Mánudagur 17. september 2007

260. tbl. 11. árg.

E

Sveitarstjóri Súðavíkur skattpínir íbúana en ætlast um leið til að ríkið veiti þeim sérstakar skattaívilnanir.

ins og við var að búast virðast flestir hafa tekið því nokkuð vel að ríkið hafi ákveðið að taka meira fé af sumum landsmönnum og færa öðrum með réttlætingunni „mótvægisaðgerðir“. Þessir flestir eru að vísu allir úr hópi þiggjenda því að enn hefur enginn spurt skattgreiðendur hvað þeim þyki um að farið sé enn dýpra í vasa þeirra til að greiða fyrir búsetu annars fólks.

En þó að flestir virðist nokkuð sáttir við að fá meiri ölmusu en áður þá hafa þeir engu að síður efasemdir um að hún sé nægilega mikil eða að hún berist nægilega beint í þeirra eigin vasa. Adolf H. Berndsen formaður fjórðungssambands norðan heiða og fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins telur til að mynda að aðgerðirnar mæti ekki byggðavanda á Norðvesturlandi og að verulega viðbótarfjármuni vanti til að aðgerðirnar teljist ásættanlegt.

Sveitarstjóri Súðavíkur, Ómar Már Jónsson, er annar úr hópi þeirra sem telur margt gott í áformum ríkisstjórnarinnar en er þó þeirrar skoðunar – líkt og allir þeir sem eiga að fá mótvægisaðgerðadúsu frá skattgreiðendum – að ekki sé nóg að gert. Eitt af því sem sveitarstjórinn hefði viljað sjá til viðbótar við milljarðana ellefu sem ríkið ætlar að setja í mótvægisaðgerðir eru skattaívilnanir, sem hann segist viss um að hefðu getað breytt mjög miklu í þeirri þróun sem átt hefur sér stað í langan tíma.

Ætla mætti, ef sveitarstjórinn trúir því sem hann segir, að Súðavík gerði sitt til að efla byggðaþróun og héldi útsvarinu til dæmis í skefjum. Sveitarfélagið gæti heimt 11,24% útsvar af íbúum sínum og stuðlað þannig að bættum lífskjörum. Þess í stað velur Súðavík að taka hámarksútsvar af íbúunum, 13,03%. Það sama má segja um öll þau sveitarfélög þar sem nú er kvartað yfir því að ríkið geri ekki nóg til að efla atvinnulíf og byggðaþróun. Alls staðar skattpína sveitarstjórnarmenn íbúana eins mikið og lög leyfa en kvarta um leið undan því að ríkið taki of mikla skatta af íbúunum.

Er einhver von til að fjölmiðlamenn geri athugasemdir við þennan málflutning?