Helgarsprokið 23. september 2007

266. tbl. 11. árg.

Þ að hefur lítið farið fyrir stóra Grímseyjarferjumálinu í fjölmiðlum á sama tíma og Grímseyjarferjumálið hefur fengið mikla athygli. Grímseyjarferjumálið snýst um framkvæmd á vegum ríkisins sem fór fram úr áætlun og telst varla fréttnæmt. Fréttnæmara hefði verið ef framkvæmdin hefði verið á eða undir áætlun. Það snýst líka um ráðherra sem ákvað að finna sökudólg í málinu með því skilyrði þó að sökudólgurinn mátti ekki vera starfsmaður í samgönguráðuneytinu og ekki starfsmaður Vegagerðarinnar því ríkisstarfsmenn gera ekki vitleysur. Að lokum fann ráðherrann skipaverkfræðinginn, ráðgjafann sem hvorki starfaði hjá ráðuneyti né vegagerð en hafði einhvern tímann skoðað ferjuna margumræddu og lýsti því yfir í hádegisfréttum síns Ríkisútvarps að þar væri sá seki fundinn og klykkti út með að nefna ráðgjafann með fullu nafni, starfstitli og búsetu.

„Stóra Grímseyjarferjumálið snýst um þá spurningu hvort ríkið eigi að smíða, kaupa eða leigja Grímseyjarferju yfirleitt. Þeirri spurningu hefur ekki verið svarað nema með þeirri óútskýrðu naumhyggju að við verðum að halda byggð í landinu. Hvers vegna verðum við að halda byggð í landinu? Erum við verr stödd núna en þegar byggð var á Hornströndum svo dæmi sé tekið?“

Bjarna Harðarsyni, þingmanni og bóksala, þótti þetta ósanngjarnt af ráðherra og lét það álit sitt í ljós í blaðagrein. Ráðherra tók gagnrýni Bjarna alvarlega og fól aðstoðarmanni sínum að rannsaka málið sem skilaði niðurstöðu skömmu seinna í stuttri ritgerð sem fjallaði að mestu um þá uppgötvun aðstoðarmannsins að Bjarni væri hvorki þingmaður né bóksali heldur naut og það af ýmsu tagi. Að þessari niðurstöðu fenginni hirtu ráðherra og aðstoðarmaður hans ekki frekar um gagnrýni Bjarna enda ljóst að hún væri eins og hvert annað baul.

En Bjarni var ekki eini gagnrýnandinn og í Blaðinu nú um helgina var svo komið að ráðherrann segir að hann hafi beðið skipaverkfræðinginn afsökunar á ærumissinum með þeim orðum að það hafi verið ósanngjarnt af sér að nefna hann einan. Það var og. Ráðherrann sem í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins hikaði ekki við að nafngreina sökudólginn hefur nú komist að því að það voru fleiri sekir í málinu en nú ber svo við að hann er hættur að nefna sökudólgana á nafn. Hann ætlar að láta það standa að það hafi verið skipaverkfræðingurinn nafngreindi og svo einhverjir aðrir ónafngreindir sem bera sök í málinu. Finnst ráðherranum það sanngjarnara?

En að stóra Grímseyjarferjumálinu. Stóra Grímseyjarferjumálið snýst um þá spurningu hvort ríkið eigi að smíða, kaupa eða leigja Grímseyjarferju yfirleitt. Þeirri spurningu hefur ekki verið svarað nema með þeirri óútskýrðu naumhyggju að við verðum að halda byggð í landinu. Hvers vegna verðum við að halda byggð í landinu? Erum við verr stödd núna en þegar byggð var á Hornströndum svo dæmi sé tekið? Hvað gerðist ef ríkið keypti ekki og starfrækti Grímseyjarferju. Hvað gerðist ef ríkið hætti að halda við flugvellinum í Grímsey? Það er ekki gott að segja, hugsanlega myndu Grímseyingar kaupa sér ferju og reka hana sjálfir og jafnvel halda við flugvellinum. Hugsanlega myndu einhverjir þeirra flytja til Akureyrar, Dalvíkur, Reykjavíkur eða annað. Nemendum í skólanum myndi þá hugsanlega fækka en þeir eru níu núna og starfsmönnum skólans hugsanlega líka en þeir eru nú þrír, einn á hverja þrjá nemendur. Frekari upplýsingar um Grímsey má annars finna á vefsíðu Grímseyjarhrepps, www.grimsey.is, en þar er meðal annars leitarvél fyrir þá sem þurfa að finna einhvern af tíu starfsmönnum hreppsins.

Það er ekki nokkur vafi að mörgum ef ekki öllum Grímseyingum líður vel í Grímsey og vildu helst hvergi annarsstaðar vera og ekki skyldi gera lítið úr þeim tilfinningum sem fólk ber til sinna heimahaga. Það er hins vegar umhugsunarefni hvers vegna taka eigi skatta af fólki annarsstaðar til að standa straum af búsetu fólks í Grímsey. Ef fólk getur ekki búið í Grímsey fyrir eigin reikning, hver er þá réttlæting þess að það búi þar á annarra reikning? Er svarið aftur hið óútskýrða: “við verðum að halda byggð í landinu”?

Nú er það svo að margir á höfuðborgarsvæðinu búa ekki í sínum heimahögum. Einhverjir ólust upp í einbýli í góðu úthverfi en verða að láta sér lynda að hírast í blokk í Vesturbæ á fullorðinsárum. Margir gætu vel hugsað sér að búa í Hveragerði, á Selfossi, í Borgarnesi eða á Akranesi og sækja vinnu til borgarinnar en hafa ekki efni á því. Enn aðrir hafa flutt langt að sakir efnahags og myndu eflaust margir brott fluttir Ísfirðingar til dæmis vilja búa þar fyrir vestan ef frítt væri í flug til Reykjavíkur kvölds og morgna. Það myndu með öðrum orðum fjölmargir búa annarsstaðar en þeir búa nú, ef þeir þyrftu ekki að bera kostnaðinn af búsetu sinni. Hvers vegna kemur ríkið ekki til móts við þetta fólk og styrkir til að mynda þann sem ólst upp í einbýli í úthverfi í Reykjavík til að búa þar áfram á fullorðinsárum. Hefur það eitthvað með vægi atkvæða að gera eða óttast menn að öllum yrði þá ljós vitleysa byggðastefnunnar?

Kannski hvorttveggja.