasafn hans, Frá mínum bæjardyrum séð, sem geymir úrval fastra pistla hans úr Morgunblaðinu og Viðskiptablaðinu. Í pistlunum er komið víða við – og sjaldan horft á mál frá þeim sjónarhóli sem algengastur er í íslenskri þjóðmálaumræðu. Og Jakob fjallar þar um fleiri mál en hefðbundin stjórnmál. Eftirminnileg er til dæmis endurminning hans um árin tvö sem hann bjó á bresku heimili hjónanna Michael Aris og Aung Sang Suu Kyi, leiðtoga stjórnarandstöðunnar í Búrma, sem nú er á hvers manns vörum: „Við andlát Michaels rifjast upp margar minningar: glíman við að halda lífinu í „Puppy“, blindum og ellihrjáðum, fögnuðurinn þegar Suu hlaut Nóbels-verðlaunin, langar samræður um ástandið í Búrma en líka almennt um lífið og tilveruna, kvöldið sem Michael sýndi mér dúkana sem Suu hafði skrifað á örsmáu letri ýmsar ritgerðir sínar í bókinni Freedom from Fear og þjónustustúlkan smyglað úr húsi hennar með því að vefja þá um sig innanklæða, lýsing hans á fyrsta endurfundi þeirra eftir tveggja og hálfs árs aðskilnað, eða þegar ég fór á hans vegum til London að taka upp á segulband blaðamannafund sem nokkrir ráðherrar úr herforingjastjórninni héldu þar. Sterkasta minningin er þó fölskvalaus ást Michaels til konu sinnar og óbilandi tryggð hans við baráttu hennar í þágu þjóðar sinnar. Það er vissulega merkileg lífsreynsla að hafa fengið að komast í dálítið návígi við líf slíkrar afrekskonu eins og Aung San Suu Kyi. Meira virði er þó að hafa fengið að kynnast mikilhæfum og góðum dreng sem bar með reisn þungan kross sem örlögin lögðu honum á herðar. Hetjudáðir verða ekki settar á vogarskálar – en ef til vill var Michael Aris ekki minni hetja en hans víðfræga kona.“

Frá mínum bæjardyrum séð fæst í Bóksölu Andríkis og kostar kr. 1.550 heim send.