Föstudagur 21. september 2007

264. tbl. 11. árg.

I ngibjörg Sólrún Gísladóttir, þessi sem Sjálfstæðisflokkurinn gerði að utanríkisráðherra á dögunum, var gestur í Kilju Egils Helgasonar í Ríkissjónvarpinu í fyrrakvöld. Þar sagði hún frá uppáhaldsbókinni sinni Veröld sem var eftir Stefan Zweig.

Hún segir okkur svo merkilega sögu um hvernig Evrópa var í upphafi 20. aldar þegar fólk leit á sig sem Evrópubúa, það fór á milli borgar í Evrópu, Vínarborgar, Parísar, Rómar, Amsterdam, það þurfti ekki að sýna vegabréf, það þurfti ekki að vera með einhver gjaldmiðilsvandræði, það gat farið og fengið vinnu og setið við skriftir eða lært í háskólum og Evrópa var opin og eitt svæði. Og síðan hvernig þetta lokast allt saman inn í þjóðríkjunum um og upp úr seinni heimsstyrjöld. Við erum kannski rétt að byrja að vinna okkur aftur inn í þessa veröld sem þarna var.

Nei það voru ekki gjaldmiðilsvandræði í upphafi 20. aldar þótt engin sameiginleg mynt væri fyrir Evrópu, heldur fjöldi gjaldmiðla. Og þrátt fyrir að ekkert yfirþjóðlegt samræmingar- og tilskipanavald væri til staðar í Brussel fóru menn hindrunarlítið á milli landa – þjóðríkja – án vegabréfs. Það var svo ekki fyrr en með uppgangi sameignarstefnunnar, bæði kommúnisma og fasisma, sem landamæri lokuðust og gerðar voru tvær skelfilegar tilraunir til að sameina alla Evrópu undir einni stjórn.

Það er einstæð óvild utanríkisráðherrans gagnvart þjóðríkinu þótt hún sé í forsvari fyrir eitt slíkt. Það er líklega hluti af þeirri stefnu hennar að lýðveldið Ísland verði útihús á stórbýlinu í Brussel.

En eins og hún benti sjálf á – án þess að hafa ætlað sér það – hefur Evrópa verið opinn heimur þrátt fyrir þjóðríkin. Þegar allt kemur til alls er það undir þjóðríkjunum sjálfum komið hve opin þau eru.

O peration Pole Star. Varðskip, þyrlur og vopnaðir ríkisstarfsmenn. Jú þeir náðu stórum skammti í þetta sinn og voru að vonum drjúgir með sig í einkennisfötunum á blaðamannafundi. En hverju breytir þetta? Kannski dregur örlítið úr framboði fíkniefna hér á landi um hríð. Þá hækkar verðið og fíklarnir þurfa að stela fleiri fartölvum og flatskjám, fara fleiri ferðir sem burðardýr og selja sig oftar til að fjármagna neysluna.

Fíkniefnaneysla er mikið böl. Engum hefur tekist að draga úr þessu böli með lögregluaðgerðum gegn sölumönnum efnanna. Þrátt fyrir að dauðarefsing liggi við fíkniefnasölu í ýmsum löndum halda efnin áfram að flæða milli landa. Í flestum rammgerðum fangelsum má kaupa hvaða efni sem er. Segir það mönnum ekkert um hve óraunhæft það verkefni er að koma í veg fyrir framboð þessara efna?

Í leiðara Fréttablaðsins í dag er tekið á fréttum af fíkniefnafundinum á Fáskrúðsfirði af stillingu og skynsemi. Í honum segir Jón Kaldal:

Hið sorglega er að draumurinn um að loka landinu fyrir ólöglegum fíkniefnum er örugglega tálsýn. Kaldhamraður veruleikinn segir okkur að á meðan markaður er fyrir eiturlyf mun verða framboð af þeim. Enda voru viðbrögð reyndustu manna í meðferðargeiranum á þá leið að þessi umfangsmikla aðgerð hefði takmörkuð áhrif á fíkniefnamarkaðinn

Fíkniefnaneysla er persónulegur verknaður. Hún verður ekki upprætt með varðskipum og víkingasveitum.