Miðvikudagur 19. september 2007

262. tbl. 11. árg.

H æsta gjald sem foreldrar greiða fyrir eitt barn á leikskólum Reykjavíkurborgar er rétt rúmar 20 þúsund krónur á mánuði fyrir átta stundir á dag, morgunmat og hádegismat. Einstæðir foreldrar, námsmenn og foreldrar með fleiri börn á leikskólum greiða enn minna. Þessi hæsti taxti þýðir að þeir foreldrar sem greiða mest greiða aðeins um 100 krónur á klukkustund fyrir að barnið. Á róló, gæsluvöllum borgarinnar, kostar stundin þó 200 kall.

Þeir sem staðið hafa að því að gera hlut foreldra svo rýran með sífellt meiri niðurgreiðslu sveitarfélaga eru þeir sömu og tala mest um hve laun starfsmanna leikskólanna eru lág; að starf þeirra sé ekki metið að verðleikum. En er nokkur von til þess að svo verði á meðan notendur þjónustunnar eru vandir á að verðmæti hennar sé innan við 100 kall á tímann?

Þ egar veitingamönnum var bannað að leyfa reykingar í húsum sínum nú í sumar tóku reykingamenn að rápa inn og út af stöðunum til að sinna tóbaksnautninni í næturkulda undir húsvegg. Afleiðing af boðum og bönnum. Það er því oftar glaumur utan við staðina og nágrannar staðanna finna fyrir auknu ónæði, hávaða, ryskingum, ælu og hlandi. Afleiðing af boðum og bönnum. Vegna gríðarlegrar skattheimtu af áfengi vilja reykingamenn ekki skilja drykkina við sig og taka þá með sér út í smókinn. Afleiðing af boðum og bönnum. Þessu fylgir skæðadrífa brotinna bjórglasa. Afleiðing af boðum og bönnum.

Og hvernig var það annars, áttu ekki öll vandamál heimsins að hverfa þegar nektardansstaðirnir vor flæmdir úr miðborginni fyrir nokkrum árum?

Nú leggur lögreglustjórinn í Reykjavík til að leyfilegur afgreiðslutími veitingastaða verði styttur verulega. Fleiri boð og bönn?

Í DV í gær var umfjöllun um mengun frá bílum og vistvæna orkugjafa. Með fréttinni fylgdi ófögur mynd af Miklubrautinni í Reykjavík í vetrarstillu. Þar var greinileg talsverð loftmengun. Myndi hún ekki hverfa ef bílarnir fengju vistvænt eldsneyti? Nei, reyndar sæist lítill munur því þessi mengun kemur ekki frá útblæstri bíla heldur undan dekkjum þeirra. Eins og rannsóknir hafa leitt í ljós er aðeins 7% svifryksins í Reykjavík ættað úr púströrum bíla. Stærstur hluti ryksins er uppspænt malbik, jarðvegur og selta.

Í Spegli Ríkisútvarpsins í gær, að loknum daglegum skammti af Bandaríkjahatri og kynjafræðum, var einnig fjallað um „eitraða loftið úr púströrum bensín- og Dieselbíla“. Þar upplýsti þulur að „koltvísýringurinn, útblásturinn, sé hættulegri en umferðin sjálf“ og vitnaði í tölur frá Svíþjóð þess efnis að hann dræpi yfir tvöþúsund manns á ári. Koltvísýringur, sjálf undirstaða lífs á Jörðinni, aðalefnið í ljóstilllífun, er hættulegri en umferðin í Svíþjóð. Segir Spegillinn.