Mánudagur 24. september 2007

267. tbl. 11. árg.

I ngibjörg Sólrún Gísladóttir kom í stutta heimsókn til Íslands um helgina og hélt af því tilefni ræðu þar sem hún réðst einkum á ráðherra síðustu ríkisstjórnar og seðlabankann, sem henni er mjög uppsigað við. Ingibjörg taldi ráðherra síðustu stjórnar hina verstu menn, meðal annars fyrir það að hafa með ýmsum tiltækjum undir lok kjörtímabilsins skuldbundið ríkissjóð á margan hátt, og stæðu þær skuldbindingar langt umfram valdatíma þeirra.

Einu sinni var borgarstjóri í Reykjavík sem nokkrum dögum fyrir kosningar tilkynnti um samkomulag sem hann hafði þá gert á laun við þáverandi heilbrigðisráðherra um uppbyggingu hjúkrunarheimila. Heilbrigðisráðherrann hafði að vísu enga heimild til að skuldbinda ríkissjóð, en þegar þáverandi fjármálaráðherra benti á það formlega atriði, þá þótti sú ábending hins vegar vera sérstakt sannindamerki um illmennsku flokks hans, sem greinilega vildi ekkert „gera fyrir gamla fólkið“.

Ingibjörg Sólrún hefur fulla skömm á öllum sem komu að þessu leiðindamáli og mun í næstu ræðu sinni taka þá til bæna.

E in mikilvægasta þumalfingursregla við þróun faglegs og upplýsts nútímaþjóðfélags er að ef í nokkru máli er til „sænsk leið“, þá á að fara hana og helst blindandi. Nú hafa margir sænskir prestar skorið upp herör gegn þeirri feiknarlegu karlrembu sem felst í þeim sið að brúðir ganga inn kirkjugólf með föður sínum. Allir sjá að þessi siður þýðir í augum allra viðstaddra að brúðurin hafi fram að giftingarstund verið eign föður síns og baráttan gegn þessu er næstum því eins mikilvæg og kynjatalning gesta í Silfri Egils.

N ú er búið að stofna félag femínista í Háskóla Íslands og var kominn tími til. Morgunblaðið mætti að sjálfsögðu á stofnfundinn og sagði frá þessu stóra máli daginn eftir í feitletraðri frétt á hálfri síðu með tveimur litmyndum.

Það hefði blaðið einnig gert ef stofnað hefði verið félag frjálshyggjumanna í háskólanum.

Eða bara eitthvert annað félag en femínistafélag.