Miðvikudagur 26. september 2007

269. tbl. 11. árg.

H ún gekk hratt og hljótt fyrir sig ráðning nýs forstjóra Tryggingastofnunar ríkisins. Krati með almennt hyggjuvit hverfur á braut og kvennalistakona með háskólapróf kemur í hans stað. Félagi Jóns Baldvins út og vinkona Ingibjargar Sólrúnar inn. Tímanna tákn. Í fréttatilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu kemur ekki fram hver skipaði hinn nýja forstjóra og ekki heldur hvort skipunin er tímabundin. Á vef Tryggingastofnunar er tilkynning sem bendir ekki til annars en að ráðningin sé til frambúðar. Lögum samkvæmt mun það hafa verið heilbrigðisráðherra að tillögu stjórnar Tryggingastofnunar ríkisins sem skipaði forstjórann. Í stjórn stofnunarinnar sitja fimm menn, þar af einn núverandi og annar fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar.

Sem kunnugt er munu ríkisstjórnarflokkarnir hafa samið um að við stjórnarmyndun í vor að starfsemi Tryggingastofnunar ríkisins færist að miklu leyti frá heilbrigðisráðuneyti til félagsmálaráðuneytisins, frá ráðherra Sjálfstæðisflokks til ráðherra Samfylkingar.

Vefþjóðviljanum er ekki kunnugt um að forstjórastarfið hafi verið auglýst laust til umsóknar. Það er full ástæða til að hrósa heilbrigðisráðherra fyrir að hafa látið það eiga sig. Það er ástæðulaust að draga fjölda umsækjenda á asnaeyrunum þegar búið er að semja um það á æðstu stöðum hvaða vinkona Ingibjargar Sólrúnar hreppir hnossið.

Vefþjóðviljinn hefur einu sinni vitnað til orða hins nýja forstjóra. Sigríður Lillý Baldursdóttir flutti ræðu á alþjóðlegum baráttudegi kvenna fyrir þremur árum og lagðist gegn því „glapræði“ að setja þak á greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði en sú leið var þá til umræðu til að koma í veg fyrir gjaldþrot hans. Sigríður Lillý vildi með öðrum orðum að fullfrískt fólk með 2 milljónir í laun á mánuði fengi áfram 1,6 milljónir króna á mánuði (80% af launum) í greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins, sem sá um rekstur sjóðsins á þeim tíma. Til allrar hamingju var ekki tekið mark á þessari tölu Sigríðar Lillýar og þak var sett á greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði sem er þó alltof hátt.

Það er ekki gæfulegt að nýr forstjóri veigamestu stofnunar velferðarkerfis ríkisins skuli telja það meðal mikilvægustu verkefna hennar að greiða hátekjumönnum svo brjálæðislegar bætur að annað eins hefur ekki þekkst í sögu velferðarkerfa heimsins. Allt annað sé „glapræði“.