Laugardagur 22. september 2007

265. tbl. 11. árg.

B reskir fjölmiðlar hafa greint frá því að skráðum afbrotum, sem rúmenskir glæpamenn fremja í Bretlandi, hefur fjölgað verulega það sem af er árinu. Nánar tiltekið eru glæpirnir átta sinnum fleiri nú, en þeir voru á jafn löngum tíma í fyrra. Þetta þarf vitaskuld ekki að koma á óvart enda fengu Rúmenar óhindraðan aðgang að Bretlandi vegna aðildar Rúmeníu að Evrópusambandinu um síðustu áramót. Ekki er það hins vegar svo að heildarglæpum í heiminum hafi fjölgað sem þessu nemur, því breskir fjölmiðlar hafa það eftir rúmenskum yfirvöldum að þar á bæ hafi glæpum fækkað eftir að evrópskar dyr opnuðust fyrir Rúmenum.

Þessar fregnir benda auðvitað til þess að það hafi ekki verið eintóm gæðablóð sem brugðu sér af bæ eftir að Rúmenía gekk í Evrópusambandið. En hver hafði líka látið detta sér slíkt í hug? Vissulega eru enn hér og hvar til menn sem halda að lönd hafi tóman ávinning af straumi útlendinga til sín, en slíkum mönnum fer væntanlega hratt fækkandi. Einstaka sinnum heyrast þeir frasar enn hafðir á lofti í umræðum um útlendingamál, að innflytjendur einfaldlega auðgi menninguna og því eigi lönd að kappkosta að fá sem flesta og helst úr sem fjölbreyttustum heimshornum. En vitaskuld eru innflytjendur misjafnir eins og aðrir og þó flestir þeirra reynist hinir nýtustu borgarar þá eru auðvitað aðrir sem verða til tómrar armæðu hvar sem þeir koma.

En þessi meinloka, að nýbúar hljóti alltaf að vera nýja landinu til gagns og gleði, stórspillir allri umræðu um útlendingamál. Hún veldur því að þeir sem gína við henni taka að berjast af ákefð fyrir hverju því sem þeir halda að sé málstaður nýbúa og fyrir því að aldrei sé orði hallað á neinn úr þeirra röðum eða gefið í skyn að neinn þeirra geti tengst einhverju misjöfnu. Heimamenn verði svo að sætta sig við að nú búi þeir í „fjölmenningarþjóðfélagi“ og það kalli á „ýmsar breytingar“. Margir þeirra sem sjá í gegnum vitleysuna bregðast þá gjarnan við með öfgum í hina áttina, og telja alla nýbúa vera til þess eins komna að leggjast upp á skattgreiðendur, spilla góðum siðum og hafa þjóðlegar hátíðir af landsmönnum.

Vefþjóðviljinn er lítið fyrir hóphyggju eins og lýsir sér í þeim kenningum að nýbúar séu allir menningarauki eða þá afætur og glæpamenn. Þeir eru ólíkt fólk sem á það sameiginlegt að hafa af einhverjum ástæðum séð þann kost vænstan að yfirgefa heimaland sitt og reyna fyrir sér annars staðar. Það er eðlilegt og engin nýlunda að sumt fólk vilji leita hamingjunnar í fjarlægum löndum. Það er beinlínis mikilvægt að stjórnvöld víða um heim hafi það aðhald að menn geti yfirgefið þau og flutt annað. En það að menn geri slíkt leggur auðvitað engar sérstakar skyldur á þá sem þar eru fyrir. Ekki um þýðingarþjónustu, veitingu ríkisborgararéttar eða breytt gildismat. En móralska kröfu á hver maður, sem fluttur er til nýs lands, hins vegar til þess að vera, eins og unnt er, metinn sem einstaklingur eftir eigin kostum og göllum, fremur en þeim einfeldningshætti að allir nýbúar hljóti að vera af sama sauðahúsi.