Fimmtudagur 20. september 2007

263. tbl. 11. árg.

Í slenskir stjórnmálamenn líta niður á hinn almenna borgara og finnst hann hálfgerður fáráðlingur.

Hér er auðvitað nokkuð mikið sagt og ekki af fullkominni sanngirni, því auðvitað eru til stjórnmálamenn sem þessi ófagra lýsing á ekki við um. En verkin sýna merkin og ef horft er á það sem íslenskir stjórnmálamenn, hvort sem er á þingi eða í sveitarstjórnum, hafast að, þá blasir við að þeir telja sjálfa sig eiga að stjórna sem flestum þáttum af daglegu lífi borgaranna. Og að sjálfsögðu ráða yfir sem stærstum hluta af peningum hins almenna manns.

Stjórnmálamenn færa sig sífellt upp á skaftið og reyna að stjórna því hvernig fólk hagar lífi sínu. Þeir vilja að fólk taki strætó í vinnuna eða hjóli. Þeir vilja ráða því hvernig foreldrar skipta á milli sín barnauppeldi. Víðar og víðar banna þeir fólki að reykja, jafnvel í sameignum fjölbýlishúsa þar sem allir eigendur vilja reykja. Þeir skipta sér meira að segja af því hvaða tóbak fólk má taka í nefið. Þeir skipta sér af áhugamálum fólks með því að niðurgreiða sum stórkostlega. Hópíþróttir og allskyns menningarstarf fá látlausa styrki og stofnanarekstur á kostnað skattgreiðenda meðan fólk með önnur áhugamál má gera svo vel að fjármagna þau sjálft eftir að hafa greitt skattana sína svo nágranninn geti fengið myndlistarsýninguna sína fyrir ekkert. Fólk sem vill horfa á nektardans eða dansa hann fyrir aðra, það fær hins vegar ekki að gera það nema lögreglustjórinn mæli með því. Sem hann gerir aldrei. Stjórnmálamenn reka barnfóstrumiðstöð fyrir fullorðna, svokallaða lýðheilsustöð, sem jarmar um það alla daga hvað fólk á að borða og hvað ekki.

Og skattarnir. Þeir eru hættir að lækka hjá ríkinu og hjá sveitarfélögunum fara þeir bara upp svo lengi sem lög frekast heimila. Þingmenn og sveitarstjórnarmenn telja sig greinilega hafa meiri rétt á peningunum en maðurinn sem hafði unnið fyrir þeim. Hvaða skýring getur annars verið á því að útsvarið er hjá langflestum sveitarfélögum í hámarki og ríkinu dettur ekki í hug að lækka tekjuskattinn framar?

Og hvað á hinn almenni maður að gera sem hefur fengið meira en nóg af þessari ofstjórnarárttu? Hann ætti að hætta að kjósa þá menn sem ekki beita sér gegn ofstjórn og skattagleði.

V efþjóðviljinn verður að játa á sig þau mistök að hafa í gær sagt klukkustund á róló kosta 200 krónur. Foreldrar, áhyggjufullir yfir því að okrað hafi verið á Vefþjóðviljanum í sumar, hafa bent á að stundin kosti 100 krónur.