Þriðjudagur 18. september 2007

261. tbl. 11. árg.

N

Rafmagnsbíll frá þarsíðustu öld. Menn hefur lengi dreymt um bílvélar sem geti keppt af alvöru við bensín- og Dieselvélina.

ú stendur yfir mikil ráðstefna í Reykjavík um ökutæki framtíðarinnar og orkugjafa þeirra. Á meðal ræðumanna eru talsmenn etanóls, metanóls, metans, vetnis, Dieselolíu af akri, tvinnbíla, tengitvinnbíla og rafmagnsbíla. Allir telja þeir sína aðferð vera framtíðarlausn á orkuvanda heimsins og mikilvægt framlag til umhverfismála. Um leið telja að minnsta kosti sumir þeirra að aðrar leiðir séu ófærar. Dæmi um það mátti sjá í fréttum í gær þar sem dr. Ulf Bossel talsmaður rafmagnsbílaframleiðanda sagði hugmyndir um vetni óraunhæfar og svonefnt vetnishagkerfi óhagkvæmt.

Hverju eiga menn svo að trúa? Í raun er engin ástæða til að trúa orði af því sem þessir menn segja. Ef talsmennirnir geta boðið upp á orkugjafa sem er jafn ódýr og bensín, jafn áreiðanlegur, aðgengilegur, auðveldur í flutningi og öruggur þá gjöri þeir svo vel. Neytendur eru yfirleitt ekki lengi að skipta nýrri og betri vöru út fyrir gamla.

Hvers vegna er Vefþjóðviljinn að benda á svo augljós sannindi? Jú vegna þess að talsmenn hinna nýju lausna í orkumálum eiga það til að snúa sér til stjórnmálamanna í stað neytenda. Til marks um það má nefna vetnisævintýri Íslendinga sem kostað hefur íslenska og evrópska skattgreiðendur mörg hundruð milljónir króna. Það sem eftir stendur er að einn vetnisstrætóinn er kominn á samgöngusafn austur í sveitum.

Talsmennirnir biðja ekki aðeins um beina ríkisstyrki, eins og íslensku vetnismennirnir, heldur einnig undanþágur frá flestum þeim gjöldum sem lögð eru á hefðbundna bíla. Oftast er farið fram á þessar undanþágur á „vistvænum“ forsendum og íslenska ríkið hefur auðvitað látið glepjast til að setja slíkar reglur. Reykjavíkurborg er einnig með tilburði í þá átt með því að veita „visthæfum“ bílum ókeypis í bílastæði borgarinnar. Skilningur á hugtökum eins og „vistvænn bíll“ er hins vegar misjafn og margbreytilegur. Umhverfisráð Reykjavíkur var nokkur ár að koma sér niður á skilgreiningu á visthæfum bíl og niðurstaðan varð að nota skilgreiningu sem hefur ekkert með loftgæði í borginni að gera. Á dögunum bárust svo fréttir af því að rannsóknir sýndu að tvinnbílar séu ekki vistvænni en mestu bensínhákar þegar á allt er litið.

Því má heldur ekki gleyma að miklar framfarir hafa orðið í smíði hefðbundinna bílvéla, mengunarvarnir hafa verið auknar og eldsneytið hefur gjörbreyst á undanförnum áratugum án þess að ríkisstyrkir eða undanþágur frá gjöldum hafi komið til. Þessar framfarir hafa skipt raunverulegu máli og loftgæði í flestum borgum Vesturlanda hafa batnað í kjölfarið. Þær eru ekki bara mal á ráðstefnum.

Stjórnmálamenn eru oft ágætis fólk. En þeir eru ekki líklegir til að sjá fyrir um hvaða orkulausnir og tækni getur fyrst veitt hefðbundnum bensín- og Dieselvélum keppni. Þeir ættu ekki að skipta sér af þessari þróun.